14.04.1975
Efri deild: 65. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 2881 í B-deild Alþingistíðinda. (2169)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Það hefur gætt misskilnings hjá hæstv. ráðh, þegar ég nefndi flottrollið varðandi skuttogarana. Ég drap á það vegna þess, að frsm, fór svo lítið út fyrir efni frv., og ég taldi að mér mundi aðeins leyfast að víkja að því vegna þess að það er mikið vandamál. En ég vil ekki fara að blanda því inn í þetta frv. Eins og hæstv. ráðh. drap á, er hin löggjöfin í endurskoðun og kemur fram á sínum tíma. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að það væri nauðsynlegt að íhuga það vandamál sem fylgdi flottrollinu og þeirri fjárfestingu sem leiddi af því ef allir færu í flottrollið og síðan yrði það skyndilega bannað og þá yrði búið að eyða jafnvel svo að skipti hundruðum millj. í útbúnað um borð í skipunum, og síðan allt stöðvað. Það er ekkert lítið í húfi þar fremur en í skelfiskinum.

Síðan vildi hæstv. ráðh. svara mér varðandi 1. gr., en þar segir orðrétt í frv.: „m. a. með skiptingu afla milli vinnslustöðva og/eða þeirra báta, sem veiðileyfi hljóta“ — og minnti á skip er lægju við loðnulöndun. En þarna er mikill eðlismunur á. Loðnunefnd hefur starfað þannig að hún segir almennt: Hér er löndunarpláss, þar og þar. — En hún segir ekki við neinn bát: Farðu beint á þessa verstöð og landaðu þar og hvergi annars staðar, þó að pláss sé til. — Þar er reginmunur á. En mér skilst að eftir þessari gr., ef hún fer beint fram eins og ég skil hana, þá geti ráðh. sagt við bát: Þú landar hjá þessari stöð og hvergi annars staðar. — Hér er reginmunur á. Ef við höfum eitthvert svæði með 3 stöðvar og Hafrannsóknastofnunin kemst að þeirri niðurstöðu að það megi fiska um 1 000 tonn og það eru 5 bátar, þá vil ég hafa það þannig að þeir séu frjálsir að því að selja á þrjá staði eftir atvikum eins og þeir fá að gera við loðnuna, en það sé ekki sagt við báta A, B og C: Þið landið í stöðvum S, T og U og hvergi annars staðar o. s. frv. Þetta er eðlismunurinn. Sé úrskurður rn. sá að segja um ákveðinn bát: Þú landar þarna og hvergi annars staðar — þá tel ég rn. ábyrgt. Hér liggur ágreiningurinn. Ég tel að semjum við þannig frv. að þetta verði svo í framkvæmd, þá sé rn. orðið ábyrgt og það er allt annað en á sér stað í loðnulöndunarkerfinu, allt annað. Þrátt fyrir það frelsi, sem þar ríkir, hafa komið upp núna allharðar raddir meðal útvegsmanna um að þessi ábending um, að þarna sé pláss og þarna og þarna og ekki á öðrum stöðum, hafi þær skyldur í för með sér að einhver verði að tryggja greiðslur á loðnuafurðunum. En nú keyrir alveg um þverbak hjá loðnuverksmiðjunum í uppgjöri hjá sumum hverjum. Á útvegsmönnum er kvöð að gera upp við skipshafnir sínar, en þeir fá bara ekki peningana. Og hver er ábyrgur? Enginn nema vitlaus stjórnandi í landi og skipstjórinn. En það eru tugir milljóna sem ekki er skilað til loðnubátanna núna.

Síðan hafa fiskifræðingarnir sjálfir sagt að þetta orðalag í 2. gr., væri þess eðlis og þannig orðað að þeir gætu aldrei starfað samkvæmt því. Hver sér „fyrirsjáanlega varanlega aflaaukningu“? Ekki nokkur einasti maður. Það er ekki hægt. Ef sá maður væri til hér, slíkur spekingur, þá ætti hann að gefa sig fram. Menn geta gert aflaspá, en hún er byggð að meira og minna leyti á lítils háttar rannsóknum, því miður. En þetta orðalag er þannig örugglega og þeir hafa sagt það alveg hreint út, fiskifræðingarnir, að þeir geti ekki starfað eins og það er beint sett fram. Við teljum okkur skilja hvað hér er leitast við að setja fram eða ná, og menn vilja hafa vissan fyrirvara á því að gera sér vonir um aflaaukningu og byggja á þeirri von að veiðileyfi sé veitt til fleiri báta og jafnvel að nýjar stöðvar séu reistar.

Ég tel að þegar við erum efnislega sammála um þessa löggjöf að ýmsu leyti, þrátt fyrir að hún hafi verið að velkjast hér lengi í þinginu eða frv. að henni, þá eigum við að gefa okkur það mikinn tíma að við orðum þetta af raunsæi og skynsemi. Það verð ég að segja. Það hlýtur öllum að vera til bóta þegar framkvæma á lögin og sennilega stendur þetta frv. allmörg ár. Einn af baráttumönnum þessa máls lýsti því yfir að hann áskildi sér rétt, þó að hann styddi það núna — hann hafði á tilfinningunni að þetta væri ekki alveg eins gott og æskilegt væri — hann áskildi sér rétt innan skamms að koma með brtt. við lögin, jafnvel þó að það séu bara fjórar greinar, vegna þess að hann finnur með sjálfum sér að hér er ekki eins heppilegt orðalag á og æskilegt væri. Ef það er óhjákvæmileg nauðsyn að samþ. frv. í dag eða í vikunni, þá verður það að gerast. En þá mun ég ekki geta staðið að þessu orðalagi þó að ég sé að mörgu leyti efnislega með því sem frv. er að boða.