21.11.1974
Neðri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

33. mál, samræmd vinnsla sjávarafla

Guðlaugur. Gíslason:

Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. taldi að það hefði gætt nokkurs misskilnings hjá mér í sambandi við þetta frv. Ég veit satt að segja ekki hjá hvorum okkar gætir meiri misskilnings, því að ef hann hefur skilið orð mín rétt, þá var þar ekki nein ástæða til að ætla að um misskilning væri að ræða. Ég benti á að þetta frv. væri mjög stefnumarkandi og ég benti einnig á það, að í grg. frv. kæmi fram það sem mér hefði ekki verið kunnugt um, — mér var kunnugt um það að bátar voru svæðisbundnir áður, en mér var ekki kunnugt um það að skipstjórar bátanna væru svæðisbundnir einnig, þannig að þeir yrðu að vera búsettir á sama stað og báturinn er gerður út frá. Það var þetta sem ég taldi að mér hefði ekki verið kunnugt um og væri einnig stefnumarkandi, ef ætti að taka það upp áframhaldandi. Ég benti einnig á að ef á að fara að festa í lög hér á Alþ. það sem kemur fram í 2. gr., að það þurfi sérstakt leyfi fyrir byggingu vissra tegunda fiskvinnslustöðva, þá er það einnig mjög stefnumarkandi og að mínum dómi mjög á þann veg að það þurfi að skoða mun betur.

Mér var kunnugt um að það hefur í mörg ár, miklu lengur en hæstv. ráðh. vitnaði til þeirra laga sem samþykkt voru 1973, verið gefin út veiðileyfi fyrir ýmsum tegundum sem viðkvæmar eru ef um ofveiði er að ræða. Ég man eftir að 1957 vorn gefin út leyfi til humarveiða við Vestmannaeyjar. Þær voru þá sá staður sem humarinn var veiddur við. Þau vorn ekki bundin neitt sérstaklega við Vestmannaeyjar. Þetta voru almenn leyfi sem menn fengu sem þessar veiðar vildu stunda þá.

Það er þetta, sem ég vil mjög undirstrika. Ef á að fara út fyrir þann ramma laganna, sem hæstv. ráðh. vitnaði til, og svæðisbinda veiðar einstakra báta við tiltekin svæði og setja skilyrði að eigendur og skipstjórar þeirra skuli vera búsettir við það veiðisvæði, sem um er að ræða, þá hlýtur það að kalla á að önnur veiðisvæði annars staðar við landið geri sömu kröfu. Það verða gerðar sömu kröfur frá Suðurlandi um að aðeins bátum frá því landssvæði verði veitt leyfi til humarveiða og rækjuveiða sem einnig er þar að finna. Það getur vel fylgt á eftir, ef þarf að fara að takmarka almennar veiðar. Ef fiskur gengur það mikið saman hér við land, þá er þetta auðvitað fordæmi fyrir því að það kæmu fram kröfur um að veiðileyfi yrðu svæðisbundin. Ég veit ekki hvort sú stefna er rétt. Ég tel hana mjög hæpna og þess vegna beri að fara með fullri gát í þessum málum og skoða málið í heild mjög vel áður en farið verður að lögfesta frekari hömlur en nú eru í sambandi við veiðar einstakra fiska og sjávardýra. Þetta hefur verið látið viðgangast. Það hefur ekki verið mótmælt enn þessum svæðisbindingum. En það hlaut að koma að því fyrst það er farið að ræða málið hér á hv. Alþingi.