17.04.1975
Neðri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3034 í B-deild Alþingistíðinda. (2286)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Fyrir þá, sem fylgjast með störfum Alþ., virðist það nokkuð kaldhæðnislegt, að við séum á löngum kvöld- og næturfundum þennan daginn að ræða um fóstureyðingar og meira frelsi í þeim efnum, en svo séum við daginn eftir að ræða um það hvernig við megum frekar hjálpa til að þeim konum, sem að framleiðslustörfum vinna í okkar þjóðfélagi, geti liðið betur og það séu meiri möguleikar fyrir ekki aðeins þær, heldur og sérstaklega fyrir þeirra fóstur, sem væntanlega komast á legg.

Ég gerðist meðflm. að þessu frv. fyrst og fremst vegna þess að ég tel að hér sé um svo mikilsvert mál að ræða, ekki aðeins fyrir kvenþjóðina, heldur fyrir íslensku þjóðina í heild, að okkur beri að gera hvað við getum og reyna að finna hinar heppilegustu leiðir til þess að finna lausn á þessu vandamáli, hafandi í huga að það er stór hluti íslensku kvenþjóðarinnar, sem hefur búið við þessa tryggingu nú um langt árabil, og á ég þá að sjálfsögðu við þær sem opinberum störfum gegna. Ég heyri á ræðum manna að menn greinir ekki á um að þetta sé það sem stefna eigi að. Hins vegar greinir menn á um hvort eigi að fara þá leið, sem lögð er til í þessu frv. sem við ræðum hér, eða hvort eigi að setja þetta undir Tryggingastofnun ríkisins, hvort þetta eigi að verða hluti slíkra trygginga. Auðvitað getur okkur greint á um þetta. En það hefur líka komið fram hjá ræðumönnum að stóra spurningin er auðvitað hvaðan og hvernig við eigum að fjármagna þetta þýðingarmikla mál. Nú er ég þeirrar skoðunar, þótt ég taki nær í einu og öllu undir það sem hv. þm. Eðvarð Sigurðsson sagði, sem er með mér í stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs, — ég taki í einu og öllu undir það sem hann sagði um skuldbindingar Atvinnuleysistryggingasjóðs og þess, sem af honum væri vænst, nema þá að einhver frestur væri gefinn á að slíkt frv. tæki gildi. En þó er því ekki að leyna að ég hef lengi haft þá trú að ákveðinn hluti af því fé, sem ráðstafað er frá Atvinnuleysistryggingasjóði, mætti fara til þarfari hluta en raun ber vitni um, og þar á ég að sjálfsögðu við 1/4 hluta vaxtagjafanna, sem ég kalla, til hinna og þessara staða víðs vegar í kringum land. Ég tel, að það sé fé, sem væri þarfara komið í slíku verkefni. Ég tel líka, að þótt ég vilji ekki og hafi ekki viljað minnkað mikið þann hlut sem hafi farið til einstakra fyrirtækja til sveitarfélaga frá því sem verið hefur, hefði ég frekar viljað ganga á það fé sem hið opinbera hefur eiginlega krafist að það fengi til sinnar ráðstöfunar, það væri hægt að minnka það fé nokkuð til þess að koma á móti í slíku máli. Við verðum hins vegar að gera það upp við okkur, hvar við eigum að skerða ráðstöfunarfé Atvinnuleysistryggingasjós. Eigum við að taka af því fé sem fer til íbúðabygginga? Eigum við að taka af því fé sem fer til hafnalána og er líka fast og bundið? Eigum við að taka af því fé sem fer til vatnsveitna og stórauknum hluta sem stjórnin áætlaði til hitaveitna? Hvar eigum við að skera niður? Við höfum líka allaf lánað ákveðið fjármagn til fiskvinnslufyrirtækja, til félagsheimila og fleiri slíkra hluta. Þetta verður auðvitað að gerast upp. Hvar eigum við að skera niður? Persónulega segi ég: Við skulum fyrst og fremst skera niður þær fjárgjafir sem hafa verið frá sjóðnum, sem ég tel hafa verið jafnvel allt upp í mörg ár, getum við sagt, án vaxta eða afborgana hjá sjóðnum.

Um leið og við ræðum um þetta, hvort við eigum að taka af þessu ráðstöfunarfé sjóðsins í þetta mjög nauðsynlega mál að mínu mati, þá þurfum við líka, eins og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson, 7. þm. Reykv., benti á, að ræða um hvort möguleiki sé á því að auka fé sjóðsins. Við erum nú með svo og svo mörg hundruð millj. kr. í launaskatt sem rennur nær allur til húsbygginga. Ef hægt verður að verðtryggja lífeyrissjóði verkalýðsfélaganna, sem eru nú að nálgast marga milljarða að verðmæti, — ef það verður hægt og ef húsnæðismálastjórn getur í framtíðinni byggt upp sitt lánakerfi m. a. með enn stærri hlut lífeyrissjóðanna en hefur verið hingað til, er ekki hugsanlegt að Atvinnuleysistryggingasjóður fengi þá kannske einhvern hlut af þeim launaskatti sem nú er greiddur til húsnæðismálanna til þess að standa undir þessu máli?

Ég er persónulega sannfærður um að þetta sé rétta leiðin til að tryggja þær konur, sem koma úr verkalýðshreyfingunni, sem á þennan sjóð koma þaðan og þurfa að fara frá þennan nauðsynlegasta tíma til þess að koma börnum sínum ég legg fyrstu daga lífs þeirra. Ég held, að leiðin sé ekki óeðlileg. Þær verða að fara frá sinni vinnu til að standa í barneign, og ég tel eðlilegt að þessi sjóður standi undir því. Hitt er annað mál, að við getum auðvitað þráttað um það okkar á milli hvort við eigum að borga þetta úr hinum almenna tryggingasjóði landsmanna eða úr þessum sjóði. Ég held hins vegar að ef við viljum koma málinu áfram og ef við viljum gera það að raunveruleika, helst nú í ár eða frá næstu áramótum, þá beri okkur að fara þessa leið.

Ég sá strax þegar 1. flm. talaði við mig um að gerast meðflm. að málinu þá miklu vankanta sem við mundum rekast á í sjóðsstjórninni, eins og hv. þm. Eðvarð Sigurðsson tók fram, vegna þeirra skuldbindinga sem við höfum þegar tekið á okkur og eru lagðar á sjóðsstjórnina af stjórnvöldum án þess að sjóðsstjórn sé látin vita af nema með litlum fyrirvara. Stundum er þetta í sjálfu sér ekki hægt, sbr. Vestmannaeyjagosið eða hamfarirnar á Norðfirði, í Neskaupstað, þannig að það er auðvitað ekki hægt að segja fyrir fram um hvers sjóðurinn sé megnugur þó að við séum að gera áætlanir. Ég held samt sem áður að þarna sé leið sem við eigum að reyna að fara, ekki til þess að brúa bil, heldur koma á móti sjálfsagðri kröfu sem ég held að sé ekki síður viðurkennd af karlmönnum en af þeim, sem bera hana fram, sem hafa fyrst og fremst verið konur, ekki aðeins hér á Alþ., heldur og utan þings og á öðrum þingum og þó kannske fyrst og fremst innan launþegasamtakanna, sem hafa byggt þennan sjóð upp, því að sjóðurinn er að sjálfsögðu byggður upp af hluta þess samnings sem á sínum tíma var gerður í sambandi við laun og kjör. En ég held að það megi hiklaust fara fram á það við þá n., sem málið fær til meðferðar, að hún kanni þennan möguleika. Að sjálfsögðu mun stjórn Atvinnuleysistryggingasjóðs fá málið til umsagnar og þá mun n. verða svarað um það hvernig fjárhagsmöguleikar eru. En ég tel sem sagt, og þess vegna er ég meðflm. að frv., að það sé möguleiki til þess að koma mjög verulega á móti þessari sjálfsögðu ósk íslenskra kvenna.