17.04.1975
Neðri deild: 68. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3043 í B-deild Alþingistíðinda. (2289)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Ég skal vera mjög stuttorður, en ég vildi að það kæmi skýrt fram, að í mínum huga er þetta mjög gott mál. En ég sé líka, að það verða margar konur skildar eftir. Þetta er aðeins hugsað fyrir þær konur, sem vinna í verkalýðsfélögum og taka laun þar í gegn, og fyrr en allar konur, sem ala barn, fá fæðingarorlof tel ég ekki málinu komið í höfn. Hvers á bóndakonan að gjalda, ef hún fær þetta ekki, heldur aðeins kona sem vinnur hjá opinberum aðila eða kona sem vinnur í verkalýðsfélagi. Eða hvers á húsmóðirin að gjalda, sem sér um börn sín heima fyrir og vinnur ekki úti? Það er þetta, sem ég vildi, að kæmi hér skýrt fram, að að mínu mati eiga allar konur, sem ala börn, að fá fæðingarorlof, og ég kem ekki auga á að þetta geti náðst nema í gegnum almannatryggingar. Að þessu verður að stefna. Þar fyrir dettur mér ekki í hug annað en að segja að þetta er gott mál, að því sem það nær, og ég mun hiklaust fylgja því út af fyrir sig.