21.04.1975
Neðri deild: 69. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3048 í B-deild Alþingistíðinda. (2300)

23. mál, meðferð einkamála í héraði

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson) :

Herra forseti. Frv. það um breyt. á l. nr. 85 frá 23. júní 1936, um meðferð einkamála í héraði, sem er hér lagt fram, er samið af réttarfarsnefnd, en dóms- og kirkjumrn. óskaði þess haustið 1973 að hún tæki til athugunar till. er fram höfðu komið hjá borgarfógetaembættinu í Reykjavik um að lögfest yrði heimild til þess að beita hljóðritun á dómþingum í einkamálum. Slík heimild hefur verið um árabil í lögum um meðferð opinherra mála, raunar allt frá því að þau lög voru sett fyrst árið 1951. Sú heimild mun þó fremur lítið hafa verið notuð. Nokkur síðustu ár mun slíkum hljóðritunum hafa verið beitt við borgardómaraembættið í Reykjavík í tilraunaskyni án þess að bein heimild hafi verið til þess í lagareglum.

Við umr. á síðustu árum um leiðir til þess að flýta meðferð mála fyrir dómstólum, ekki síst meðferð einkamála hefur komið fram að ýmsir dómarar í einkamálum hafa talið verulegan flýtisauka að því að beita hljóðritunartækni við meðferð þessara mála. Er einsýnt, að nauðsynlegt er að um það efni séu þá skýrar heimildir og ákvæði um að setja megi hæfilegar reglur um skipusega framkvæmd hljóðritunar og vörslu á hljóðritunargögnum.

Ákvæði þau, sem réttarfarsnefnd leggur til að lögfest verði, fela í sér heimild fyrir dómsmrh. til að ákveða að upp verði tekin slík hljóðritun við héraðsdómaraembætti. Þess má geta að í lögum um meðferð opinberra mála er almennt ákvæði um að sá kafli laga um meðferð einkamála í héraði, sem lagt er til í þessu frv. að breytt verði, gildi einnig um meðferð opinberra mála. Geta því reglur, sem settar eru samkv. þessum lögum, einnig komið að notum við meðferð opinberra mála eftir því sem við á um framkvæmd og vörslu hljóðritunar.

Ég leyfi mér að öðru leyti að vísa til grg, frv. Þetta frv. hefur gengið í gegnum hv. Ed. og verið samþ. þar eftir ítarlega athugun og aðeins með nokkurri breyt, á 3. gr. frv. Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn. og vænti ég að hún geti með tilliti til þeirrar ítarlegu skoðunar, sem fram hefur farið á frv. í hv. Ed., hraðað meðferð þess eftir því sem kostur er.