25.11.1974
Efri deild: 10. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í B-deild Alþingistíðinda. (238)

64. mál, Framleiðslueftirlit sjávarafurða

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hér hefur hæstv. sjútvrh. gert grein fyrir frv. sem Alþb. hlýtur að fylgja einhuga. Fyrir mína parta tel ég nafnbreytinguna á frv., sem ráðh. gerði grein fyrir, greindarlega og hef ekkert út á hana að setja. Aftur á móti er ég í meiri vafa um breyt., sem gerð hefur veríð á 6. gr. frv., þar sem ekki er kveðið á neinn hátt á um menntun eða þekkingu forstjóra Framleiðslueftirlitsins. Ég er fyllilega sammála hæstv. sjútvrh. um það að fastákveðið háskólapróf sé alls ekki trygging fyrir því að hlutaðeigandi maður sé öllum öðrum heppilegri til að gegna þessu starfi. En ég vildi gjarnan að það yrði kveðið með einhverjum hætti á um aðra þá hæfileika sem hlutaðeigandi maður þyrfti að vera búinn til þess að vera tekinn jafnvel fram yfir manninn með háskólaprófið. Ég legg eindregið til að tekin verði inn í frv. einhver slík ákvæði sem hægt væri að styðjast við til réttlætingar á ráðningu. því fer víðs fjarri að það hvarfli að mér að núv. hæstv. sjútvrh. né hugsanlegir eftirmenn hans yrðu til viðtals um að ráða óhæfa menn í þetta starf. En ég held að eigi að síður væri það styrkur fyrir sjútvrh. að hafa slík ákvæði í frv.

Þá komum við að 9, gr. frv. Mér er kunnugt um það að hv. þm. Helgi F. Seljan taldi þessari gr. það til foráttu, er málið var rætt í fyrra, að ekki væri kveðið á um menntun matsmanna eða skyldur þeirra og réttindi umfram það sem fyrir er mælt í lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Mér er persónulega kunnugt um mjög erfiða starfsaðstöðu fiskmatsmanna á liðnum árum. Í þetta starf hafa yfirleitt valist valinkunnir sómamenn, kunnugir sjávarútvegi og kunnugir fiskverkun, sumir hverjir svo snjallir fiskverkendur sjálfir, að þar hefur tæpast verið hægt að fara fram á meira. En þeir hafa unnið við mjög slæmar aðstæður, bæði hvað launakjör snertir og eins raunverulega í því stríði sem þessir menn standa stöðugt í við fiskverkendur og fiskseljendur. Mér er kunnugt um það að athygli fyrrv. sjútvrh. var vakin á þessu atriði og aths. fékk þar góðar undirtektir, en við sjáum að umfram undirtektirnar hefur eiginlega ekkert skeð. Þessu er ekki sinnt þegar frv. er nú lagt fram öðru sinni.

Ég vil svo að endingu ítreka stuðning við frv. með hinu nýja nafni með fyrrgreindum fyrirvörum.