25.11.1974
Neðri deild: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 360 í B-deild Alþingistíðinda. (249)

20. mál, upplýsingaskylda stjórnvalda

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Hv. 8. landsk. hefur líklega heyrt óvart rangt það sem ég sagði í ræðu minni hér áðan. Úr þeirri ræðu getur hann ómögulega lesið það að ég hafi líkt íslenskum blaðamönnum við togaranjósnara, ekki einn stafur í þá átt. Það er allt tilbúningur hv. 8. landsk., sjálfsagt af því að hann hefur ranglega heyrt eða ranglega tekið eftir því sem ég sagði. Ég skal svo ekki karpa meir við hann um þetta mál.

Mér er það auðvitað ljóst og hefur verið, að það er æskilegt að sem best samband sé á milli Landhelgisgæslunnar og blaðanna og fjölmiðla. Það hygg ég að yfirleitt hafi verið þó að þar kunni að hafa verið einhverjar undantekningar. Ég hygg t.d. að blaðamönnum hafi verið boðið að fara með varðskipi, með þeim kostum að vísu að það var ekki hægt að setja þá í land alveg á stundinni þegar þeir óskuðu eftir. Og þetta notfærðu blaðamenn sér.

Ég tek vissulega undir það að blöðin hafa skyldum að gegna við þjóðina. Þær skyldur voru ekki hvað sístar í sambandi við landhelgismálið. Þá var það að mínum dómi skylda hvers einasta íslensks málgagns að túlka og styðja íslenskan málstað með þeim ráðum sem því voru tiltæk. Það hafa þau líka yfirleitt vissulega gert, það ber að þakka. Og ég vil ekki að það standi ómótmælt, sem hv. 8. landsk. þm, var að segja eða gera mér upp þau orð að ég hefði verið að hnjóða í íslenska blaðamenn eða fréttamenn, því fer fjarri að það hafi verið nokkurt orð í minni tölu um það efni. Hinu var ég að gera grein fyrir, að samband Landhelgisgæslunnar og blaðamanna hefði yfirleitt verið gott og að fréttamenn mundu sjaldan hafa átt því að fagna að búa við slíka aðstöðu eins og fréttamenn höfðu í sambandi við landhelgismálið og meðferð þess.