29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (2506)

335. mál, framhaldsnám hjúkrunarkvenna

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Fsp. hv. 4. þm. Reykv. er á þessa leið: „Hvenær má vænta ráðstafana til að tryggja hjúkrunarkonum rétt til framhaldsnáms við Háskóla Íslands í hjúkrunarfræðum?“

Í tilefni af þessari fsp. vildi ég gera nokkra grein fyrir þessu máli og aðdraganda þess. Samkv. drögum að reglugerð, sem samin hefur verið fyrir námsbraut í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands, er kennsluhlutverk námsbrautar tvíþætt: Í fyrsta lagi að annast kennslu í hjúkrunarfræðum til BS-prófs og í öðru lagi að annast framhaldsnám í hjúkrunarfræðum fyrir þá sem lokið hafa prófi frá viðurkenndum hjúkrunarskóla. Í reglugerðardrögunum er gert ráð fyrir að framhaldsnám þetta fari fram í námskeiðum, en verði minnst eitt ár og skiptist á almennar undirstöðugreinar og eina sérgrein. Reglugerð hefur ekki enn verið staðfest fyrir námsbrautina, en fyrrgreind reglugerðardrög eru nú til meðferðar hjá Háskólanum.

Kennsla í hjúkrunarfræðum til BS-prófs hófst haustið 1973, fjögurra ára nám, 120 einingar. Í reglugerðardrögunum er einnig gert ráð fyrir að fólk, sem lokið hefur almennu hjúkrunarnámi, geti lokið BS-prófi í hjúkrunarfræðum. Munu nú tvær hjúkrunarkonur vera við nám í námsbrautinni. Um inngöngu í námsbraut í hjúkrunarfræðum gilda almennar innritunarreglur Háskóla Íslands. Samkv. háskólalögum er háskólaráði heimilt að leyfa skrásetningu einstaklinga er lokið hafa öðru námi en stúdentsprófi hérlendis með þeim árangri sem sú deild, er í hlut á, mælir með að skapi hæfi til framhaldsnáms innan Háskólans. Á s. l. hausti var kannað hvort til greina kæmi að efna til sérstaks viðbótarnáms í einstökum greinum á menntaskólastigi fyrir hjúkrunarkonur, þannig að þær öðluðust rétt til inngöngu í námsbraut í hjúkrun við Háskólann og er það mál til athugunar hjá Háskólanum og taldi háskólaráð ekki ráðlegt að fara af stað með slíkt viðbótarnám á menntaskólastigi fyrir þá er lokið höfðu almennu hjúkrunarnámi fyrr en reglugerð fyrir námsbraut í hjúkrunarfræðum hefði verið sett. Jafnframt taldi háskólaráð að til greina kæmi að stofna til slíks náms síðar og féllst í meginatriðum á till. þær er svokölluð tengslanefnd, er komið var á fót innan Háskólans og fjallar m. a. um inntökuskilyrði einstakra námsbrauta Háskólans, gerði um þetta efni, m. a. með hliðsjón af þeim athugunum sem fram höfðu farið á vegum nefndar þeirrar sem samdi reglugerðardrögin fyrir námsbrautina um athugun á stöðu hjúkrunarfólks í skólakerfinu. Með tilliti til þessa taldi rn. ekki rétt að efna til sérstaks viðbótarnáms á menntaskólastigi fyrir hjúkrunarfólk að svo komnu máli.

Í sambandi við ákvörðun á fyrirkomulagi væntanlegs framhaldsnáms fyrir hjúkrunarfólk í námsbraut í hjúkrunarfræðum við Háskóla Íslands er nauðsynlegt að taka afstöðu til þess á hvern hátt hjúkrunarfólk geti aflað sér réttinda til innritunar í Háskólann, en tiltölulega fátt hjúkrunarfólk hefur slík réttindi eins og nú er. Rn. hefur frá upphafi lagt á það áherslu að myndaðir yrðu möguleikar á framhaldsnámi við Háskólann fyrir þá sem lokið hafa venjulegu hjúkrunarnámi. Í bréfi rn. frá 18. sept. 1979, þar sem samþ. var að hefja kennslu í hjúkrunarfræðum við Háskólann, var einnig sérstaklega óskað eftir að gerð yrði athugun á því með hverjum hætti væri unnt að veita þeim, sem lokið hefðu venjulegu hjúkrunarnámi, aðgang að framhaldsnámi á háskólastigi.

Ég vil svo að lokum taka fram að þess er nú að vænta að áður en langt um líður verði unnt að staðfesta reglugerð fyrir hjúkrunarnámsbrautina, en eins og tekið hefur verið fram eru í reglugerðardrögunum, eins og þau nú liggja fyrir og eru til meðferðar hjá Háskólanum, ákvæði um framhaldsnám í hjúkrunarfræðum.