29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3414 í B-deild Alþingistíðinda. (2507)

335. mál, framhaldsnám hjúkrunarkvenna

Sverrir Bergmann:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans greinargóðu svör. Mér sýnist að við séum sammála um þann þátt þessa máls að nauðsynlegt sé að gefa hjúkrunarkonum og hjúkrunarmönnum kost á aðstöðu til þess að auka við menntun sína og við séum sammála um nauðsyn þess að finna heppilegar leiðir í því efni. Og ég vil treysta því, að að þessu verði markvisst unnið, og sé reyndar enga ástæðu til að ætla annað en svo verði gert. En það er rík ástæða til þess að mennta sem allra best hjúkrunarkonur og hjúkrunarmenn. Það er ekki bara vegna þess að góð og mikil menntun er alltaf æskileg, það er ekki síður vegna þess að við framkvæmd nýrra laga um heilbrigðisþjónustu hljóta æ fleiri störf að koma í hlut hjúkrunarkvenna og hjúkrunarmanna. Það verður raunar lögð á þetta fólk æ meiri ábyrgð og það er svo í okkar nágrannalöndum að nú þegar vinna þessar heilbrigðisstéttir störf sem við höfum ekki enn þá talið fært að setja hér í hendur hjúkrunarmanna og hjúkrunarkvenna, en þessir aðilar mundu þó auðveldlega geta leyst af hendi ef til kæmi ögn meiri menntun, menntun sem í senn er framhaldsmenntun og einnig er aukin undirbúningsmenntun jafnvel áður en tiltekið nám í Hjúkrunarskóla Íslands.

Ég er alveg viss um það að góð framkvæmd laga um heilbrigðisþjónustu mun í reynd ekki hvað síst byggjast á því að vel menntað hjúkrunarfólk, konur og karlar, séu til staðar, og ég tel að þetta undirstriki nauðsyn þess að markvisst sé unnið að því og stuðlað að því að fyrir hendi séu möguleikar til frekari menntunar þessa fólks alls.