29.04.1975
Sameinað þing: 70. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3415 í B-deild Alþingistíðinda. (2511)

337. mál, flutningur sjónvarps á leikhúsverkum

Fyrirspyrjandi (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Á þskj. 407, undir 2. tölul., hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. menntmrh. Þessar fsp. eru fyrir nokkuð löngu fram komnar og hafa verið á dagskrá nokkrum sinnum, en ekki unnist tími til þess að koma þeim að. Fsp. þessar eru í fjórum liðum og varða allar spurninguna um flutning sjónvarpsina á þeim leikhlutverkum sem kannske fyrst og fremst hafa verið flutt hér á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hygg að það muni allir vera um það sammála að þeir, sem áttu aðild að því frumkvæði að stofna til Þjóðleikhússins á sínum tíma, hafi verið með þær hugmyndir uppi að sem flestum þjóðfélagsþegnum gæfist kostur á að sjá þá list, sem þar er flutt, og með því að stuðla að aukinni listhneigð, ekki bara hér á höfuðborgarsvæðinu, heldur og víðs vegar í kringum landið.

Nú var það að sjálfsögðu svo á þeim tíma að ekki voru ýkjamiklir möguleikar til þess að koma slíku á framfæri við landsbyggðarfólk. Þetta breyttist að sjálfsögðu með tilkomu sjónvarpsins og hefði því mátt ætla með tilkomu þess fjölmiðils, sem kominn er þó svo víða sem raun ber vitni þó að hann nái ekki til allra landsmanna, að gerð hefði verið gangskör að því að sjónvarpið kæmi til móts við landsbyggðarfólk með þeim hætti að taka til sýninga hin ýmsu leikhúsverk sem verið hafa hér á höfuðborgarsvæðinu.

Spurningar mínar eru fyrst og fremst um þetta. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara að lesa þær upp, þær eru prentaðar á þskj. 407, en þær snúast fyrst og fremst um þetta, með hverjum hætti úr þessu megi bæta og hvað hafi verið til þess gert að sjónarmiðum landsbyggðarfólks yrði betur sinnt í þessum efnum en gert hefur verið.