25.11.1974
Neðri deild: 11. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

26. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Flm. (Ellert B. Schram):

Herra forseti. Ég get í sjálfu sér verið stuttorður um þetta frv. þar sem það er shlj. frv. sem ég flutti á síðasta þingi sama efnis.

Eftir að ég lagði fram frv. mitt í hv. d. brá svo við að annað frv. um sama efni var flutt hér af hv. þm. Vilhjálmi Sigurbjörnssyni. Segir í grg. með því frv. um það frv., sem hér er á dagskrá, að það sé vart svo skýrt orðað að ekki verði misskilið eða túlkað á einn veg, þykir því eðlilegra að flytja brtt. við lögin sjálf en fram komið frv. Nú veit ég ekki hvort þetta er mjög þingleg málsmeðferð, að taka upp slíkan skriflegan málflutning í d., en ég læt það liggja milli hluta og mun ekki fjalla um frv. hv. þm. Vilhjálms Sigurbjörnssonar frekar, nema tilefni gefist til.

Það frv., sem ég flyt hér, er breyt. á lögum nr. 71 1966, um verðtryggingu fjárskuldbindinga. Þessi lög voru sett á sínum tíma og var þá tilgangur þeirra sá að skapa nauðsynlegan grundvöll að verðtryggingu lánsfjársamninga. Þegar tíminn hefur liðið og þessi lög hafa verið framkvæmd hefur nokkur misskilningur komið um túlkun þeirra og skapast nokkur réttaróvissa af þeim sökum. Um langan tíma hefur það viðgengist að í samninga um verk eða framkvæmdir hafa verið sett ákvæði um verðtryggingu. En nú er það svo að nokkuð umdeilt er hvort slík ákvæði í samningum sem þessum standist, og svo hefur farið að dómar hafa verið kveðnir upp sem ganga í gagnstæðar áttir. Þetta frv. er því flutt til þess að taka af þessa óvissu og binda í lögum tvímælalaust þá venju sem viðgengist hefur í langan tíma í samningum sem hér um ræðir. Ástandið undanfarin ár í þessum efnum, eftir að dómar féllu í gagnstæðar áttir, hefur verið svo að það hefur skapað vandamál fyrir bæði þolanda og gefanda eða kaupendur og seljendur, eftir því hvað við á, og vandamálin eru bæði fjárhagslegs og annars eðlis. Minna má á að nú nýlega hefur verið sagt í fréttum frá þeim málum þar sem byggingarfélög hafa orðið gjaldþrota eða riðuðu á barmi gjaldþrots einmitt af þessum sökum, að ekki hefur verið ljóst hvort lögmætt hafi verið að setja verðtryggingarákvæði í samninga sem gerðir hafa verið við byggjendur, við fólk sem hugðist kaupa íbúðir af viðkomandi byggingarfélögum.

Því var haldið fram, þegar þetta mál var flutt hér á síðasta þingi, að hér væri um að ræða frv. sem gengi á rétt neytenda eða kaupenda í því tilfelli, er um er að ræða byggingarsamninga, og þetta væri til þess fallið að auka hagnað þeirra, sem byggðu og gerðu samningana. Ég mótmælti þessum skilningi og vakti athygli á því að tilgangur þessa frv. er fyrst og fremst sá að veita þeim aðilum, sem gera samninga, lagalega möguleika á því að reikna með inn í kaupverð og samningsverð sannanlegar hækkanir á verði á samningstímanum sjálfum. Það gefur auga leið að slík ákvæði eru ekki einvörðungu til hagsbóta fyrir þá sem selja verkið, heldur líka fyrir þá sem taka við andlagi samningsins, svo sem íbúðum, því að það tryggir það að viðkomandi aðili, sem byggir húsnæði eða framkvæmir verkið, ráði við það fjárhagslega. Kaupandinn gengur líka að því vísu hvert kaupverðið sé, og er að því leyti tryggari um það að samningurinn sé efndur. Í nefndu frv. er gert ráð fyrir því að um 12 mánaða fyrirvara sé að ræða.

Það sem sagt segir í ákvæði frv., sem hér er verið að flytja, að það sé heimilt að kveða svo á í kaup- og verksamningum um hús, húshluta eða önnur mannvirki, sem eigi eru fullgerð á samningsdegi, en seljandi eða verksali skuldbindur sig til þess að afhenda fullgerð eftir minnst 12 mánuði, að sá hluti söluverðs, sem svarar til þess byggingarhluta sem ófullgerður er, skuli breytast í samræmi við breytingar á verðlagsvísitölu til afhendingardags. Þessi fyrirvari um 12 mánuðina þykir eðlilegur af mér sem flm. og þeim öðrum sem eru með mér í ráðum, vegna þess að ef um verk eða samning er að ræða, sem nær yfir skemmri tíma en eitt ár, þá ættu aðilar að geta gert sér nokkra grein fyrir, hverjar verðhækkanir verði á árinu eða hvaða kaupverð eða samningsverð hann geti tekið til viðmiðunar, og því sé ekki ástæða til þess að heimila verðtryggingu fyrir svo stuttan tíma. En þegar um lengri tíma er að ræða en eitt ár, ég tala nú ekki um þegar mörg ár koma til greina, þá er í okkar verðbólguþjóðfélagi ómögulegt fyrir viðkomandi aðila að sjá fram í tímann, sjá fram á þá verðbólgu og þær verðhækkanir sem hugsanlega gætu átt sér stað, þannig að það er fyllilega eðlilegt að þeir tryggi sig gagnvart slíkum verðhækkunum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að skýra þetta frv. frekar. Ég held að það sé sjálfsagt og eðlilegt að þetta frv. fái afgreiðslu eins og það í aðalatriðum er lagt fram hér, vegna þess að það tekur af réttaróvissu sem hér er ríkjandi í augnablikinu en staðfestir einvörðungu þá venju sem skapast hefur um margra ára bil.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni 1. umr. verði þessu máli vísað til 2. umr. og fjh: og viðskn.