30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3443 í B-deild Alþingistíðinda. (2540)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason) :

Herra forseti. Nauðsyn trygginga hefur verið okkur íslendingum ljós um langan aldur. Við búum í harðbýlu landi, landi elds og ísa, eins og það er oft orðað. Á þjóðveldisöldinni giltu innan hreppanna ákveðnar reglur um samhjálp eða samábyrgð íbúa hreppsins þegar bær brann eða búfé fórst. Þessi samtrygging lagðist þó af þegar við misstum stjórnarfarslegt sjálfstæði okkar, eins og kunnugt er. Í nútímaþjóðfélagi eru hvers konar tryggingar taldar nauðsynlegri. Það hefur á síðustu áratugum orðið mjög mikil aukning verðmæta hér á landi, bæði í byggingum og lausafé, og eignatjónið, þegar út af ber, verður því æ stærra og tilfinnanlegra. Eldgosið í Vestmannaeyjum er okkur öllum í fersku minni og hið mikla eignatjón er þar varð, og svo skeðu í des. s. l. hinir sviplegu atburðir í Neskaupstað er snjóflóðin lögðu helstu atvinnufyrirtæki staðarins í rúst í einni svipan og tóku um leið stóran toll í mannslífum.

Með l. nr. 4 frá 27. mars 1973 var Viðlagasjóður stofnaður, en hlutverk hans er að bæta tjón vegna eldgossins í Vestmannaeyjum og var tekjuöflun við það eitt miðuð. Eftir snjóflóðin í Neskaupstað kom upp svipuð staða. Stórtjón var orðið. Atvinnulíf heils bæjarfélags lá í rústum. Stjórnvöld tóku málið upp á sína arma á sama grundvelli og Vestmannaeyjatjónið og Alþ. samþ. lög þar sem Viðlagasjóði er falið að bæta þetta tjón og fleiri, en fjár aflað með hækkun á söluskatti, sbr. l. nr. 5 frá 28. febr. s. l. Stjórnvöld og Alþ. hafa því ótvírætt sýnt, að fullur vilji er fyrir hendi að bæta slík áföll.

Mér var þó ljóst, þrátt fyrir ofangreinda afgreiðslu þessara mála, að nauðsynlegt væri að við værum betur undir það búnir að mæta slíkum tjónum. Sú aðferð að setja lög um bætur og fjáröflun í hvert sinn er tjón ber að höndum er afar seinvirk og þung í vöfum, auk þess sem hætt er við að einstaklingur, sem einn og sér verður fyrir tjóni af völdum náttúruhamfara, eigi ekki eins greiðan aðgang að fá bætur á þessum grundvelli og þegar stærri atburðir gerast, en tjón hans er þó jafntilfinnanlegt. Ég ákvað því að skipa n. til þess að gera till. um þessi mál. Með bréfi dags. 30. des. s. l. skipaði ég þá Ásgeir Ólafsson forstjóra, Benedikt Sigurjónsson hæstaréttardómara og Bjarna Þórðarson tryggingafræðing í n. er fékk það hlutverk, eins og í skipunarbréfinu segir, að gera till. um fyrirkomulag skyldutrygginga er bæti tjón á húseignum og lausafé af völdum náttúruhamfara, svo sem jarðskjálfta, eldgosa, snjóflóða, skriðufalla, flóða og ofviðra, og semja frv. til l. um slíkar tryggingar.

N. skilaði till. sínum 24. mars s. l. og er það frv. um viðlagatryggingu sem hér liggur fyrir til umr. ásamt grg. N. hafði aflað sér gagna og upplýsinga um hliðstæðar tryggingar í ýmsum löndum, eins og fram kemur í grg. með þessu frv. N. kynnti sér gögn um fyrirkomulag slíkra trygginga í ýmsum löndum sem líkt er ástatt um hvað náttúruhamfarir snertir og hérlendis, svo sem í Japan, Nýja-Sjálandi, Sviss, Austurríki, Noregi og víðar. Tryggingar þær, sem starfræktar eru í þessum löndum eru um margt ólíkar, en segja má að eftirtalin fjögur atriði séu lík hjá þeim flestum:

1. Skylt er að kaupa tryggingu gegn náttúruhamförum sem viðauka við brunatryggingu húseigna og lausafjár.

2. Vátryggingarfélög innheimta iðgjöldin.

3. Ríkið er endurtryggjandi þegar um meiri háttar tjón er að ræða.

4. Fremur há eigin áhætta hinna tryggðu. Við samningu þessa frv. hefur n. haft þessi meginatriði í huga. Tilgangurinn með því að koma á fót viðlagatryggingu þeirri, er frv. þetta gerir ráð fyrir, er sá að við verðum fyrir fram viðbúnir að mæta hugsanlegum áföllum af völdum náttúruhamfara og um leið verði tryggt að allir þegnar þjóðfélagsins sitji við sama borð í þessu efni. Frv. gerir ráð fyrir því að sett verði á fót stofnun er nefnist Viðlagatrygging Íslands og skal hún tryggja gegn tjóni af völdum eftirtalinna náttúruhamfara eins og segir í 4. gr. þessa frv.: „Eldgosa, jarðskjálfta, snjóflóða og skriðufalla.“

N. taldi ekki ráðlegt að innifela í tryggingu þessari tjón af völdum ofviðra vegna hinna mörgu vandamála, sem kynnu að koma upp í sambandi við skilgreiningu á slíkum tjónaatburðum, enda munu slíkar tryggingar orðnar almennar einar sér eða sem liður í húseigendatryggingu.

Í 5. gr. frv. er gert ráð fyrir að tryggingaskyld séu eftirtalin verðmæti: „Allar húseignir og lausafé sem brunatryggt er hjá vátryggingarfélagi sem starfsleyfi hefur hér á landi. Vátryggingarupphæðir verði þær sömu og brunatryggingarfjárhæðir á hverjum tíma. Viðlagatryggingin er fyrst og fremst trygging er bætir meiri háttar tjón. Tjónauppgjör á því ekki að verða daglegur viðburður, heldur vonandi undantekning. Eigin áhætta hinna tryggðu verður því að vera allhá.“ Í 7. gr. frv. er gert ráð fyrir að hún verði 6% og ekki bætist tjón undir 100 þús. kr.

Tekjuöflun fer fram á þann hátt að innheimt verði vægt iðgjald af þeim verðmætum sem tryggð eru. Lagt er til að iðgjaldstaxtinn verði 0.25 0/00. Til samanburðar má geta þess að iðgjaldataxti hjá tryggingarfélögum fyrir jarðskjálftatryggingu eingöngu er frá 1 og upp l 2.550/00 eftir gerð húsa og aðstæðum. Er því augljóst að iðgjaldi er mjög í hóf stillt. Þess ber að geta að þegar tryggingarsjóður stofnunarinnar hefur náð ákveðinni upphæð, þ. e. að 2 0/00 af vátryggingarverðmætinu, lækkar þessi iðgjaldstaxti um helming og iðgjaldsinnheimta fellur alveg niður þegar upphæð hans hefur náð 30/00 eða 1.8 milljörðum kr. miðað við áætluð tryggingarskyld verðmæti í dag sem eru um 600 milljarðar.

Þá er að nefna mjög veigamikið atriði um framkvæmd tryggingarinnar, en skv. 8. gr. frv. skal hagnýta tryggingakerfi starfandi vátryggingarfélaga. Vátryggingarfélögin sjá um innheimtu iðgjalds til viðlagatryggingarinnar um leið og þau innheimta brunatryggingariðgjaldið. Þetta verður að telja mjög hagkvæmt og auðvelt í framkvæmd. Vátryggingarfélögin sjá á sama hátt um uppgjör á tjónum hvert við sinn viðskiptamann eins og um brunatjón væri að ræða. Að sjálfsögðu hefur stjórn stofnunarinnar yfirumsjón með þessari starfsemi, en þar sem ætlast er til að samið verði við Seðlabanka Íslands um vörslu sjóða og bókhald fyrir stofnunina verður komist hjá að ráða fast starfsfólk og hefur að sjálfsögðu verulegan sparnað í för með sér.

Áætlað er að heildarfjárhæð þeirra verðmæta, sem trygging þessi nær til, verði um 600 milljarðar miðað við verðlag í dag. Hámarksbætur, sem tryggingunni er ætlað að ráða við, er 50/00 eða 3 milljarðar. Viðlagatryggingin ber sjálf fyrstu 20/00 eða 1.2 milljarða í hverju tjóni, en það sem umfram er endurtryggir ríkissjóður. Þá er gert ráð fyrir að Viðlagatryggingin leiti endurtryggingar hjá tryggingarfélögum, innlendum eða erlendum, á hluta af eigin áhættu sinni einkum meðan verið er að byggja upp sjóði stofnunarinnar.

Eins og áður er getið var Viðlagasjóður stofnaður til þess að leysa tiltekin verkefni. Þegar því er lokið gera lögin ekki ráð fyrir frekari starfsemi hans. Það má því telja eðlilegt að Viðlagatryggingin yfirtaki eignir og skuldir Viðlagasjóðs með þeim hætti er um getur í 21. gr. frv.

Viðlagatryggingin er bein eignatrygging eins og brunatrygging. Það er staðreynd að margs konar óbeint tjón hlýst af þegar byggingar og tæki brenna. Sama gildir að sjálfsögðu um tjón á þessum eignum af völdum náttúruhamfara. Rekstur fyrirtækja raskast, framleiðsla minnkar eða leggst niður, fólk missir atvinnu og fleira mætti telja. Viðlagatryggingunni er ekki ætlað að bæta slík óbein tjón. Minna má á að búnaðardeild Bjargráðasjóðs veitir lán og styrki vegna ýmissa óbeinna tjóna í landbúnaði. Hin almenna deild Bjargráðasjóðs ætti á sama hátt að geta hlaupið hér undir bagga þar eð með tilkomu þessara trygginga er vitað að mjög muni létta á henni á því sviði sem viðlagatryggingin nær til.

Erfitt — réttara sagt ógerlegt er að spá fyrir fram um það hvenær jarðskjálfti verður hér í þeim mæli að tjón verði á húsum eða þau eyðileggjast. Hvenær verður snjóflóð eða skriðuföll á þessum eða hinum staðnum, en eins og fram kemur í grg. með frv. hefur þetta þó gerst alloft. Fjöll og þröngir dalir og firðir eru margir hér á landi. Ég tel því ekkert áhorfsmál að við gerum okkur grein fyrir þessum hættum og undirbúum okkur undir að mæta slíkum áföllum. Sú leið, sem lagt er til að farin verði með stofnun Viðlagatryggingar Íslands, er að mínum dómi skynsamleg og hagkvæm lausn á þessu máli. Hitt má öllum vera ljóst að hér er ekki um neina allsherjarlausn að ræða.

Að lokum vil ég nefna að skv. 19. gr. frv. er stjórn stofnunarinnar heimilt að veita styrki til framkvæmda sem ætlað er að varna tjóni af völdum náttúruhamfara. Er hér að sjálfsögðu fyrst og fremst átt við varnir gegn snjóflóðum, skriðuföllum og flóðum. Ég tel þetta mjög jákvætt og veigamikið atriði en með varnaraðgerðum yrði hægt að forða eignatjóni og jafnvel mannslífum.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. heilbr.- og trn.