30.04.1975
Efri deild: 76. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3452 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

264. mál, Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins

Sjútvrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Ég held að það sé ekki um neitt áhorfsmál að ræða að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins verður að tryggja sína fjármuni og tryggja fyrir gengisbreytingum. Ég tek alveg undir það sem hv. 1. landsk. þm. sagði að það eru of tíðar gengisbreytingar og það eru of margir íslendingar sem reikna með verðbólgu og treysta þá á verðbólgu og gengisbreytingar. Eftir því sem víðar eru gengistryggingarákvæði á skuldum og ef þau væru komin alls staðar, þá kannske breyttist hugarfar manna að treysta ekki um of á verðbólguna. Að því leyti get ég tekið undir skoðanir hv. ræðumanns. Eftir því sem meira er gert í þeim efnum og viðtækara, því minni hætta verður á gengisbreyt. í framtíðinni eða a. m. k. ætti þessi hugsun ögn að breytast.