02.05.1975
Neðri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3497 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

81. mál, innflutningur og eldi sauðnauta

Frsm. (Stefán Valgeirsson) :

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að lengja þessar umr., en ég var undrandi á ræðu hv. þm. Magnúsar T. Ólafssonar áðan. Ég hef aldrei heyrt hann flytja svona ræðu fyrr og kannske er það þess vegna sem ég varð dálítið undrandi. Ég ætla aðeins að upplýsa það að áhuginn á þessu í Kanada, Alaska og Noregi er fyrst og fremst vegna ullarinnar. Það er talið að það fáist 2.7 kg af ull af fullorðnum törfum og minna af kúnum og yngri dýrum eða um 2 kg. Það var líka talið í fyrra að það fengjust 100 dollarar fyrir kg eða 700 kr. norskar. Ef það er óbreytt verð, þá er það töluvert, t. d. 700 kr. norskar, ef maður margfaldar með 30. Það eru 21 þús. kr. fyrir kg. En þetta kemur fram bæði í bréfum og ritgerðum þeirra manna sem hafa skoðað þetta, Þessi dýr eru ekki höfð fyrir kjötið, jafnvel þó að kjötið sé mjög líkt nautgripakjöti og talið mjög gott. Það er sem sagt ullin sem menn sækjast eftir. Út af því, sem hv. þm. Magnús Torfi sagði, vildi ég segja þetta og í sambandi við ullina að hún flettist í einu lagi af dýrunum. Það er ekki eins og með sauðfé að það þurfi að rýja, heldur flettist ullin af á burðartíma kúnna frá því í maí og fram í júní.