07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3543 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

115. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Ingi Tryggvason:

Herra forseti. Ég ætla ekki að reyna að taka neinn þátt í því að skilgreina hvað það er að vera mikill sjálfstæðismaður, en vissulega gæti það verið verðugt efni til íhugunar. Það, sem ég vildi segja, er fyrst og fremst að ég er mjög fylgjandi þeirri till. sem hér er til umr., og ég er fylgjandi henni af þeirri einföldu ástæðu að ég tel það höfuðmál okkar allra að við jöfnum svo sem verða má lífskjörin í þessu landi án tillits til þess hvar þegnarnir eru staðsettir í landinu. Ég ætla ekki heldur að fara að ræða það hér sérstaklega hvort upp sé komin eða að koma upp hörð togstreita milli landsbyggðarinnar annars vegar og Reykjavíkursvæðisins hins vegar. Vissulega er illt ef svo er því að þótt margt sé talað um þéttbýlið hér við Faxaflóa og oft sé talað um það annars vegar og landsbyggðina hins vegar, þá er hvort tveggja vissulega á sama landinu og hóparnir sem bæði svæðin byggja, þéttbýlið og dreifbýlið, eru vissulega sama þjóð og hafa í flestum hlutum sameiginlegra hagsmuna að gæta. Þess vegna finnst mér mjög nauðsynlegt að þeir, sem við betri skilyrði búa fjárhagslega, viðskiptalega, menningarlega o. s. frv., séu opnir fyrir því að þeir, sem lakara eru staddir á þessum sviðum að einhverju leyti, fái sinn hlut réttan eftir því sem aðstæður og tækifæri frekast leyfa.

Hér hafa sérstaklega verið til umr. ferðir manna um landið og það hverjir ferðast með þeim flugfélögum sem nota hið svokallaða flugvélabensín. Ég er ekki fróður maður um brennsluefnisnot hinna ýmsu flugvélategunda. En eftir þeirri hugmynd sem ég fæ um þetta eru það flugfélögin sem nota hinar smærri flugvélar sem fyrst og fremst nota umtalað flugvélabensín sem gert er ráð fyrir að verðjafna. Og ég vil alveg fullyrða að einmitt farþegaflutningur með þessum flugvélum er fyrst og fremst flutningur þess fólks sem á einhvern hátt þarf að gegna þjónustustörfum fyrir landsbyggðina annaðhvort með því að fara héðan frá Reykjavík út um land eða koma utan af landi hingað til Reykjavíkur. Og mér finnst ekki úr vegi að nefna það hér, sem ég tel vissulega verulegt jafnréttis- og fjárhagsatriði, að það má heita svo að öll sú þjónusta, sem menn utan af landi þurfa að sækja hingað til Reykjavíkur, þarf að greiðast þaðan. Ef menn fara héðan til þess að sinna einhverjum verkefnum út um land er þeirra fargjald greitt og venjulega af þeim sem búa úti á landi. Hins vegar verður landsbyggðin vegna erindisrekstrar hér í Reykjavík að greiða stórar fjárfúlgur í ferðakostnað og stórar fjárfúlgur í dvalarkostnað hér sem vissulega kemur Reykjavík beint og óbeint til góða.

Það mætti tala langt mál um þessa hluti, en það er ekki tími eða aðstæður til að dvelja lengi við þessi mál að sinni. Hér var minnst á flutningskostnað. Vissulega er flutningskostnaðurinn í athugun og hlýtur að verða svo sífellt meðan ekki fæst meira jafnrétti í þeim málum en nú er. Það er einkennandi fyrir ástand þessara mála nú að ef kartöfluframleiðandi norður í Eyjafirði selur kartöflur sínar burt úr firðinum leggst sannanlegur kostnaður við flutning á kartöflunum til allra staða nema Reykjavíkur. Ef pokinn er fluttur frá Akureyri til Akraness fær framleiðandinn greiddan flutningskostnað, og kartöflurnar eru seldar með sannanlega viðbættum flutningskostnaði. En ef pokinn fer alla leið til Reykjavíkur má ekki leggja þennan flutningskostnað við. Þá eru kartöflurnar seldar á sama verði og norður í Eyjafirði. Ef ölgerð norður á Akureyri sendir ölkassa burt úr bænum, t. d. til Húsavíkur, er vitanlega greitt fullt flutningsgjald og verðið hækkað sem því nemur. Ef kassinn fer suður á Akranes er verðið líka hækkað sem nemur farmgjaldi eða flutningsgjaldi til þess staðar. En komi kassinn alla leið hingað til Reykjavíkur, þá skal hann seldur á sama verði og norður á Akureyri.

Það er þýðingarlaust að neita því að höfuðborgin nýtur vissulega markaðsstærðar sinnar og ýmiss konar aðstöðu sem hún hefur fram yfir hinar dreifðu byggðir, beinnar fjármunalegrar aðstöðu. Við eigum ekki að neita þessu og við eigum í sjálfu sér ekki að sjá neinum ofsjónum yfir þessu. En við eigum vitanlega að gera kröfur til að aðstaðan til þess að lifa í landinu sé jöfnuð svo sem frekast má verða, bæði fjármunalega, atvinnulega og menningarlega.