07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3552 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

238. mál, Byggingarefnaverksmiðja ríkisins

Jón G. Sólnes:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós þakklæti mitt til flm. þessa frv. fyrir þetta að mörgu leyti athyglisverða frv. Alveg sérstaklega vil ég þakka þeim fyrir þá hugulsemi sem felst í þeirri stefnumörkun sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að væntanleg fyrirtæki, Byggingarefnaverksmiðja ríkisins, verði staðsett á Akureyri. Ég get einnig lýst ánægju minni yfir því að flm. fjallaði í framsöguræðu sinni um mjög margar athyglisverðar hugmyndir um hugsanlegar nýjungar í iðnaðarframleiðslu hér á landi. Margt af því, sem hann sagði, er ákaflega athyglisvert, og þetta er alveg rétt tilgreint hjá honum og öðrum sem hafa talað í svipuðum dúr, að við þurfum einmitt að gefa því miklu meiri gaum að reyna að fara að efla okkar iðnað og umfram allt að skapa meiri fjölbreytni í okkar iðnaði.

Í sambandi við þetta get ég gjarnan lýst þeirri afstöðu minni að ég er ekkert sérstaklega fylgjandi því að lausnarorðið í þeim efnum sé stóriðja. Ég, jafnkapítalískt sinnaður maður og ég alla vega er, skal gera þá játningu að einhvern veginn hefur það aldrei fallið vel að mínu hugarfari að það eigi vel við þjóðareðli íslendinga og ég get ekki hugsað mér að það yrði fjölmenn sú stétt okkar þjóðar sem færi til að mynda eins og flugur að verki snemma morguns og hæfi þar starf eða væri þar allan daginn að vinna við að skrúfa skrúfu eða setja saman sama stykkið á færibandi. Ég held að slík vinnubrögð og slík starfsemi, jafnvel þótt hún gæfi eitthvað í aðra hönd, eigi ekki vel við okkar eðlisfar. Þess vegna finnst mér það mjög jákvætt þegar því er hreyft að við eigum einmitt að reyna að snúa okkur að því að framleiða t. d. gæðavörur, þó að það kannske væri ekki í miklum mæli, og þá má taka það með í reikninginn að við erum ekkert fjölmennir þannig að við höfum ekki við þau miklu vandamál að eiga sem eru hjá stórþjóðunum að útvega hundruðum þúsunda og milljónum manna atvinnu. Við gætum þess vegna snúið okkur alvarlega að því að skapa margvíslega framleiðslu á gæðavörum, — vörum sem fengju einhvern sérstakan stimpil. Hvernig svo sem háttað er um sveiflur í efnahagskerfi þjóðanna er það svo að það eru ávallt kaupendur að svokölluðum gæðavörum jafnvel þó að þær séu dýrar. Slíkar vörur eru alltaf eftirsóttar.

Ég verð að koma að leiðinlegu fréttunum, eins og stundum er sagt, — góðu fréttirnar fyrst, slæmu fréttirnar síðan, en það er hvernig flm. hugsa sér framkvæmdir, hvernig staðið verði að því að byggja væntanlega verksmiðju. Þar kemur að því að þeir sjá enga aðra leið — það er þeirra trúaratriði, — en að þetta sé gert á vegum hins opinbera. Þarna er ég þeim algerlega ósammála. Ég held að það sé nú komið svo hjá okkur að það sé að bera í bakkafullan lækinn að við förum nú að stofna til eins stórfyrirtækisins í viðbót sem á að kosta hundruð millj. og hugsa sér þá framkvæmd eingöngu á vegum ríkisins. Ég vildi því í allri vinsemd leyfa mér að hreyfa þeirri spurningu hvort flm. þessa frv., hv. þm. Stefán Jónsson og Helgi F. Seljan, mundu ekki vera til viðræðu um það, þegar þetta mál væri komið í n., að það yrði tekið til gaumgæfilegrar athugunar að losa svo um í sambandi við aðkomu erlends fjármagns til landsins að einkaaðilum, — a. m. k. að verulegu leyti, við skulum ekki útiloka alveg opinbera þátttöku, — en að einkaaðilum, einkarekstrinum, við skulum segja félagsrekstri, samvinnufélagsrekstri og einhverju slíku, yrði gefið tækifæri til þess a. m. k. jafnfætis eða með sams konar aðstöðu og ríkið, ef möguleikar væru fyrir hendi að útvega erlent fjármagn og/eða reisa slíkt fyrirtæki í félagi við erlenda aðila sem gæti verið mjög hagkvæmt undir vissum kringumstæðum að gera, og sjá til, skapa þannig möguleika til meiri fjölbreytni í þessum verksmiðjurekstri og fyrirtækjarekstri, en við erum allir sammála um að við viljum skapa meiri fjölbreytni í okkar framleiðslu. Hví skyldum við þá ekki vera opnir fyrir því að skapa meiri fjölbreytni í því, fara ekki alltaf þessa einu og sömu leið, að ríkið standi fyrir öllum meiri háttar framkvæmdum? Við megum ekki láta það hræða okkur frá því að fara úti skynsamlegar framkvæmdir og stofna fyrirtæki þó að við höfum sorglegt dæmi fyrir því að slíkt hafi einhvern tíma áður farið illa. Við vitum líka að fyrirtæki, sem stofnað hefur verið til af hálfu hins opinbera, hafa fengið misjafnleg örlög og ekki alltaf góð.

Ég held að einmitt í sambandi við þau verkefni, sem flm. þessa frv. hafa í huga, og ég efast ekki um að réttilega sé athugað hjá þeim það, sem felst í þessu frv., að við eigum að geta verulega snúið okkur að því að framleiða þetta byggingarefni og þau efni, sem þarna er verið að ræða um og flm. gerði að umtalsefni, hér á landi og þá kannske með jafnhagstæðu eða hagstæðara verði en við höfum greitt fyrir slíkar vörur innfluttar og erum þá að gera tvennt í einu, að spara stórkostlega erlendan gjaldeyri um leið og við sköpum atvinnu og treystum efnahag þjóðarinnar. Ég vona að það fyrtist enginn við því þótt ég nefni nú til að mynda nafn fyrirtækis sem við höfum haft allnáin samskipti við og heitir Johns Manville og er meðeigandi okkar í Kísiliðjunni, en það mun vera einhver allrastærsti framleiðandi í sambandi við einangrunarefni og sumar af þeim tegundum sem taldar eru upp í þessu frv. og frv. gerir ráð fyrir að framleiða hér. Hví skyldum við ekki hefja viðræður við slíka aðila og jafnvel fleiri sem líkt er ástatt um og lofa einkarekstrinum eða einkaaðilum að kljást við þetta verkefni, gefa þeim a. m. k. tækifæri, til þess að vita hvort er fyrir hendi geta hjá þessum aðilum til þess að leysa þetta mjög svo þýðingarmikla verkefni á hagkvæman og heilbrigðan hátt?

Ég mundi ekki vera á móti því, að hið opinbera hefði ítrustu möguleika í smáu sem stóru til að fylgjast með öllum gerðum slíks félags. Það er einmitt sú regla sem viðgengst til að mynda á opinberum verðbréfa- og hlutabréfamörkuðum að til þess að fá tækifæri til þess að bjóða út hvort heldur er hlutabréf, skuldabréf eða yfirleitt að ná í fjármagn á opinberum markaði, þá fylgir því sú kvöð að allir reikningar slíkra fyrirtækja þurfa að verða opinberir og opnir, og þar held ég einmitt að sé mikið og merkilegt verk að vinna ef fengist samkomulag um að gefa nú einkafyrirtæki eða félagasamsteypu tækifæri til þess að reyna að leysa úr þessu máli og gefa því opinbera frí einu sinni.

Ég skal svo ekki tefja umr. um þetta mál að sinni. Ég vil endurtaka þakklæti mitt fyrir að þetta frv. er borið fram. Það gefur manni tilefni til þess að hugleiða þessi mál sem ég tel alls góðs makleg. Ég tel að þarna gæti verið kveikja að því að við tækjum skynsamlega ákvörðun sem gæti orðið þjóðinni til mikilla heilla í framtíðinni.