07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3556 í B-deild Alþingistíðinda. (2697)

238. mál, Byggingarefnaverksmiðja ríkisins

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Mér þykir gaman að heyra um þetta merkilega mál. Það er sannarlega þess virði að haft sé í huga og íhugað um aukna fjölbreytni í okkar atvinnuvegum. Það, sem gerði nú að ég stóð hér upp, er að mér fannst ekki vera nógu hrein byggðasjónarmið í þessu máli. Þegar þið flytjið ykkur frá Faxaflóasvæðinu, bannsvæðinu, þá þarf endilega að fara til höfuðstaðar Norðurlands þar sem atvinnutækifæri eru flest í þessu landi. Hvergi eru fleiri atvinnutækifæri en einmitt á Akureyri, hvergi meiri fjölbreytni í okkar atvinnuháttum en einmitt á Akureyri. Hvers vegna þangað? Og ef það á að taka hráefnið úr Prestahnjúk og Þjórsársöndum eða Loðmundarfirði, af hverju að fara til Akureyrar? Á leiðinni frá Prestahnjúk eru Sandur og Ólafsvík, það er Blönduós, það er Sauðárkrókur, það eru ótal staðir þar sem lægi miklu beinna við að reyna að fjölga fólki og skapa því ýmis atvinnutækifæri en á Akureyri. Ég held að það séu ekki hrein byggðasjónarmið sem þarna ráða.

Annað langar mig aðeins til að minnast á hér. Hv. 6. þm. Norðurl. e. hóf mál sitt á fáum orðum um járnblendiverksmiðjuna og tók þá réttilega fram að það væri verksmiðja sem ætti að flytja inn allt hráefni og ætti að flytja alla fullunna vöru út. Þetta er að vísu rétt. En ef við eigum að fara að bollaleggja um framtíðina og taka til íhugunar ýmis verkefni sem eru í rannsókn og athugun, eins og kom fram um gosefnin, þá getum við líka hugað að því að kannske eigum við sjálfir öll hráefni sem málmblendiverksmiðjan þarf á að halda. Í nágrenni Grundartanga eigum við nóg af kvartsi, bæði í Esjunni og eins hérna í Miðdal í Mosfellssveitinni. Við eigum nóg af járnspónum og brotajárni. Og reyndar mætti kannske segja um þennan þátt svolítið meira. Við eigum líka kol rétt hjá Grundartanga, að vísu ekki steinkol, þannig að ef rannsóknir færu fram á þessu, þá er ég alls ekki viss um nema hér yrði framleitt málmblendi úr innlendum efnum, en að vísu flutt út því að við höfum ekki aðstöðu til að nýta það sem fullunna vöru.

Ég hef haft gaman af þessum umr. Það er sannarlega ætíð áhugavert að heyra um ný verkefni. Það liggur fyrir að á næstu árum höfum við nóg að gera. Ég ætla ekki að gera það að neinu atriði hvort það er ríkið, samvinnufélögin eða einstaklingar sem þessi atvinnutæki reisa. Meginatriðið er að þau verði reist og þau verði rekin á skipulegan hátt og verði þjóðinni til sem mestrar hagkvæmni. Þá vil ég taka fram að svo lengi er þjóðnýtingin best sem hún er í samkeppni við aðra möguleika því að það höfum við séð bæði í Áburðarverksmiðjunni, Sementsverksmiðjunni og jafnvel víðar að þar sem einokunin má sín þar er nú hæpið að fólkið verði ekki að greiða verulega meira fyrir það, sem framleitt er, en ef það væri á frjálsum markaði.