07.05.1975
Efri deild: 78. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3566 í B-deild Alþingistíðinda. (2702)

266. mál, þörungavinnsla við Breiðafjörð

Fram. (Steingrímur Hermannsson) :

Herra forseti. Ég skal reyna að svara spurningum síðasta hv. ræðumanns.

Það er ekkert skilyrði frá hinum erlenda aðila að hann fái aðild að stjórninni. Eins og skiptingu hlutafjárins er varið ætti að sjálfsögðu ríkisvaldið að fá alla stjórnarmennina. Það er með nálægt því 90 af hundraði af hlutafénu og réði við það að fá alla kjörna. Hins vegar hefur iðnrh., sem fer með málefni þessarar verksmiðju eða að hluta ríkissjóðs þar, ákveðið — eða a. m. k. fyrrv. ráðh. ákvað að nota sér þetta ekki og tilnefndi þrjá af fimm stjórnarmeðlimum og lét sem sagt minni hl. eftir tvo sem þeir síðan sjálfir tilnefndu eða og kusu úr sínum hópi. Það urðu heimamenn því að þeirra hlutur af þeim um það bil 10 millj., sem þarna standa eftir þegar hlutur ríkissjóðs er dreginn frá, er langsamlega stærstur. Ef iðnrh. heldur ennþá við þetta form, sem sagt að krefjast aðeins þriggja af fimm, en aðrir hluthafar fái tvo þá liggur í hlutarins eðli, sýnist mér, að þessi erlendi aðili, sem yrði langsamlega stærstur af öðrum hluthöfum, fengi annan þeirra. En vel má vera, það skal ég viðurkenna, og það hefur borið á góma þegar við höfum um þetta rætt, að semja mætti við hann um það að hann geri ekki tilkall til stjórnarmeðlims. Ég fyrir mitt leyti vildi gjarnan taka þessu tilboði ef um það yrði samið, að hann gerði ekki tilkall til stjórnarmeðlims. Ég vona að þetta svari þessari spurningu.

Hvort framlag frá innlendum aðila mundi tryggja mann í stjórn fer að sjálfsögðu eftir því hvort ríkisstj. notar sínum mikla þunga þarna til að fá hámarksfjölda stjórnarmeðlima kjörna. Vitanlega getur hann það ekki nema að vissu marki. Ef aðrir hluthafar eiga yfir einn fimmta og sameinast um kjör á manni, þá ráða þeir því að sjálfsögðu hvort sem ríkisstj. vill eða vill ekki. Þetta liggur í hlutarins eðli.

Mig langar, úr því að ég er staðinn upp, að lýsa furðu minni á þessu með eigið fjármagn í íslenskum fyrirtækjum. Þetta eru tíðindi fyrir mig. Ég hef setið í nokkur ár í stjórn Byggðasjóðs og þar erum við að fjalla um þetta á hverjum fundi, um einkafyrirtækin, að vísu á landsbyggðinni, og þar er einmitt vandlega skoðað hvert þeirra eigið fjármagn er. Við höfum gert úttekt á öllum frystihúsum landsins í sambandi við frystihúsaáætlunina og þar er þetta mjög skoðað. Við fáum í okkar hendur svo að segja á hverjum fundi úttekt bankanna á fjárhagsstöðu alls konar fyrirtækja í þessu landi, og ég man varla eftir nokkru tilfelli þar sem eigið fjármagn, þ. e. a. s. hlutafé, hefur verið 20–25% af stofnkostnaði. En það er krafa sem bankarnir og ýmsir sjóðir gera nú í vaxandi mæli. Í mörgum tilfellum hefur einmitt í sambandi við frekari fyrirgreiðslu úr þessum sjóðum og bönkunum verið gerð sú krafa að eigið fjármagn verði aukið þannig að það nái einhvers staðar um það bil þessu hlutfalli, en 40% eigið fjármagn sé algengt, það hef ég aldrei heyrt. Að sjálfsögðu fer þetta eftir því á hvaða grundvelli þetta er metið, hvort það er á grundvelli stofnkostnaðar fyrirtækisins í dag eða á bókfærðu verðmæti fyrirtækisins o. s. frv. Verið getur að við séum að tala um ólíka hluti, en þetta eru tíðindi fyrir mig, það verð ég að segja, óskandi að svo væri.

Þá vil ég fyrst nefna arðsemina. Hv. ræðumaður taldi arðsemi 22% litla. Þetta eru líka tíðindi, hér er um að ræða innri arðsemi. Ég vil vekja athygli á því að í sambandi við járnblendiverksmiðjuna, sem nýlega var samþ., var gert ráð fyrir á sama grundvelli um það bil 17% arðsemi og það töldu þeir aðilar, sem um það fjölluðu, meira að segja kapítalistar í Bandaríkjunum, viðunandi. Þar voru afkastavextirnir, þ. e. a. s. af allri fjárfestingunni, um 13.6%, ef ég man þær tölur rétt, þannig að hér er um meiri arðsemi að ræða heldur en í því tilfelli. Það getur vitanlega vel farið að ýmsir einkaaðilar hér í bæ, sem ég þekki ekki og hef ekki séð rekstrartölur hjá, beri miklu meira úr býtum. Þó þykir mér það koma illa fram í þeim sköttum sem þeir greiða margir hverjir, og ég held að arðsemi af þessari stærðargráðu sé almennt ekki mjög algeng. A. m. k. hefur mér, svo að ég vísi aftur til þeirrar reynslu sem ég hef fengið af setu í stjórn Byggðasjóðs, ekki virst slík arðsemi algeng. Vitanlega má svara því til að fyrirtæki, sem hafa slíka arðsemi, leiti sjaldan til Byggðasjóðs um lán en ég hef sem sagt talið og hef fyrir því menn sem eru mér langtum fróðari um slíka arðsemi að arðsemi af þessari stærðargráðu, þegar komið er yfir 14–15%, sé mjög vel viðunandi. Mér sýnist því jafnframt að einkaaðilar ættu gjarnan að vilja leggja sitt fjármagn í fyrirtæki þar sem þeir geta jafnframt gert sér vonir um arðsemi af þessari stærðargráðu.