26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

296. mál, verð á rafmagni til húshitunar

Fyrirspyrjandi (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að leggja fram fsp. til hæstv. iðnrh. og hún hljóðar svo:

„Er fyrirhugað að lækka verð á rafmagni til húshitunar, þannig að hitun húsa með raforku verði ekki dýrari en með niðurgreiddri olíu?“

Ég hef fengið upplýsingar um raforkuverð til húshitunar hjá Rafmagnsveitum ríkisins og hjá framkvæmdastjóra Sambands ísl. rafveitna og ber þeim saman um að húshitun með raforku sé mun dýrari skv. gjaldskrá Rafmagnsveitna ríkisins heldur en með niðurgreiddri olíu. Rafmagnsveitur ríkisins segja um þetta: Verð til hitunar hefur verið miðað við söluverð dísilolíu í Reykjavík til olíukyndingar, eins og kveðið er á um í gjaldskránni. Þó hefur síðasta hækkun olíuverðs úr kr. 13.70 hver lítri í kr. 14.30 ekki verið látin hafa áhrif á taxta Rarik, þar sem ætlast var til að Rarik fengi niðurgreiðslur í staðinn. Skýrslur um olíunotkun Rarik vegna húshitunar hefur verið skilað til Orkustofnunar fyrir tvo ársfjórðunga, mars — maí og júní — ágúst 1974, en niðurgreiðsla hefur ekki átt sér stað hingað til og miðast því raforkuverð til hitunarinnar enn við kr. 13.70 hver olíulítri.

Framkvæmdastjóri Sambands íslenskra rafveitna hefur reiknað þetta nákvæmlega út og hver munurinn er á orkuverði ef notuð er raforka annars vegar og hins vegar olía. Hann miðar við einbýlishús, 420 rúmmetra, en það eru að mestu leyti einbýlishús í strjálbýlinu á því svæði sem Rafmagnsveitur ríkisins ná til. En jafnvel þótt þetta væru ekki einbýlishús, en þess í stað sambýlishús, þá ætti það ekki að raska hlutfallinu. Miðað er við hvað árskostnaður er á hvern rúmmetra í húsi er rafmagnshitunin kostar á hvern rúmmetra yfir árið 195.48 kr., en með niðurgreiddri olíu 149.21 kr. Mismunurinn er 46.27 kr. og er því 31% hærra verð á rafkyndingu en olíukyndingu. Mismunurinn hefði orðið meiri ef 13% verðjöfnunargjaldið hefði verið látið ná til húshitunar eins og upphaflega stóð til samkv. frv. sem lagt var fram á s.l. sumri. Hér er aðeins um orkukostnaðinn að ræða, en ef um nýtt hús er að ræða þá mætti segja að stofnkostnaðurinn sé nokkru minni á húsi sem hefur raforkukyndingu heldur en venjulega miðstöðvarkyndingu. En þetta er breytilegt og þess vegna ekki eðlilegt að miða við það, enda er til þess ætlast að olíukyndingu í eldri húsum verði hætt og raforka verði upp tekin í staðinn.

Það hefur verið stefna flestra alþm. að gera raforkuna það ódýra að það borgi sig að breyta um kerfi og nota innlendan orkugjafa í staðinn fyrir olíuna. En þeirri stefnu hefur ekki verið haldið síðustu tíma vegna þess að hækkun hjá Rafmagnsveitum ríkisins til húshitunar hefur orðið frá því 1971 til haustsins 1974 166.7% þegar húshitun í Reykjavík hefur þó ekki hækkað um meira en 122.6%.

Þessi fyrirspurn er fram komin til þess að vekja athygli stjórnvalda á þessu í von um að þetta verði lagfært. Ég vænti þess að hæstv. iðnrh. svari fyrirspurninni.