07.05.1975
Neðri deild: 79. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3588 í B-deild Alþingistíðinda. (2739)

251. mál, ráðstöfun gengismunar í þágu sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Garðar Sigurðsson) :

Herra forseti. Hv. þm. Reykv., Pétur Sigurðsson, sem mælti fyrir nál. meiri hl. hv. sjútvn. hóf mál sitt á því að flestir ef ekki allir nm. væru andvígir frv., en samt vildi meiri hl. mæla með samþykkt þess með lítils háttar breyt., — breyt. sem að vísu skipta varla nokkru máli. Frv. verður þrátt fyrir þær í meginatriðum hið sama. Það, sem máli skiptir er hin gífurlega hækkun útflutningsgjalda sem ráðgerð er og verður þess valdandi að enn eru gerðar ráðstafanir sem koma í veg fyrir nokkra hækkun til sjómanna. Ég er ekki hissa á því þótt hv. þm, sé í anda andvígur frv., en ég er jafnundrandi á þeirri afstöðu hans og annarra meirihlutamanna að vilja ekki einmitt þess vegna fara aðra leið sem er fær, en gerir jafnframt ráð fyrir því að sjómenn kunni að fá bætt þau smánarlaun sem þeim eru skömmtuð fyrir mikla vinnu. Hv. þm. gerir einnig grein fyrir því að fulltrúar hagsmunahópa hafi komið á fund n., en honum láðist hins vegar að geta þess að þeir voru allir sem einn á móti frv., og sýnir það í hvert óefni stefnir með því, Sérstaklega vil ég vekja athygli á því að bæði fulltrúar samtaka útgerðar og ekki síst fulltrúar sjómanna andmæltu frv. harðlega. Af því ættu þeir sem virða hlut þeirra svo mikils sem eins viðlits, að geta dregið sína lærdóma.

Nú er nokkuð liðið á annað ár síðan nokkrir óhappamenn úr þingflokki SF sviptu fyrrv. hæstv. ríkisstj. völdum sínum í raun. Er ekki ýkjamikið vatn til sjávar runnið síðan Sjálfstfl, ásamt íhaldsöflun Framsfl. tók við stjórnartaumunum. en á þeim stutta tíma hefur sú hæstv. ríkisstj. látið hendur standa fram úr ermum við að þrengja kost almennings í landinu strax með gengisfellingu, því að ráðin eru alþekkt, með 2% hækkun á söluskatti í kjölfarið. Á haustþinginu kom svo það eindæma frv., sem menn muna, um ráðstöfun gengishagnaðar og var umráða- og útbýtingarréttur ráðh. þar hvergi við nögl skorinn, auk þess sem sjómenn voru hlunnfarnir og datt raunar engum annað í hug sem þekkir feril íhaldsstjórnar í landinu. Nú fyrir nokkru voru afgr. lög héðan frá hv. Alþ. um efnahagsráðstafanir, sem fyrst og fremst höfðu að geyma stórfelldan niðurskurð fjárl. til félagslegra framkvæmda. Ekki þurfti að bíða lengi eftir næstu gengisfellingu, hún kom strax eftir að þing kom saman eftir áramót og þá enn stórkostlegri hinni fyrri. Nemur hækkun erlends gjaldeyris í þessum gengisfellingum tveim samtals yfir 50%. Með sama áframhaldi — og er þá vægt reiknað — verður einn dollar kominn í 500 kr. við lok kjörtímabils þessarar hæstv. ríkisstj. fimmfalt dýrari en haustið 1974.

Þessari gengisfellingu fylgir auðvitað ráðstafanafrv. það sem hér er til umr. Það er um hvernig á að ráðstafa gengismun. Gengisfelling var gerð 14. febr., fyrir þrem mánuðum, og það sér hver maður að það er allt of seint fram komið, aldeilis ótrúlegur seinagangur og lýsir best ástandinu á stjórnarheimilinu. Sannleikurinn er sá að í þessu máli, eins og mörgum öðrum er hver höndin upp á móti annarri og ekki aðeins það, heldur sýnir hvert ráðleysi og fálm skin út úr öllum stjórnarathöfnum þessarar hæstv. ríkisstj. Það gefur auga leið, að seinagangur við afgreiðslu þessa frv. hefur það í för með sér að ekki er hægt að innheimta innflutningsgjöld af þeim vörum sem þegar hafa verið fluttar út og gjaldeyrisskil gerð. Missir Olíusjóðurinn meira fé eftir því sem lengra líður. En 2. gr. var sett til að styrkja hann. Það er býsna hætt við að mikið komi til með að vanta í sjóðinn þegar upp verður staðið, nema því aðeins að farið verði að ráðum minni hl. sjútvn. og fiskverð hækkað til skipta og teljist sú hækkun þá taka gildi frá 15. febrúar.

Eins og fram kemur af nál. meiri hl. n. átti ég þess því miður ekki kost að taka þátt í síðasta fundi n. En ég hef kynnt mér málið frekar en ég átti kost á að gera við 1. umr. og fengið gögn í hendur varðandi það sem fram fór á fundum n. og skrifa þess vegna undir nál. minni hl. ásamt hv. þm. Sighvati Björgvinssyni.

Minni hl. n. flytur nokkrar brtt. á sérstöku þskj., nr. 580, en nál, birtist á þskj. 579. Ég vil, áður en ég geri grein fyrir brtt. minni hl., taka það skýrt fram að okkur Alþb.- menn greinir ekki á við stjórnarflokkana um að við efnahagsvanda hefur verið að glíma frá byrjun síðasta árs, en okkur greinir mjög á um stærðargráðu vandans. En við erum alls ekki sammála hæstv. ríkisstj. um leiðir til lausnar þess vanda. Við neitum að viðurkenna að við eigum þátt í því hvernig komið er í þessum efnum eftir þetta tímabil gengisfellingaræðis ríkisstj. En minni hl. n. vill samt benda á aðra leið í meðferð þessa máls sem er þó fylgifiskur gengisfellingarinnar frá í febrúar.

1. brtt. á þskj. 580, gerir ráð fyrir smávægilegum breyt. á ráðstöfun gengismunar, en minni hl. er ljóst að full ástæða væri til að taka öll þessi mál til gagngerðrar endurskoðunar. Höfuðatriðið í brtt. okkar er breyt, við 2. gr. frv. þar sem minni hl. n. neitar alfarið að fara enn þá leið að hækka útflutningsgjöld af sjávarafurðum til að standa undir hækkun á olíuvörum. Sú leið kemur í veg fyrir það sem fyrr að fiskverð til skipta geti hækkað, og með henni væri enn gengið fram hjá sjómönnum eins og í fyrri skipti og hlutur þeirra ekki réttur þó að illa sé komið.

Við skulum aðeins staldra við og athuga hvernig málum væri komið ef frv. þetta yrði að lögum. Ég bið hv. alþm. að taka vel eftir því að það þýddi einfaldlega að meira en helmingur þess fisks sem á land yrði dreginn, yrði skorinn burt áður en til skipta kemur milli útgerðarmanna og sjómanna, — meira en helmingurinn. Þess vegna vil ég alvarlega vara við að leið frv. verði valin, en í stað þess verði fiskverð hækkað þannig að útgerðin geti staðið undir hærra olíuverði. 13% hækkun á fiskverði til skipta gefur milli 1500 og 1600 millj. kr. á ársgrundvelli, en nokkru minna eða 1300–1400 millj. frá 15. febr. að telja, frá þeim degi sem gert er ráð fyrir að fiskverðið eigi að hækka samkv. okkar till. Í versta falli fær útgerðin milli 700 og 800 millj. af því í sinn hlut og þá vantar samkv. útreikningi um það bil 200 millj. kr. í Olíusjóð, sem við gerum þá ráð fyrir að ríkissjóður bæti við.

Fiskverðshækkunin leysir sem sagt olíuvandann að mestu. Hún leysir enn fremur þann vanda sem nú er við að glíma við að manna skipin vegna þess hve sjómenn á meðalbát eru nú langt á eftir í launum, og hún gæti orðið til þess að leysa þær launadeilur sem nú standa yfir eða eru fyrir dyrum. Fiskverðshækkunin getur sem sagt orðið til þess að leysa stórvirkustu atvinnutæki þjóðarinnar frá bryggju og er þá ekki lítið unnið ef allt er saman lagt. Ég vil einmitt fyrst ég minnist á togarana leggja mikla og þunga áherslu á það að togarana verður að leysa.

Þeirri mótbáru verður auðvitað hreyft að vinnslan geti ekki greitt hærra verð fyrir fiskinn. En því er til að svara í fyrsta lagi að þá sleppur hún við útflutningsgjöldin, sem nema stórupphæðum eða á annað þúsund millj. kr. á tímabilinu. Það skal nefnt í öðru lagi að nú hefur verið staðfest opinberlega að um talsverðar yfirborganir hefur verið að ræða á fiski. Þessar yfirborganir hafa verið fólgnar fyrst og fremst í beinum umframgreiðslum, en auk þess í alls konar aðstöðu, í ókeypis ís og jafnvel hluta af veiðarfærum. Þess eins er gætt að sjómenn fái ekki hlut af yfirborgununum. Með því er vitanlega farið fram hjá samningum þar sem sjómenn eiga að fá sama verð fyrir aflann og útgerðarmenn. Sumir hafa gripið til þess ráðs að sverja fyrir yfirborganir af þessu tagi. Það er sennilega til þess gert að það geti synt fram hjá uppgjöri til skatts. Verði hins vegar áframhald á yfirgreiðslum af þessu tagi verða þær að koma til skipta eins og sjálfsagt er, Nefni ég þessar yfirborganir, sem hafa víða viðgengist til að sýna að tillögur okkar í minni hl. n. eru eins hógværar og frekast er unnt, aðeins um 13% hækkun á skiptaverði sem hlutur útgerðar ætti að ná langt til að greiða nokkru hærra olíuverð fyrir. Dugi þessi hlutur ekki til fulls er gert ráð fyrir því í brtt. minni hl. n. að heimila ríkissjóði að greiða 200 millj. í Olíusjóð til hækkunar niðurgreiðslna og brúa þar með það bil sem verða kunni.

Þetta er stórt mál og alvarlegt. Getur mönnum þótt sanngjarnt að búið sé að klípa meira en helminginn af hverjum fiski áður en til skipta kemur? Slíkar aðferðir minna helst á það þegar ánauðugir bændur og leiguliðar þurftu að greiða lénsherrum og Tyrkjum helming af framleiðslu sinni og þaðan af meir. Ég vil þó benda á það að af þeim tæpa helmingi, sem eftir er, eiga sjómenn þó ekki nema tæpan helming í besta falli og oftast minna og þó eiga þeir þá eftir að greiða alla sína skatta af þeim hlutum sem þeir þá fá. Getur nokkrum manni fundist það sanngjarnt að með hverjum þeim ráðstöfunum sem gerðar hafa verið í sjávarútvegsmálum undir núv. hæstv. ríkisstj. sé þess og þess eins sífellt gætt að auka þann hlut sem ekki kemur til skipta og hlunnfara þannig sjómenn meir en orðið er? Sjómenn eru undirstöðustétt í þjóðfélaginu, yfirleitt illa launuð, vinnandi langan vinnutíma á erfiðustu fiskimiðum heimsins, langtímum saman frá fjölskyldum sínum á sama tíma og á herðum þeirra, öðrum fremur, hvíla þær stoðir sem standa undir lífsafkomu þjóðar okkar hér norður við ysta haf. Ef við veitum þessari stétt ekki mannsæmandi lífskjör og helst nokkru betri en þeim sem í landi vinna, stétt sem vinnur langan dag og erfiðan, eins og ég gat um áðan, þá kemur að því að sjómenn, vanir sjómenn, ganga í land og þá er skarð fyrir skildi, nægilegt til þess að efnahagur landsmanna brotnar auðveldlega niður.

Minni hl. n. varar alvarlega við hækkun útflutningsgjalda nú af ástæðum sem nú hefur verið greint frá, en í stað þess verði farin leið hækkaðs fiskverðs til skipta útgerðarmönnum og sjómönnum til hagsbóta, það verður áreiðanlega sjávarútveginum notadrýgst og allri þjóðinni fyrir bestu. Þess vegna skora ég nú á hæstv. sjútvrh. að falla frá rangri till., till. sem sýnilega getur ekki skilað því sem hún átti að skila vegna þess hversu nú er áliðið, Hins vegar skilar till. minni hl. n. meiru, auk þess sem hún verður að miklu gagni öðru, eins og ég hef drepið á hér á undan.