26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 376 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

307. mál, eftirlit með raforkuvirkjun

Iðnrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Fyrri liðurinn í fyrirspurn hv. 7. landsk. þm. er á þessa leið: „Hvað líður störfum n. frá 1. nóv. 1972 vegna eftirlits með raforkuvirkjum?“

Þessa n. skipaði iðnrh. á sínum tíma samkv. ósk Rafmagnseftirlits ríkisins. N skipa: Jón Á. Bjarnason rafmagnseftirlitsstjóri og er hann formaður n., Gísli Jónsson framkvæmdastjóri samkv. tilnefningu Sambands ísl. rafveitna, Siguroddur Magnússon rafverktaki samkv. tilnefningu Landssambands ísl. rafverktaka og Sverrir Ólafsson rafmagnsverkfræðingur samkv. tilnefningu Rafmagnsveitna ríkisins. Verkefni n. var m.a. könnun á starfsemi Rafmagnseftirlits ríkisins, umfangi verkefna, þar með talin starfsemi raffangaprófunar, upplýsingastarfsemi o.fl., og skyldi n. skila skýrslu um störf sin ásamt till. til úrbóta til iðnrh.

20. des. 1973 skilaði n. áfangaskýrslu um störf sín. Þessi skýrsla er allmikið rit og fjallar hún fyrst og fremst um störf Rafmagnseftirlitsins, starfsmannaþörf og húsnæðismál. Það er rétt að taka hér upp örstuttan kafla úr þessari fyrstu skýrslu þar sem segir svo:

„Rafmagnseftirlit ríkisins hefur nú á þessu ári lokið 40 ára starfsferli og má fullyrða að það standi verulega að baki hliðstæðum stofnunum í öðrum menningarlöndum hvað allan aðbúnað, mannafla og tækjakost snertir. Þetta stafar fyrst og fremst af almennu skilningsleysi á þýðingu starfseminnar fyrir þjóðfélagið og hinn almenna notanda.“

Þetta segir í áfangaskýrslu þeirri sem n. skilaði í des. s.l.

Nefndin hefur haldið áfram störfum og hefur form. n. tjáð iðnrn. að fullnaðarskýrslu sé að vænta mjög bráðlega.

Síðari spurningin var þessi: „Hefur n. gert einhverjar till. til rn. um bætt skipulag þessara mála, t.d. að Rafmagnseftirlit ríkisins verði sjálfstæð stofnun?“

Í lokaskýrslu n. verður fjallað um ýmsar till. varðandi bætt skipulag þessara mála, og að því er snertir afstöðu n. til þess, hvort slíta beri tengsl Rafmagnseftirlits ríkisins við Orkustofnun, skal þess getið að þetta mál hefur verið rætt ítarlega á fundum n. og tekin afstaða til þess. Nefndarmenn eru sammála um að fella beri úr gildi þau ákvæði orkulaga, að Orkustofnun hafi í umboði ríkisstj. yfirumsjón með eftirliti af hálfu ríkisins, og heyrir rafmagnseftirlit þess í stað beint undir ráðh. Jafnframt telur n. nauðsynlegt að skipuð verði stjórnarnefnd fyrir Rafmagnseftirlitið, t.d. 5 manna, og að í n. þessa veljist fulltrúar frá hagsmunasamtökum sem störf eftirlitsins varða einkum. — Þetta er álit eða afstaða nefndarmanna til þessa máls.

Ég vil taka það fram að þetta atriði um að taka Rafmagnseftirlit ríkisins undan stjórn Orkustofnunar og gera það að sjálfstæðri stofnun kemur m.a. fram í samþykkt Sambands ísl. rafveitna sem send var þáv. iðnrh. í marsmánuði 1971, en í þeirri samþykkt Sambands ísl. rafveitna segir svo:

„Með hliðsjón af fram komnum upplýsingum um Rafmagnseftirlit ríkisins og niðurstöðu umræðuhópa samþ. 12. miðsvetrarfundur Sambands ísl. rafveitna 23.–24. febr. 1971 að beina þeim tilmælum til iðnrh. að hann beiti sér fyrir því að Rafmagnseftirlit ríkisins verði gert að sjálfstæðri stofnun sem heyrir beint undir ráðh.“

Enn fremur má geta þess að á Alþ. 1970–1971 flutti Jónas Pétursson ásamt 9 öðrum þm. Sjálfstfl. till. til þál. um endurskoðun orkulaga og er þar tekið fram að athuga skuli m.a. hvort ekki sé rétt að ákvæði 6. kafla orkulaga um Rafmagnseftirlit ríkisins verði í sérstökum lögum og að stofnun sú heyri beint undir ráðh. Í grg. segir að flm. telji þá skipan eðlilega.

Iðnrn. mun taka þessar og aðrar till. n. til gaumgæfilegrar athugunar þegar lokaskýrsla n. berst sem mun verða áður en langt um líður, eins og áður er fram tekið.