09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3696 í B-deild Alþingistíðinda. (2803)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Frsm. (Oddur Ólafsson):

Herra forseti. Heilbr.og trn. Ed. hefur fjallað um frv. til l. um Viðlagatryggingu Íslands. Hæstv. heilbrrh. hefur nýlega í þessari d. lýst hlutverki og tilgangi þessa merka frv. og ætla ég því ekki að gera nánari grein fyrir því hér.

N. kemst að þeirri niðurstöðu að hún mælir með samþykkt frv. með þeirri breyt. er hún flytur till. um á sérstöku þskj. Hún er við 2. gr. frv. og hljóðar þannig:

„2. gr. orðist svo: Stjórn stofnunarinnar skulu skipa fimm menn. Skulu þrír kosnir af Sþ., einn valinn af þeim vátryggingafélögum sem innheimta iðgjöld, sbr. 3. mgr. 8. gr., en trmrh. skipar einn og skal hann vera formaður. Varamenn skulu valdir á sama hátt. Stjórnarmenn skulu skipaðir til 4 ára í senn.“

Breyt. er þar af leiðandi sá að í upphafi frv. var lagt til að tveir skyldu kosnir af Sþ., einn valinn af vátryggingafélögum, en tveir af trmrh., en með þessari breyt, yrðu þrír kosnir af Sþ., einn valinn af vátryggingafélögum og einn valinn af trmrh. og skal hann vera formaður.

Við höfðum aðeins stuttan tíma til athugunar á þessu frv., en þar sem hér er um gagnmerkt nýmæli að ræða og sem allmikinn undirbúning þarf til þess að þessi trygging komist í framkvæmd vildum við fyrir okkar leyti reyna að hraða því að þetta mál gæti komist í gegnum Alþ.