09.05.1975
Efri deild: 81. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3698 í B-deild Alþingistíðinda. (2805)

258. mál, Viðlagatrygging Íslands

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Um leið og ég stend upp til að lýsa stuðningi mínum við þetta mál vil ég nota tækifærið að koma á framfæri tveimur athugasemdum.

Önnur er í svipuðum dúr og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni. Ég hefði talið mjög æskilegt að samræma ákvæði þessa frv. betur en gert hefur verið reglum um Bjargráðasjóð, og vona ég að það verði gert.

Hin athugasemdin er annars eðlis. Ég vil vekja athygli á því að í íslenskum skipulagslögum mun ekki vera ákvæði sem heimila skipulagsyfirvöldum að banna byggingar á ákveðnum hættusvæðum. Þetta tel ég mjög mikinn galla og mikil spurning hvort ekki hefði átt að setja slíka heimild í lög um leið og frv. til laga um Viðlagatryggingu Íslands er afgr. Ég vil geta þess, að á mjög fróðlegum fyrirlestrum og fundum sem ég sat með svissneskum prófessor, sem er meðal fróðustu manna um snjóflóðahættu, kom fram að svisslendingar hafa í flestum, ef ekki öllum sínum fylkjum eða kantónum sett í lög heimild fyrir skipulagsyfirvöld að banna íbúðarbyggingar á svæðum þar sem snjóflóðahætta er talin vera eitt snjóflóð á 300 árum. Og skólar og sjúkrahús eru alls ekki leyfðir á svæðum, þar sem nokkur snjóflóðahætta er talin.

Við íslendingar höfum því miður ekki tekið þessi mál eins föstum tökum og skyldi. Nú er það í undirbúningi bæði á vegum Almannavarna og fleiri aðila. M. a. hefur Rannsóknaráð ríkisins sett á fót n. til að skipuleggja rannsóknastarfsemi á þessu sviði, og mönnum hefur orðið ljóst nú upp á siðkastið, ekki síst í sambandi við þessa heimsókn, að mjög margt er hér í þessu sambandi á annan veg en skyldi. Þar er mikið verk að vinna og miklar rannsóknir þarf að framkvæma og athuganir á þeim stöðum landsins, þar sem hætta er fyrir hendi. Í mörgum tilfellum má koma í veg fyrir eða a. m. k. mjög draga úr skaða snjóflóða með ákveðnum aðgerðum byggingarlegs eðlis, en í ýmsum tilfellum er ég sannfærður um að rétt er að fara fremur þá leið sem t. d. svisslendingar gera og ég nefndi áðan, að leyfa ekki byggingar. Á þessu vildi ég vekja athygli nú þegar við umr. um þetta frv.