26.11.1974
Sameinað þing: 12. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

300. mál, endurvarpsstöðvar sjónvarps á Austurlandi

Fyrirspyrjandi (Helgi F. Seljan):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. góð svör hans og góðar undirtektir um leið. Ég fagna því framtaki sérstaklega að við skulum fá hér í hendur innan fárra daga ítarlega skýrslu um þetta má í heild. Það er vissulega kominn tími til að þessi stofnun geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi þetta, því að það er satt sem hæstv. ráðh. sagði, það hefur ekkert verið aukið við sjónvarpskerfið, má segja, nú síðustu tvö ár. því er til svarað af þessari stofnun að fjármagn vanti og fjárvöntun sé mikil hjá stofnuninni í heild. Það var upplýst hér áðan að ekki hefur þessi stofnun þó leitað heimildar til lántöku til þessara framkvæmda sem væru þó brýnastar í þessum efnum. Mér er til efs að fjármagnið hjá þessari ágætu stofnun hafi farið í annað þarfara á undanförnum tveim árum en að bæta og auka dreifingu sem mest.

Ég vil ítreka óskir mínar um það að úr því að málið er svona langt komið fyrir þá í Álftafirðinum, þá verði ekki látið þar við sitja, heldur fái þeir sína endurvarpsstöð. Það er að vísu um sameiginlegt átak að ræða hjá okkur hæstv. ráðh. ásamt með öðrum þm. kjördæmisins, að þeir nái sem fyrst fram þessari eðlilegu og sjálfsögðu ósk sinni.

En varðandi sjónvarpsdreifinguna almennt langar mig aðeins að benda á þetta: Ég held að ef ástandið batnar þar ekki til mikilla muna og það mjög skjótlega, þá hlýtur að því að koma að hin hlið málsins verði skoðuð, þ.e.a.s. afnotagjöldin. Óbreytt eða lítt breytt ástand frá því sem nú .er kallar á breytta tilhögun þeirra. Og ég skýt því hér inn að það mætti gjarnan hugsa sér að afnotagjöld sjónvarps lækkuðu að ákveðnum hundraðshluta, t.d. eftir því hve marga senda þarf að fara í gegnum með sjónvarpsefnið. Þetta mun a.m.k. verða tekið til alvarlegrar athugunar ef þessi ágæta stofnun hjakkar áfram í sama farinu hvað varðar dreifingu á sínu efni.