10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3781 í B-deild Alþingistíðinda. (2908)

276. mál, virkjun Hvítár í Borgarfirði

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Ég vildi aðeins gera örstutta aths. út af orðum hv. þm. Stefáns Jónssonar. Ég tel það alveg óþarft og er nóg komið af því að verið sé að gera að því skóna á opinberum vettvangi að virkjun Bessastaðaár sé mjög vafasöm. Það hefur verið gert í fjölmiðlum að undanförnu og ég tel ástæðulaust að það sé gert hér á Alþ. Þessi mál eru öll í könnun og athugun og það hefur enn ekkert komið fram sem bendir til þess að þessi virkjun sé óhagkvæm. (Gripið fram í.) Þessi virkjun byggir fyrst og fremst á miðlun. Ef af þessari virkjun verður, sem ég er fullviss um að verði hrundið í framkvæmd, þá verður miðlun við þessa virkjun fimm mánaða vatnsforði. Þessi virkjun byggist fyrst og fremst á því að safna vatni yfir sumarmánuðina til vetrarins og þar mun verða fimm mánaða vatnsforði.

Ég vil sem sagt endurtaka það að ég tel óþarft að reyna að gera þessa virkjun tortryggilega á opinberum vettvangi.