10.05.1975
Efri deild: 84. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3784 í B-deild Alþingistíðinda. (2915)

140. mál, gatnagerðargjöld

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel eðlilegt að gatnagerðargjöld séu innheimt til að standa undir hluta af kostnaði við gatnagerð og þá endanlegt slitlag á bæði vegi, götur eða þá lagningu gangstétta. En ég tel óeðlilegt að sveitarstjórnum sé veitt heimild til þess að innheimta nú gjöld aftur í tímann eins og gert er ráð fyrir í frv. til l. er hér liggur fyrir. Ég tel að útsvör og opinber gjöld, eins og þau eru lögð á hverju sinni, hafi verið lögð á til þess að standa undir framkvæmdum hvers tímabils, og ég vil því lýsa því yfir að ég mun ekki greiða þessu frv. atkvæði mitt, eins og það liggur fyrir, þó að ég sé hlynntur því að gatnagerðargjöld séu lögð á.