10.05.1975
Neðri deild: 82. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3808 í B-deild Alþingistíðinda. (2968)

Umræður utan dagskrár

Magnús Kjartansson:

Hæstv. forseti. Það er vissulega rétt sem hæstv. heilbr.- og trmrh. segir, að þegar bornar eru fram fsp. til ráðh., þá leita þeir að sjálfsögðu til embættismanna sinna til þess að hjálpa sér við að útbúa svör við þeim. Ráðh. kemst ekki yfir að svara öllu slíku sjálfur.

Allan þann tíma, sem ég gegndi ráðherrastörfum, kom það aldrei fyrir að fsp. væri ekki svarað innan eðlilegs tíma. Það kom aldrei fyrir að það væri kvartað undan því að fsp. hefði ekki verið svarað. Og það eru algerlega nýir starfshættir sem hér eru teknir upp þegar hæstv. heilbr.- og trmrh. segir að hann hafi ekki getað svarað þessari fsp. í meira en tvo mánuði vegna þess að embættismenn í rn. hans hafi ekki unnið verkið fyrir hann.

Ég er alveg sannfærður um að ef hæstv. ráðh. hefði einhverja eðlilega verkstjórn á sínu rn., þá hefði verið mjög auðvelt að fá svar við þessari einföldu spurningu á mjög stuttum tíma því að spurningin er afar einföld. Hún var um það eitt hvað liði gerð áætlunar sem gert er ráð fyrir í lögum um heilbrigðisþjónustu og hvenær þess mætti vænta að hægt yrði að nota hana til hliðsjónar við gerð fjárlaga. Það var allt og sumt sem spurt var um. Það þurfti ekki mikla könnunarstarfsemi til að svara þessu, og ég er viss um að hæstv. ráðh. hefði getað svarað þessu af munni fram án þess að fá aðstoð eins eða neins.