12.05.1975
Neðri deild: 83. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3896 í B-deild Alþingistíðinda. (3083)

95. mál, vegalög

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni mælir samgn. með því að það frv., sem hér er til umr., nái fram að ganga, en allir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. Einnig kom fram í máli hans að ég ásamt þremur öðrum hv. þm. stend að brtt. á þskj. 537. Áður en ég kem að því að fara nokkrum orðum þar um, vil ég aðeins minna á það að á sumarþingi, þegar núv. hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir hækkun á bensínskatti, var mjög um það rætt — og ég held að menn hafi verið nokkuð um það sammála, — að finna þyrfti tekjustofn til handa hinum smærri bæjar- og sveitarfélögum til þess að þau gætu ráðist í varanlega gatnagerð sem er nú brennandi spursmál á hinum ýmsu stöðum víðs vegar úti á landsbyggðinni, — spursmál sem er þess efnis að vart verður lengur hjá því komist að fundin verði leið til þess að þessi tiltölulega fámennu bæjar- eða sveitarfélög geti fjármagnað þær kostnaðarsömu framkvæmdir sem að þessu lúta. Þetta verkefni er nú eitt af þeim meginverkefnum sem blasa við hinum mörgu sveitarfélögum víðs vegar í kringum landið.

Á sumarþinginu, þegar þessi mál voru til umræðu, var ég einn meðal þriggja hv. þm., sem fluttu brtt. þess efnis, að af þeim 7 kr., sem þá stóð til að hækka bensínskattinn um, væri 2 kr. varið til þess að hefja framkvæmdir á hinum smærri stöðum sem á eftir eru varðandi gatnagerð. Þetta var fellt, en sumir núv. stjórnarliða höfðu þá uppi um það orð að þeir teldu nauðsyn til þess bera, þrátt fyrir það að þeir stæðu að því að fella þessa till., að finna einhverja leið til þess að fá fé til slíkra framkvæmda. Nú er það, að ég hygg, öllum ljóst sem eitthvað þekkja til á hinum smærri stöðum að það er gjörsamlega ofviða þessum sveitarfélögum að fjármagna þetta með eigin fjármagni eða að fjármagna það að verulegu leyti með lánsfé. Þarna verður að koma til beint framlag, a.m.k. að nokkru leyti — verulegu leyti tel ég, til þess að hin smærri sveitarfélög geti ráðist í þessar svo mjög nauðsynlegu framkvæmdir. Það er þess vegna engin spurning í mínum huga að það sé rétt, það sem nú er lagt til, að auka hinn svokallaða 10% sjóð í 25%. Það er réttlætismál. Og þó að hærra hefði verið farið í hlutfalli, þá var það vissulega réttlætanlegt. Ég verð hins vegar að segja að það kemur mér undarlega fyrir sjónir að þm. úr kjördæmum, sem eru tiltölulega skammt á veg komin með framkvæmdir í slíku, skuli nú standa að flutningi brtt. hér á hv. Alþ. til þess að lækka þetta 25% hlutfall sem ég taldi að samkomulag hefði verið orðið um á síðasta reglulega þingi, þ.e.a.s. vorið 1974, og að menn væru orðnir um það sammála að það þyrfti að stefna í þá átt að auka þetta. En nú hefur það gerst að komin er fram till. um að færa þetta aftur í hið gamla horf.

brtt. á þskj. 537, sem ég ásamt þremur öðrum hv. þm. stend að, er brtt. við 10. gr. frv., þ.e.a.s. við 32. gr. vegalaga, og er á þá leið að í stað þess að þeim fjármunum, sem koma til vegna 12,5% reglunnar í 32. gr., verði öllum úthlutað eftir höfðatölureglunni, þá verði 1/3 af þeim hluta úthlutað af fjvn. að fengnum tillögum vegamálastjóra og að þeir fjármunir fari til þess að fjármagna framkvæmdir á þeim stöðum sem skemmst eru á veg komnir af hinum smáu bæjar- og sveitarfélögum í gerð varanlegra gatna.

Það hefur lengi verið samdóma álit sveitarstjórnarmanna, a.m.k. í hinum fámennari landshlutum, og fulltrúa og stjórna fjórðungssambanda að hin svokallaða höfðatöluregla væri svo óréttlát gagnvart hinum dreifðu byggðum að brýna nauðsyn bæri til að gera þar leiðréttingu á. Ef menn gæfu sér tíma til þess að skoða þetta mál eins og það í reynd liggur fyrir og menn litu t.d. á úthlutun á þessu fé sem komið hefur inn vegna 12.5% reglunnar, þá kemur í ljós að Reykjavíkurborg, sem t.d. hefur fengið af þessu fé s.l. 10 ár 42.73%, er aðeins með 25.73% af þjóðvegakerfinu í þéttbýli, en önnur bæjar- eða sveitarfélög eða kjördæmi hafa fengið langtum, langtum minni fjárhæðir þó að þau hafi miklum mun lengra þjóðvegakerfi sem þarf að standa undir. Ég held því að vart geti mönnum blandast hugur um að ef á að gera einhverja gangskör að því að leiðrétta hlut dreifbýlisins í þessum efnum verður ekki hjá því komist að gera breytingu á úthlutunarreglum varðandi þéttbýlisféð. Það skal að vísu viðurkennt að ef því verður að breytt verður úr 10% í 25%, þá a.m.k. ætti að mínu áliti að koma eitthvað meira fjármagn til hinna fámennari sveitarfélaga til þess að standa undir þessum framkvæmdum, þ.e.a.s. ef það fæst viðurkennt að þessum fjármunum verði ráðstafað til þeirra framkvæmda, en ekki eingöngu til þjóðvega sem liggja í gegnum kaupstaði eða kauptún. Ég er þeirrar skoðunar eða a.m.k. ég vil skilja þá breytingu, sem hér er verið að tala um, úr 10% í 25%, á þann veg að það sé heimilað að nota þetta fjármagn til þess að standa undir framkvæmdum í varanlegri gatnagerð í hinum fámennari kauptúnum, annarri en þjóðvegum sem koma til með að liggja í gegnum viðkomandi kauptún eða bæjarfélög. En þó að þetta kæmi til. þá er víðs fjarri að það sé búið að finna neina þá leið, sem má telja viðunandi, til þess að hin fámennari og smærri sveitarfélög geti staðið undir þessum framkvæmdum. Einmitt með hliðsjón af því beitti ég mér fyrir því að flytja brtt. þá, sem ég hef nú gert að umræðuefni og er á þskj. 537, og freista þess með því að reyna að fá frekari leiðréttingu á þessum málum til handa hinum smærri bæjar- og sveitarfélögum.

Eins og ég sagði áðan kemur það í ljós, ef skoðaðar eru tölur fyrir síðustu 10 ár um úthlutun þéttbýlisvegafjárins, að Reykjavík hefur fengið af þessu 42.73%, en er þó ekki nema með þéttbýlisvegi eða þjóðvegi í þéttbýli sem svara til 25.73%. Vestfirðir hafa fengið af þessu fé 3.66%, en eru þó með sem svarar 11.21% af þjóðvegum í þéttbýli. Norðurland vestra hefur fengið 2.86%, en er með sem svarar um 7% af þjóðvegum í þéttbýli, og Austurland hefur fengið 3.76% af þessu fjármagni, en er þó með þjóðvegi í þéttbýli sem nema um 15.55%.

Ég hygg að það þurfi enginn að fara í grafgötur með það eftir að menn hafa skoðað þessar tölur og útdeilingu þess fjármagns sem hefur komið inn samkv. 12.5% reglunni, að hér er auðvitað um óviðunandi ástand að ræða gagnvart hinum smærri og fámennari bæjar- og sveitarfélögum. Það er því réttlætismál fullkomlega að breyta þessu á þann veg að hluta af þessum fjármunum, sem inn koma vegna 12.5% reglunnar, verði varið til að létta undir með hinum fámennari sveitarfélögum svo að þau geti ráðist í þessar geysilega kostnaðarsömu framkvæmdir.

Í upplýsingum, sem fyrir liggja frá Vegagerð ríkisins, kemur í ljós að varanlegt slitlag á þjóðvegum í þéttbýli er eftir kjördæmum rösklega 40% í Suðurlandskjördæmi, 60% rösk í Reykjaneskjördæmi, um 50% í Vesturlandskjördæmi, 20% í Vestfjarðakjördæmi, 40% í Norðurl. v., um 30% í Norðurl. e., 60% í Austurlandskjördæmi. Meðaltal yfir landið er að um 50% þjóðvega j þéttbýli er með varanlegu slitlagi. Af þessum upplýsingum er einnig alveg augljóst að hinir fámennari staðir hafa verið verulega afskiptir varðandi úthlutun þessa fjár vegna þess að hún byggist á höfðatölureglunni.

Í upplýsingum, sem fram hafa komið frá landshlutasamtökum, kemur í ljós að á síðustu 10 árum, þ.e.a.s. frá 1964–1974, hefur höfuðborgin fengið um 18400 kr. á hvern km þjóðvega í þéttbýli, en sá landshlutinn, sem er með minnst, hefur aðeins fengið 2 700 kr. á þessu sama tímabili. Þetta eru auðvitað reglur sem er alveg útilokað að a.m.k. fulltrúar hinna dreifðu byggða og smærri kauptúna geti sætt sig við, og er alveg augljóst að þeir hljóta að nota hvert tækifæri og neyta allra ráða til þess að fá breytingu á þessu óréttlæti að því er varðar úthlutun þéttbýlisvegafjárins — sem er óréttlæti vegna höfðatölureglunnar.

Ég a.m.k. vænti þess að fulltrúar þeirra kjördæma, sem eru svo sett eins og hér hefur komið fram, þ.e. að þar er að mestu leyti óunnið það verkefni að koma varanlegu slitlagi á götur, á þessum fámennu stöðum, þeir sýni það í verki nú og standi því saman um það að fá — að ég tel — lágmarksleiðréttingu vegna úthlutunar á þéttbýlisvegafénu, þannig að það verði þótt ekki sé nema 1/3 hluta þessa fjár úthlutað eftir þörf og nauðsyn í þeim sveitarfélögum sem mest þurfa á þessu að halda, þó svo að höfðatölureglan gildi þá áfram um hina 2/3 hlutana, sem ég tel þó óréttlátt með hliðsjón af því sem verið hefur á undanförnum árum og áratugum. Það hefði verið réttlætanlegt að stíga skrefið stærra til þess að rétta hlut þessara fámennu byggðarlaga vegna þess að höfuðborgarsvæðið t.d. hefur á undanförnum áratug — það er sýnt fram á með tölum — setið við svo gott borð í þessum efnum að það er fyllilega réttlætanlegt að eitthvað verði af því tekið til þess að létta byrði hinna fámennu sveitarfélaga og gera þar með viðunanlegri lífsskilyrði til handa því fólki sem býr á þessum stöðum.

Það er talið, eftir því sem mér skilst, að samkv. reglunni um 10%, ef hún væri í gildi t.d. árið 1975, að þá mundu þeir fjármunir, sem kæmu til með að verða til ráðstöfunar vegna hennar, vera um 28 millj., en miðað við 25% regluna mundu það verða um 70 millj. á árinu 1975 sem þarna kæmu til með að verða til ráðstöfunar.

Það vita allir í hvað 10% sjóðurinn hefur verið notaður á undanförnum árum. Það er fyrst og fremst hér á höfuðborgarsvæðinu. Það er Kópavogsgjáin fræga og umtalaða og að einhverjum hluta, ég veit ekki hversu miklum, á Selfossi. Þetta eru þeir staðir sem fyrst og fremst hafa notið þessarar 10% reglu og fjármuna sem hafa komið inn vegna hennar. (Gripið fram í: Nú er það búið.) Já, nú er það búið, en einkennilegt þætti mér ef hv. þm. Suðurl. gætu ekki fundið eitthvað annað verkefni álíka sem þeir teldu að ætti að ráðstafa þessu fjármagni til, þannig að það er ekkert útséð um það, þó að þessi ævintýri bæði tvö séu búin, að þá verði ekki hægt að finna upp eitthvað nýtt á þessu sama svæði.

Mér sýnist, ef breyting fengist samþykkt á 32. gr. í þá átt sem við hér leggjum til, að þá mundi einnig verða um að ræða einhvers staðar í kringum 70 millj. kr. sem kæmu til ráðstöfunar samkv. reglunni um 1/3 af 12.5%, þannig að samtals væri þarna um 120–140 millj. kr. fjárhæð sem hægt væri að verja til þessa sérstaka verkefnis, — þessa brýna verkefnis sem nú hvílir hvað þyngst á allflestum sveitarfélögum úti á landsbyggðinni. Ég fyrir mitt leyti tel að hér sé tillögum svo í hóf stillt að ég trúi því varla að nokkur einasti þm. fyrir dreifbýliskjördæmi, sem menn svo kalla, treysti sér ekki til þess að greiða atkv. með svo hógværum tillögum til þess að leiðrétta það mikla misræmi og það óréttlæti sem verið hefur í gildi að því er varðar skiptingu þessa fjár.

Ég vil minna á það að allflest þing fjórðungssambandanna í landinu hafa á það minnt í samþykktum á sínum ársfundum eða ársþingum að það sé brýnt verkefni og það verði að krefjast þess að breytt verði þessari svokölluðu höfðatölureglu á þann veg að dreifbýlisstaðirnir verði ekki svo gjörsamlega út undan í þessu dæmi eins og verði hefur á undanförnum árum. Um þetta hygg ég að menn almennt í þessum stofnunum hafi verið sammála, burt séð frá pólitískum skoðunum. Mér finnst því að hér á löggjafarsamkomunni ættu menn að geta verið sammála um svo mikið réttlætismál til handa þessum byggðarlögum, burt séð frá pólitískum flokkssjónarmiðum.

Ég skal ekki nema frekara tilefni gefist til, fjölyrða öllu meira um þetta, en ég vænti þess að hvar í pólitískum flokki sem menn annars eru, þá ljái þeir þessu réttlætismáli lið með því að stuðla að því að brtt. sú, sem við stöndum að á þskj. 537, nái fram að ganga og verði afgr. áður en þing verður nú sent heim, væntanlega, eftir því sem allt bendir til, í lok þessarar viku.