12.05.1975
Neðri deild: 85. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3934 í B-deild Alþingistíðinda. (3155)

265. mál, ráðstafanir vegna breytingar á gengi íslenskrar krónu

Frsm. meiri hl. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Þar sem ég verð mjög stuttorður vil ég víkja því að virðulegum forseta að sjútvrh. er fjarstaddur, en skammt í það kannske að næsta blaðra springi og vafalaust mun hann vilja hlýða á hvellinn. — En þetta frv., sem hér liggur fyrir um breyt. á l. nr. 78 frá 1974, um ráðstafanir vegna ákvörðunar Seðlabanka Íslands um breytingu á gengi íslenskrar krónu, er nokkuð síðbúið, — síðbúið vegna þess að það hefði gjarnan átt að lögfesta á hausti er leið þar sem ríkisstj. lýsti þá yfir að hún mundi haga gjörðum sínum á þann veg sem hér er beðið um lögfestingu á.

Þegar í upphafi er ljóst varð að vafi lék á að Verðjöfnunarsjóður fiskiðnaðarins væri tryggður svo sem skyldi, þá þótti bera nauðsyn til þess að ætla af gengishagnaði 400 millj. kr. til að bæta Verðjöfnunarsjóðnum upp skaða sinn. Nú var þetta gert með öðrum hætti, þannig að þeim 400 millj. var ráðstafað til brýnna nauðsynja útvegsins eins og þá þegar eða fljótlega var yfirlýst. Þess vegna er nú nauðsynlegt að lögfesta þetta sem framkvæmt var þótt síðbúið sé, en það er að b-liður 2. gr. tilgreindra laga, þar sem ráðstafað var til verðjöfnunarsjóðsins tilgreindu fé, verði felldur niður. Allir viðstaddir nm. mæltu með samþykkt frv. og ég hélt að með þeirri aðferð hefði sá árangur náðst að sigla hefði mátt fyrir þau sker sem nú virðist mest steyta á. Þetta er sami háttur og var í hv. Ed., að stjórnarandstaðan þar mælti með samþykkt frv., en gerði svo grein fyrir afstöðu sinni í sérstöku nál. En vera kann að hv. frsm. minni hl. feti í fótspor félaga síns, hv. þm. Sighvats Björgvinssonar, sem lýsti því yfir áðan að hann væri andstæður framgangi frv. sem hér var til umr. Kom mér það vissulega á óvart þar sem það varð samkomulag okkar í milli allra að mæla með samþykkt frv. enda þótt þeir teldu ástæðu til að gera sérstaka grein fyrir afstöðu sinni þar sem þeir höfðu ýmsar athugasemdir fram að færa.