13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3970 í B-deild Alþingistíðinda. (3221)

333. mál, rekstrarlán iðnfyrirtækja

Fyrirspyrjandi (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. iðnrh. fyrir svör hans. Þau gáfu það til kynna að hann hefur sýnt fullan áhuga á því að reyna að fá bætt úr þeim örðugleikum sem iðnaðurinn á við að glíma vegna aukins rekstrarkostnaðar. Nokkuð hefur áunnist í þeim efnum, m.a. það að iðnfyrirtæki hafa fengið aukin lán vegna gengistapa og lausaskulda í samræmi við það sem sjávarútvegurinn hefur fengið.

En það var eigi að síður ljóst af ræðu hæstv. ráðh. að vandinn í þessum efnum er mikill og hvergi nærri hefur enn verið leyst úr þeirri þörf sem iðnfyrirtækin hafa fyrir aukin rekstralán vegna þeirra ástæðna sem m.a. komu fram í ræðu hæstv. ráðh. Ég vil þess vegna leggja áherslu á það, að af hálfu ríkisstj. verði kappsamlega unnið áfram að því að leysa úr þessum vanda iðnaðarins og tryggja að hann geti, eins og ráðh. komst að orði, notað það svigrúm, sem gengislækkanirnar hafa gefið honum, til bættrar samkeppni við erlendar iðnaðarvörur. Þó að bankarnir sýni að vísu nokkurn vilja til úrbóta í þessum efnum þekkir maður það, að þar er alltaf um nokkra tregðu að ræða og sérstaklega hefur þess gætt hjá Seðlabankanum, og þess vegna þarf ríkisvaldið og ríkisstj. að vera vel á verði í þeim efnum. Ég legg því aftur aukna áherslu á að ríkisstj. fylgi þessu máli vel fram og tryggi hlut iðnaðarins sem best í sambandi við rekstrarlánaþörfina.

Ég vil svo taka undir það sem hæstv. ráðh. sagði að síðustu, að það sé mikil nauðsyn á því að landsmenn auki kaup sín á innlendum iðnaðarvörum. Og það er ekki síst ástæða til að leggja það fyrir opinbera aðila að þeir láti íslensk iðnfyrirtæki ganga fyrir erlendum í þessum efnum. Ég hygg að það sé alveg rétt, eins og lesa mátti út úr ræðum hæstv. ráðh., að ýmsar ríkisstofnanir hafi ekki gætt eins vel og skyldi þeirrar skyldu sem á þeim hvílir í þessum efnum.