13.05.1975
Sameinað þing: 77. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 3979 í B-deild Alþingistíðinda. (3230)

270. mál, viðbótarritlaun

Fyrirspyrjandi (Sigurlaug Bjarnadóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir svör hans. Ég verð þó að viðurkenna að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum af svörum hans, því að ég sé ekki að í þeim hafi falist nein fyrirheit um leiðréttingu mála þessara sextánmenninga sem ég tel að með nokkrum rökum hafi sýnt fram á að úthlutunarnefnd sú, sem gegndi þessu hlutverki undanfarandi ár, hafi ekki farið það vel úr hendi og ástæða sé til þess að endurskoða mat hennar og fullnægja þar með réttlæti gagnvart þessum 16 rithöfundum.

Það er allt gott um það að segja að könnunarnefnd hefur verið sett á laggirnar til að athuga um þessi mál í framtíðinni. Ég held að það sé í rauninni nauðsynlegt að skapa meira aðhald en ríkt hefur hingað til í störfum slíkra úthlutunarnefnda. Ég vil benda á að þessi sérstaka úthlutunarnefnd, sem hér er um að ræða, er dálítið sér á blaði og ég hygg að hennar störf muni verða nokkurs konar millíbilsástand, því að varla munu þessi viðbótarritlaun halda áfram í sama formi eftir að Launasjóður rithöfunda tekur til starfa.

Ég hygg að sú leiðinlega deila, sem orðið hefur um úthlutun þessara viðbótarritlauna, gefi beint tilefni til að íhuga hvort ekki sé eðlilegt og nauðsynlegt að einhver fulltrúi almannavaldsins sé með í ráðum við úthlutun fjár er ríkissjóður veitir til skálda og listamanna. Það yrði að vera glöggur og umfram allt grandvar og heiðarlegur maður sem þar ætti hlut að máli, maður sem gætti fyllstu óhlutdrægni og réttsýni í starfi og beinlínis vekti yfir því og varnaði því að ýmis annarleg sjónarmið og klíkuháttur geti komið upp og jafnvel ráðið miklu um skiptingu slíkra sjóða. Ég segi þetta ekki hvað síst með tilliti til væntanlegs Launasjóðs rithöfunda. Það þarf að vanda mjög vel til starfa þeirrar nefndar sem þessa skiptingu mun hafa með höndum, og það þarf að gera kröfur til strangheiðarlegra vinnubragða.

Ég vil enn láta í ljós þá ósk mína, enda þótt svör hæstv. menntmrh. gæfu ekki tilefni til þess, að þessir 16 rithöfundar, — þetta eru allt vel virtir og þekktir rithöfundar — Tómas Guðmundsson og Halldór Laxness eru efstir á blaði og við höfum hingað til tekið mark á þeim nöfnum og sama má segja um þau nöfn sem á eftir koma, — ég vil láta í ljós þá ósk að hæstv. menntmrh. sjái sér fært að verða við ósk þeirra og kröfu með þeim hætti að þeir geti sæmilega við unað.