14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4067 í B-deild Alþingistíðinda. (3320)

286. mál, iðnaðarmálagjald

Frsm. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft til meðferðar frv. til l. um iðnaðarmálagjald, 286. mál, og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess með þeim breyt. sem koma fram á nál. á þskj. 732. Þó eru nm. með þann fyrirvara að þeir áskilja sér rétt til að flytja eða fylgja öðrum brtt. og Stefán Jónsson er með sérstakan fyrirvara.

Það er best að segja það umbúðalaust að þetta er eitt af þeim vandræðamálum sem rekur á okkar fjörur á síðustu dögum Alþ.

Raunar finnst mér sem form. iðnn. óafsakanlegt að afgreiða það með þeim flýti sem áhersla er lögð á. Hér er um nýtt gjald og nýjan stofn, frádráttarbæran frá sköttum, að ræða og enn eitt gjaldið sem ekki skal leggjast við vöruverð eða þjónustu iðnfyrirtækja, og allt hlýtur þetta að krefjast allumfangsmikillar endurskoðunar á ýmsum eyðublöðum og öðru sem þessu fylgir. Hitt er hins vegar staðreynd, að frv. þetta var tilbúið þegar 94. löggjafarþing sat, en ekki lagt fram vegna formgalla sem á því komu fram.

Það er einnig staðreynd að þrír aðilar iðnaðarins, Félag ísl. iðnrekenda, Landssamband iðnaðarmanna og Samband ísl. samvinnufélaga, leggja allir ríka áherslu á að þetta frv. nái fram að ganga.

Í fáum orðum felst í þessu frv. 0.1% gjald, iðnaðarmálagjald, sem skal leggjast á allan iðnrekstur í landinu sem af er greitt iðnlánasjóðsgjald, og skal þetta gjald samkv. frv. síðan skiptast á milli Sambands ísl. samvinnufélaga að því leyti sem nemur greiðslum iðnaðarfyrirtækja Sambandsins og kaupfélaganna, en eftirstöðvar iðnaðarmálagjalds skiptast að jöfnu á milli Félags ísl. iðnrekenda og Landssambands iðnaðarmanna. Fram er tekið í lögunum að þessu gjaldi skuli varið til þess að efla íslenskan iðnað hjá þessum aðilum öllum og upplýst er í grg. frv. að á árinu 1974 hefði gjald þetta numið 18.2 millj. kr.

Ég fyrir mitt leyti er því sammála að þessi samtök þurfi sannarlega að taka til höndum og vinna ötullega að eflingu iðnaðar. En hins vegar sýnist mér að um það megi deila hvort ekki sé í raun og veru hér um tekjur til rekstrar þessara samtaka að ræða. Segja má að öll starfsemi þessara samtaka stuðli að eflingu iðnaðar og þar fari þetta tvennt saman. Á það er bent í grg, með frv. að svipaður háttur sé á hafður bæði í landbúnaði og sjávarútvegi þar sem innheimt er annars vegar sérstakt gjald og hins vegar hluti af útflutningsgjöldum sem renna til samtaka þessara atvinnugreina. Hér er því í raun og veru verið að lögbinda ákveðið gjald iðnaðarins til þess að standa undir kostnaði við sameiginleg samtök iðnaðarins.

Þetta frv. er í megindráttum undirbúið af Félagi ísl. iðnrekenda, Landssambandi iðnaðarmanna og Sambandi ísl. samvinnufélaga, og eins og ég sagði áðan liggur fyrir bréf frá þessum samtökum, dags. 1. mars 1974, þar sem þessi samtök leggja á það ríka áherslu að frv. verði samþ. hið fyrsta. Segir þar, með leyfi forseta, í síðustu málsgr.:

„Samtökin vænta þess að með þessum breytingum hafi svo verið úr bætt að unnt verði að leggja málið sem fyrst fram á Alþ. sem stjórnarfrumvarp.“

Þarna er vísað til þess sem ég sagði áðan, að á upphaflegu frv. kom fram formgalli. Því var vísað aftur til þessara samtaka og þau gerðu með bréfi þessu brtt. í þremur liðum sem hafa verið teknar inn í frv. Frv. hefur síðan verið yfirfarið af lögfræðingum og öðrum trúnaðarmönnum iðnmrn. og lagt fram í því formi sem það er nú.

Mér sýnist ekki ástæða til að rengja að þessi þrjú meginsamtök iðnaðarins leggi áherslu á að þetta frv. verði samþ. Undirskriftir forustumanna þessara samtaka liggja fyrir. Hins vegar vöknuðu ýmsar spurningar í meðferð iðnn., eins og t.d. þær hvort ýmsum iðnfyrirtækjum væri ekki með þessu gert að skyldu að greiða þetta gjald sem síðan rynni til félagssamtaka sem þau væru ekki aðilar að. Það var upplýst á fundi sem hæstv. iðnrh. mætti á með fulltrúa frá Landssambandi iðnaðarmanna og ráðuneytisstjóra iðnrn. að svo væri. N. taldi því nauðsynlegt að kanna nokkru betur hve viðtækt þetta væri. Fyrir hönd n. hafði ég samband við Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, en innan hennar vébanda munu vera veigamestu félögin sem eru utan þessara samtaka. Staðfest var í því samtali að ekki hefur verið haft samband við Sölustofnun lagmetisiðnaðarins. Framkvæmdastjóri þeirra samtaka lagði áherslu á, þó með fyrirvara um viðhorf sinnar stjórnar, að samtökin vildu gera kröfu til þess að þau fengju þá að sinum hluta þetta gjald til sín, enda yrði því varið til eflingar lagmetisiðnaðarins í landinu. Ég hef einnig leitað upplýsinga um aðrar iðugreinar og ekki fundið að aðrar iðngreinar sem slíkar séu utan þessara samtaka. M.a. hafði ég samband við Samband málm- og skipasmiðja sem eru mjög stór samtök og raunar að ýmsu leyti stærri en Félag ísl. iðnrekenda. Upplýst var að samráð hefur verið haft við þau samtök. Aðilar að þeim samtökum eru aðilar að Landssambandi iðnaðarmanna og mæla eindregið með því að þetta frv. verði samþ.

Iðnn. ákvað, að fengnum þessum upplýsingum, að gera þá breyt. sem talin er upp í 2, lið brtt., að við bætist nýr liður, svo hljóðandi:

„Upphæð, sem svarar til iðnaðarmálagjalds lagmetisframleiðenda sem eru aðilar að Sölustofnun lagmetisiðnaðarins, skal renna til þeirra samtaka sem ráðstafa þeim hluta til eflingar lagmetisiðnaðinum í landinu.“

Auk þess taldi iðnn. við yfirferð á frv. að í tveimur minni háttar atriðum væri rétt að gera till. til breyt. og eru þær í fyrsta lagi við 1. málsgrein 1. gr. þar sem segir í frv.: „fyrirtæki í einkaeign opinberra aðila eru undanþegin“ o.s.frv. komi: fyrirtæki að öllu leyti eign opinberra aðila. Þetta er orðalagsbreyting. Við kunnum ekki við að tala um einkaeign opinberra aðila. Í síðustu málsgr. 1. gr. segir: „Óheimilt er að leggja gjaldið við útsöluverð á vörum eða þjónustu iðnfyrirtækja“. Okkur sýnist óljóst hvað þarna er við átt, t.d. hvort með þessu væri þá heimilt að leggja þetta gjald á framleiðsluverð eða verð frá verksmiðju þótt það fengist síðar ekki tekið inn í útsöluverð til neytenda. En eftir viðræður við hæstv. iðnrh. og hans menn sýnist okkur ljóst að hér muni vera átt við það að þetta gjald leggist hvergi á verð vörunnar og viljum því breyta þessu svo að á stað „við útsöluverð“ komi: við verð á vörum eða þjónustu iðnfyrirtækja.

Eins og komið hefur fram í mínum orðum, þá er ég ekkert sérstaklega hress yfir því að afgreiða slíkt frv., nýtt gjald, með svo stuttum fyrirvara og verð að átelja það harðlega að þetta frv. skuli ekki vera lagt fram langtum fyrr. Bréf umræddra aðila iðnaðarins liggur fyrir frá 1. mars 1974, en frv. er ekki lagt fram fyrr en nú á síðustu dögum þingsins. Þótt ég fallist á að afgreiða þetta mál í þeirri sannfæringu, að hér sé fyrst og fremst verið að verða við ósk þessara aðila, og í þeirri von, að okkur hafi tekist að leiðrétta það sem betur mátti fara í frv., verð ég að taka það skýrt fram að ég er alls ekki sannfærður um að við höfum skoðað þetta frv. svo vel sem skyldi.