14.05.1975
Efri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4100 í B-deild Alþingistíðinda. (3351)

220. mál, atvinnuleysistryggingar

Helgi F. Seljan:

Herra forseti. Mig langar til þess að segja fáein orð við þessa umr. hér því að ég vil hafa hið besta samstarf við hæstv. forseta og reikna með því að þegar þetta frv. kemur til 2. umr. muni kannske verða enn meiri hraði hér á hlutunum og enn meiri þörf skjótra viðbragða, svo að það sé best að vera sem fyrst í þessu og gera þetta frv. að nokkru umtalsefni. Ég ætla þó að vona að það verði ekki talið á nokkurn hátt mér til andstöðu við hugmyndina í sjálfu sér þó að ég taki hér til máls og geri ýmsar athugasemdir við málið í heild eins og það kemur mér fyrir sjónir.

Þetta mál kemur að vísu til þeirrar n. sem ég á sæti í og þar mun ég ræða það, en reyni svo að forðast að fara í það nánar aftur við 2. umr. að svo miklu leyti sem hjá því verður komist.

Svo hlynntur sem ég er fæðingarorlofi eða barneignafríi kvenna, eins og Skúli Guðjónsson á Ljótunnarstöðum vill heldur láta orða þetta, og þá allra kvenna, þá hefur mér frá því ég sá þetta frv. fyrst ekki fundist það samrýmast nægilega vel hugmyndum mínum um þessi mál. Ég hef einfaldlega talið málið heyra beint undir tryggingar, ekki vegna atvinnuleysis, heldur almannatrygginga í landinu af tveim ástæðum aðallega. Í fyrsta lagi af því að málið heyrir beint og óumdeilanlega undir þennan málaflokk ríkisútgjalda. Eðli barneignafrís hlýtur að flokkast til beinna tryggingamála. Í öðru lagi og enn frekar, þó að skemmra yrði e.t.v. gengið gagnvart lengd frísins í upphafi, þá hlýt ég að telja fullt jafnrétti öllum konum til handa tryggt með því einu móti að okkar alhliða tryggingakerfi taki þetta mál að sér að fullu, í áföngum e.t.v. eins og fleira sem þar hefur áunnist. Þetta geri ég af alhliða jafnréttisástæðum sem ég hélt að við ættum framar öllu öðru að hafa að leiðarljósi hér sem annars staðar. Þannig hefur málið verið flutt og túlkað áður, m.a. nú á þessu þingi, og því mjög að vonum, að nokkur umr. og athugun fari fram þegar málið er allt í einu flokkað undir einhvers konar atvinnuleysisbætur.

Í Nd. urðu umr. býsna langar og merkilegar eins og þar er titt og munu hv. flm. ekki hafa þar látið sitt eftir liggja að tefja fyrir málinu eins og sagt hefur verið um þá aðra sem þar ræddu málið. Ég minni enn einu sinni á till. þá frá Bjarnfríði Leósdóttur, sem var svo hljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera þær breytingar á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, að þar verði konum tryggt 3 mánaða fæðingarorlof á fullum launum. Enn fremur að fæðingarstyrkur verði greiddur hverri konu, en dvöl á fæðingarstofnunum verði ókeypis.“

Hér þótti mér um mjög athyglisverða og um leið rökrétta aðferð að ræða og var henni mjög fylgjandi. Óumdeilanlega á svona mál heima innan ramma okkar almennu tryggingalöggjafar. Það er því ekki að undra þó að ýmsar athugasemdir og ábendingar hafi komið fram um þetta mál í Nd. og þær athugasemdir hafa í fyllsta máta verið eðlilegar og málefnalegar. Hins vegar dreg ég ekkert úr gildi þessa máls og eflaust góðum hug þeirra flm. sem að þessu máli standa.

Ef litið er til baka til upphafs Atvinnuleysistryggingasjóðs, þá fer ekkert á milli mála hvaða hlutverki hann átti að þjóna og hvernig hann var til kominn. Einfaldlega skiptu launþegar í landinu í lok hins harða og langa verkfalls 1955 á almennri kauphækkun og fengu sömu prósentur í sjóð til að bæta ástand kjara þeirra í atvinnuleysi, taka þar sárasta broddinn úr með nokkrum bótum. Að minni skoðun er þetta því óumdeilanlega sjóður launþega sjálfra. Sem betur fer hefur ekki þurft að ganga stórkostlega á þennan sjóð allt til þessa, þótt t.d. nú séu nokkrar blikur á lofti og alltaf eigi að hafa þar á fulla gát. En sjóðurinn fékk fljótt önnur verkefni, tengd atvinnulífinu í landinu, til að hindra atvinnuleysi með fyrirgreiðslu til ýmiss konar aðila, og oft hefur sjóðurinn gripið þann veg inn í mál að fyrirsjáanlegu atvinnuleysi hefur verið bægt frá. Ríkisvaldið hefur eðlilega einnig leitað til sjóðsins um fyrirgreiðslu ýmiss konar og þá oftast varðandi atvinnulífið almennt eða mál því nátengd. Sama er að segja um sveitarfélögin sem reyndar greiða sinn hlut til þessa sjóðs. Og í dag veit ég að fyrir liggja umsóknir — margar mjög brýnar — frá ýmsum aðilum um aðstoð, m.a. til að koma í veg fyrir atvinnuleysi, og formaður sjóðsstjórnar, sá góði og grandvari maður Hjálmar Vilhjálmsson, hygg ég að fari ekki dult með áhyggjur sínar nú, þar sem hann sér fram á erfiðleika sjóðsins við að standa í skilum með þau verkefni sem fyrir eru þótt ekki sé á bætt án nýrra tekna.

Ég vil eindregið mælast til þess, í þeim tilgangi að fá sem bestar og gleggstar skýringar um þetta, svo að það geti á engan hátt sett óeðlilegan þröskuld í veg þessa máls, að til þess verði séð að Hjálmar Vilhjálmsson verði fenginn á fund heilbr.- og trn. þegar hún tekur þetta mál fyrir. Ég veit að formanni er ljóst að þess er þörf. Þessum manni og fleirum úr sjóðsstjórninni, sem hér hafa viljað fara að öllu með gát og ekki rasa um ráð fram, treysti ég of vel til að halda þá fara með fleipur.

Menn hafa gjarnan spurt, m.a. flm. þessa frv., hvort lánagreiðslur ýmsar úr sjóðnum í dag ættu meiri rétt á sér en þetta brýna verkefni. Mér finnst að um það sé í raun þarflaust að spyrja. Staðreyndin um brýn verkefni sjóðsins til margvíslegra hluta, ónóg fjárráð til að standa nógu vel að þeim verkefnum, segir sína sérstæðu sögu en á ekki hér beint skylt við.

Við verðum því, ef þessa leið á að fara, að gera annað tveggja: ákveða hvaða verkefnum á að létta af sjóðnum, hverju á hann að neita, og ef við ekki viljum segja það hreint út, þá eigum við að afla sjóðnum þeirra tekna til viðbótar sem standi undir þessum greiðslum, ekki síst þegar atvinnuleysi er staðreynd vegna togaraverkfallsins og ýmis merki um það að atvinnuleysisbætur kunni að verða með mesta móti á þessu ári, þótt hið besta skuli vonað. Þetta hefur verið svo rækilega rætt og rökstutt í Nd. að ég skal forðast miklar endurtekningar þess hér. Ég sagði: „þessa leið, sem hér er lagt til að farin sé“. Ég legg á það áherslu að það er þessi aðferð, en ekki málið sjálft, sem um hefur verið deilt. Um það virðast nú allir sammála þótt till. Bjarnfríðar Leósdóttur hafi litlar undirtektir fengið hjá sumum og nýfelldar séu hér í þinginu till. um barneignafrí allra kvenna. En gott og vel, ef menn hafa hér komist að samkomulagi um grunninn, þá ætti að vera hægara um uppbygginguna. En þá vakna ýmsar spurningar um leið, hver elgi að vera sá aðili, sem grunninn leggur, og um það er rætt og um það hygg ég að öll umr. í Nd. hafi snúist.

Ég skal ekki tala öllu lengur hér um þetta mál, en bendi á þessi atriði til umhugsunar og ætlast engan veginn til, að þau séu neinn farartálmi í vegi þessa frv.:

Í fyrsta lagi er hér óumdeilanlega um að ræða hreint tryggingamál, sem á að falla inn í okkar almannatryggingakerfi, og mun jafnvel hafa verið viðurkennt af einhverjum flm. að þetta, sem hér er lagt til, væri nær því að vera bráðabirgðalausn mála.

Í öðru lagi tel ég Atvinnuleysistryggingasjóð ótvíræða eign launþega og beinar greiðslur úr þeim sjóði hljóta því að vera þeirra mál fyrst og fremst, til þeirra á því að leita um samþykki við nýjar greiðslur. Ég veit ekki hvort það hefur verið gert eða hvaða umsagnir liggja fyrir, en það verður vitanlega skoðað í nefnd.

Í þriðja lagi er hér um takmarkaðan hóp kvenna að ræða, að vísu allstóran hóp sem ég hef mikla og ríka samúð með. En það er eðlilegt að spurt sé hvort jafnrétti eigi hér ekki að vera sem mest, þ.e.a.s. að eðlilegast hlyti að vera að allar konur nytu hér sama réttar, jafnvel þótt skemmra yrði gengið í upphafi.

Í fjórða lagi virðist fullljóst, fyrr en annað liggur þá fyrir, að annað tveggja þarf að gera: Létta af Atvinnuleysistryggingasjóði ýmsu því sem á honum hvílir í dag og allir ætlast í raun til af honum að hann sinni, ríkisvald, sveitarfélög og ýmsir aðilar atvinnulífsins, og það meira að segja í ríkari mæli en sjóðurinn er fær um. Þá álit ég að við eigum að ganga hreint til verks og segja ákveðið til um það hvað eigi niður að falla og þá hvaða byrðum eigi að létta af sjóðnum og gera það í sérstöku ljósi þess hve atvinnuástand í dag getur orðið ótryggt, atvinnuástandið getur orðið eins og allt bendir til í dag. Hin leiðin er svo sú að auka tekjur sjóðsins sem þessu nemur og till. hafa komið fram um í Nd. Þá leið má vissulega hugsa sér, en að öllu óbreyttu finnst mér að hér rekist ýmislegt á og það allóþyrmilega að dómi ýmissa þeirra sem gerst til þekkja. Ég nefni formann stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðsins, sem enginn vænir um neinar öfgar í þessu máli, alveg sérstaklega þessu til staðfestingar.

Ég hygg að um málið sjálft, barneignafrí til allra kvenna, sé nú orðin full samstaða. Því ætti að sameina kraftana að því marki sem óumdeilanlegt yrði og finna þá leið sem eðlilegust og sjálfsögðust hlýtur að teljast, þ.e.a.s. innan ramma almannatryggingakerfisins. Sé þess ekki kostur, þá hlýt ég að fylgja þessum áfanga sem hér er farið fram á, að því tilskildu að Atvinnuleysistryggingasjóður geti sómasamlega séð fyrir þessum greiðslum. Og ég vil jafnframt tryggja það, að ekki sé þrengt óeðlilega að öðrum eðlilegum þáttum í starfsemi sjóðsins, og mun freista þess í n. að fá þetta skýrar fram. Ég sem sagt álít — jafnmörg verkefni og þessi sjóður hefur haft að undanförnu, og mér hefur virst menn vera tregir til að benda á það hvað niður ætti að falla eða þá hvort það þyrfti þá ekki nýjar tekjur þarna — að fyrir því verði að vera mjög greinargóðar upplýsingar. Ég lýsi því ákveðið yfir að þetta er mál sem er með þeim brýnni í okkar tryggingamálum almennt og að því ber að vinna af alefli. Og ég lýsi því enn yfir að ef engin önnur leið finnst um þetta mál, þá mun ég styðja það sem áfanga, sem bráðabirgðalausn. Ég vil ekki bregða á neinn hátt fyrir þetta mál fæti ef menn sjá enga færa leið aðra þó að ég hafi haft á því ýmsa fyrirvara. Eftir athugun, sem ég tel nauðsynlega, og hugsanlegar brtt., ef annars verður ekki úrkosta og hætta verður t.d. á því að þetta mál dagi uppi í heild, þá tel ég þetta mál þó það mikilvægt, þó að leiðin sem þarna er farin sé ekki sú eðlilega og rétta að mínum dómi, að ég hlýt að styðja þennan áfanga engu að síður.