14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4125 í B-deild Alþingistíðinda. (3380)

280. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Frv. þetta, sem hér er til umr., um breyt. á umferðarlögum er samið af umferðarlaganefnd að tilhlutan dómsmrn. Meginefni frv. þessa felur í sér þær breyt. á ákvæðum umferðarlaga að gert er ráð fyrir því að hætt verði að umskrá ökutæki vegna flutninga milli lögsagnarumdæma svo og því að Bifreiðaeftirlit ríkisins annist skráningu ökutækja í stað lögreglustjóra.

Samkv. gildandi ákvæðum umferðarlaga skal skrá öll skráningarskyld ökutæki hjá lögreglustjóra þar sem eigandi ökutækisins er búsettur. Þá er eigandaskipti verða á skráðu ökutæki og hinn nýi eigandi er búsettur í öðru lögsagnarumdæmi skal tilkynna lögreglustjórum beggja umdæma eigendaskiptin. Skal ökutæki þá skráð að nýju, en afskráð í umdæminu sem það fluttist frá. Ef eigandi ökutækis flyst búferlum með ökutæki sitt í annað lögsagnarumdæmi skal eigandi senda tilkynningu um flutninginn til lögreglustjóra beggja umdæmanna. Skal ökutæki þá afskráð í því umdæmi sem það fluttist frá, en skráð að nýju í umdæminu sem flutt er í. Gildir þetta þó eigi þegar um skemmri dvöl er að ræða. Auk þess sem þannig hefur verið lögskylt að umskrá ökutæki vegna flutnings ökutækja milli umdæma hefur tíðkast að umskrá ökutæki að ósk eigenda þótt eigi hafi það verið skylt að lögum.

Með auknum bifreiðafjölda hefur umskráningum farið mjög fjölgandi og umsvíf tengd þeim hafa aukist ár frá ári hjá hinum ýmsu lögreglustjóraembættum svo og við Bifreiðaeftirlit ríkisins. Voru umskráningar þannig 19 800 á árinu 1973 og í fyrra, 1974, voru þær 27 340. Bifreiðafjöldi er talinn hafa verið um síðustu áramót 70159.

Þessi auknu umsvif hafa kallað á fjölgun starfsliðs og aukinn rekstrarkostnað. Á undanförnum árum hefur því verið til athugunar á hvern hátt draga megi úr kostnaði á þessu sviði og gera skráningarkerfið einfaldara, bæði fyrir þegnana og hið opinbera. Fór upphaflega fram rækileg athugun á þessu máli á vegum norsks hagfræðingafyrirtækis, Industrikonsulent, og var þá lagt til að tekið yrði upp fast númerakerfi þar sem ökutæki haldi óbreyttum skráningarmerkjum frá því það er fyrst skráð og þar til það er tekið af skrá sem ónýtt. Till. þessar hafa síðar verið til meðferðar hjá Bifreiðaeftirliti ríkisins og einnig í undirnefnd fjvn., sem lagði til að tilhögun ökutækjaskráningar yrði breytt á þann veg sem lagt er til í frv. þessu, en með því er lagður grundvöllur að því að skráningu ökutækja verði breytt á þann veg að tekið verði upp fast númerakerfi fyrir allt landið.

Kostir við þessa breytingu eru fyrst og fremst sparnaður í vinnu og aðstöðu, þar sem hætt yrði að umskrá ökutæki vegna flutnings milli umdæma eða annarra ástæðna. Jafnframt mundu falla niður þær skoðanir sem nú er skylt að framkvæma við umskráningu. Sparnaður þessi mundi ekki einungis koma fram hjá þeim opinberu stofnunum sem hlut eiga að máli, lögreglustjórum, Bifreiðaeftirliti og þinglýsingardómurum, heldur einnig hjá eigendum ökutækjanna svo og öðrum, t.d. vátryggingarfélögum. Breytt skráningarkerfi mundi og auðvelda viðhald ökutækjaskrár og skýrsluvélavinnu og draga úr hættu á misskráningu.

Yfirgnæfandi fjöldi nýrra ökutækja er í dag skráður í Reykjavík, þar sem þau eru flutt inn, annaðhvort lögreglustjóranum í Reykjavík eða Bifreiðaeftirlitinu í umboði viðkomandi lögreglustjóra. Með breyttu skráningarkerfi mundi þeim ökutækjum fjölga að mun sem þar verða skráð án tillits til þess hvar eigandi er búsettur. Þegar þessa er gætt svo og þess að hætt verður að umskrá ökutæki vegna flutnings milli umdæma þykir eðlilegast að Bifreiðaeftirlitið, sem ekki er bundið við einstök lögsagnarumdæmi, taki við skráningarhlutverki lögreglustjóranna. Hefur og verulegur hluti skráningarstarfa farið um hendur bifreiðaeftirlitsmanna í umboði lögreglustjóranna.

Með þessari breyt. mundu falla niður þau auðkenni á ökutækjum sem leiðir af umdæmaskiptingu landsins. Eftir sem áður er gert ráð fyrir því að hver lögreglustjóri haldi skrá yfir ökutæki í umdæmi sinu skv. gögnum frá Bifreiðaeftirlitinu þar sem haldin verður allsherjarspjaldskrá sem embættin að öðru leyti hafa aðgang að.

Nokkur undirbúningur að nýju skráningarkerfi er þegar hafinn, m.a. með kaupum á skráningarvél sem skráir upplýsingar um ökutæki vegna spjaldskrár og skráningarskírteini, auk þess sem hún gatar á strimil upplýsingar til úrvinnslu í skýrsluvélum. Er gert ráð fyrir því að hvert ökutæki verði auðkennt með tveimur bókstöfum og þremur tölustöfum og er það talið geta gefið möguleika á um 670 þús. númerum. Rétt er að taka fram að þessi undirbúningur er í sjálfu sér óháður því hvort skráningarmerkjum verður breytt eða ekki, en kemur að notum ef horfið verður að því ráði að breyta þeim, en ekki er nauðsynlegt að skipta um merki á öllum ökutækjum samtímis.

Með tilliti til breytts hlutverks Bifreiðaeftirlitsins, er það tekur við ökutækjaskráningunni, eru lagðar til nokkrar breytingar á ákvæðum umferðarlaganna að því er Bifreiðaeftirlitið varðar. Brýn nauðsyn er orðin að bæta starfsaðstöðu Bifreiðaeftirlitsins bæði í Reykjavík og einnig úti á landi. Er nú unnið að undirbúningi byggingar skoðunarstöðvar Bifreiðaeftirlitsins hér í Reykjavík, þar sem stofnunin hefur búið við mjög þröngt húsnæði og að öllu leyti frumstæða aðstöðu til skoðunar.

Frv. þetta hefur auk þessara breyt. á skráningarkerfi ökutækja, sem hér hafa sérstaklega verið gerðar að umræðuefni og e.t.v. koma til með að vekja mesta athygli og umr. í sambandi við þetta mál, að geyma nokkur önnur ákvæði. Ber þar fyrst að geta ákvæða um skráningu og notkun beltabifhjóla sem svo eru nefnd í frv., en þar er einkum átt við vélsleða eða snjósleða. Á undanförnum árum hafa verið flutt til landsins allmörg þess háttar ökutæki. Er talið að fluttir hafi verið til landsins a.m.k. 1 200 vélsleðar. Vélsleðarnir eru margir hverjir mjög hraðskreiðir. Eigi hafa vélsleðarnir verið skráðir og nokkur óvissa hefur ríkt um hvaða reglur skuli um þá gilda. Er lagt til hér að tekin verði upp sérstök skráning fyrir ökutæki þessi og önnur skyld og þau nefnd beltabifhjól. Jafnframt er gert ráð fyrir sérstökum reglum um þessi svonefndu beltabifhjól, svo sem skráningu, vátryggingu og ökuréttindi. Skilgreining frv. er í samræmi við hliðstæða skilgreiningu í norskri og sænskri umferðarlöggjöf.

Vélsleðarnir eru til margra hluta nytsamleg samgöngutæki þar sem snjóalög eru mikil og umferð annarra ökutækja teppist af þeim sökum. Hafa þeir án efa breytt til muna aðstöðu margs bóndans. Vélsleðarnir eru og hentugir til ýmiss konar þjónustu, svo sem vegna viðgerða og ýmiss konar hjálparstarfs. Ýmis vandkvæði hafa hins vegar orðið af notkun þeirra víða um landið, bæði í þéttbýli og eins í skíðalöndum, vegna hávaða og vegna slysahættu. Að nokkru hefur verið reynt að takmarka notkun vélsleða með ákvörðun lögreglustjóra skv. heimild í umferðarlögum. Þær ráðstafanir hafa þó ekki reynst fullnægjandi og lögfesting þeirra ákvæða, sem í frv. þessu felast, mun naumast leysa öll vandamál sem koma til greina í sambandi við notkun vélsleða, en miða þó í áttina. Þessi vandamál bar m.a. á góma á nýlega afstöðnu náttúruverndarþingi sem gerði ályktun um efnið.

Frv. hefur og að geyma nýmæli þar sem eru ákvæði um hámarkslengd ökutækja. Er nauðsynlegt að hér á landi séu lög um takmarkanir á lengd ökutækja og er ákvæði frv. í samræmi við það sem víða tíðkast erlendis,

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að rekja hin ýmsu ákvæði frv. frekar, hvað ég vil aðeins geta ákvæðis um vátryggingarfjárhæðir, en lagt er til að þær verði hækkaðar vegna verðlagsþróunarinnar frá í fyrra, en þá voru fjárhæðirnar síðast hækkaðar. Miðað við nokkra hækkun á eigin áhættu er talið að hækkun vátryggingarfjárhæðanna þurfi ekki að hafa í för með sér hækkun iðgjalda.

Mér er að sjálfsögðu ljóst að þetta frv. nær ekki afgreiðslu á þessu þingi og ég fer að sjálfsögðu alls ekki fram á það. En þó að það væri ljóst taldi ég rétt að leggja það fram svo að þm. gætu haft það til athugunar yfir sumarið. Hér er um mál að tefla sem vel má vera að talsvert skiptar skoðanir verði um á meðal manna og gott að þeir fái þá tækifæri eða svigrúm til þess að láta álit sitt í ljós.

Ég leyfi mér að óska eftir því að frv. verði vísað til 2. umr. að lokinni þessari og til hv. allshn., en tek aftur fram, eins og ég áður sagði, að ég ætlast auðvitað ekki til þess að hún skili áliti á þessu þingi.