14.05.1975
Neðri deild: 87. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4161 í B-deild Alþingistíðinda. (3399)

Umræður utan dagskrár

Gylfi Þ. Gíslason:

Hæstv. forseti. Fyrir skömmu var frv., sem ég hef flutt um skákkennslu í skólum, vísað til hv. menntmn. þessarar d. Frv. hafði fengið mjög góðar undirtektir við 1. umr. hér í þessari hv. d. og af viðtölum við þm. úr öllum flokkum tel ég mig hafa vissu fyrir því að meiri hl. þm, er samþykkur efni frv. og því, að það nái fram að ganga á þessu þingi.

Í morgun var haldinn fundur í hv. menntmn. þessarar d. og hafði ég fastlega gert ráð fyrir því eða talið raunar sjálfsagt að málið yrði tekið fyrir á þeim fundi, þar sem mér var kunnugt um að á fyrri fundi hafði n. sent frv. til umsagnar Skáksambands Íslands og stjórn Skáksambandsins hafði á fundi sínum fyrir nokkrum dögum einróma mælt með því, að frv. yrði afgreitt á þessu þingi, og taldi það vera merkt spor til stuðnings skákíþróttinni og til eflingar heilbrigðu skólastarfi. En mér til mikillar undrunar varð ég þess vísari síðdegis í dag að frv. hefði alls ekki verið tekið fyrir í n. á fundi hennar í morgun og nm. ekki gert kunnugt, að þegar lægi fyrir umsögn frá þeim eina aðila sem frv. hafði verið sent til umsagnar til.

Mér þykir þetta vera mjög aðfinnsluverð vinnubrögð og ég vil leyfa mér að beina því til hv. formanns menntmn. að greina þessari hv. d. frá umsögn Skáksambandsins um frv., fyrst nm. fengu ekki vitneskju um umsögn Skáksambandsins á fundi sínum í morgun. Jafnframt vil ég beina þeim eindregnu tilmælum til hv. formanns að hann, að því loknu að d. hafi verið gert kunnugt um efni umsagnarinnar, boði til annars fundar í n. og kanni hvort þar er ekki meiri hl. fyrir því að mæla með því að frv. ái fram að ganga.