15.05.1975
Neðri deild: 90. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4256 í B-deild Alþingistíðinda. (3495)

95. mál, vegalög

Sigurlaug Bjarnadóttir:

Herra forseti. Með brtt. þeirri, sem hér liggur fyrir á þskj. 770, frá okkur 4 Vestfjarðaþm., er ekki farið fram á annað en að þessi 25% af þéttbýlisvegafé í stað 10% áður, sem tekin eru nú undan höfðatölureglu 32. gr. vegal., komi örugglega og tryggilega til góða þeim fámennu þéttbýlisstöðum úti á landsbyggðinni sem skemmst eru á veg komnir í vega- og gatnagerð og hafa enga von um að úr verði bætt nema þeir fái eðlilega hlutdeild í almennu vegafé. Ég bendi enn á hve fráleitt það er að tala í þessu sambandi um ágang og ofríki gegn þéttbýlinu hér suðvestanlands, þegar það er haft í huga að á þessu svæði býr þó aldrei nema tæpur eða um það bil helmingur landsmanna. Hér er farið fram á að 1/4 af þessum 285 millj., sem eru í þéttbýlisvegasjóði í ár, komi til þeirra staða sem verst eru staddir í þessu tilliti á landinu.

Ég vil ekki verða til þess með þessari brtt. — og ég hygg að það sé álit okkar flm. allra — að tefja afgreiðslu þessa máls nú. En ég hygg að það, sem hér er fram á farið, sé í rauninni svo sjálfsagt mál og fullkomlega í anda þeirrar breytingar sem er þegar búið að gera í báðum deildum, þ. e. a. s. að þessi hlutdeild, 10%, sem er hækkuð í 25%, — þessi breyting ætti að geta gengið fyrir sig án þess að nokkur hætta skapaðist á því að lögin strönduðu á því eða afgreiðsla þessa breytingarfrv. við vegalög sem nú gilda.

Ég vil enn og aftur skírskota til almennrar réttlætiskenndar hv. dm. Ég vil biðja þá að þeir reyni að setja sig í spor þess fólks úti á landsbyggðinni sem árum og áratugum saman hefur mátt hafa ófullgerða þjóðbraut í gegnum byggðina hjá sér þannig að þegar umferðin er umtalsverð — og hún fer vaxandi með ári hverju á þessum þjóðvegum í gegnum þéttbýli — þá er byggðin öll ýmist í rykmekki eða aursvaði frá þessari umferðaræð. Ég vona að þessi till., sem er í rauninni mjög lítil breyting frá því sem hv. d. samþykkti í gær, megi ná fram að ganga. Ég hygg að það sé almennt og eðlilegt réttlætismál.