15.05.1975
Sameinað þing: 80. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4324 í B-deild Alþingistíðinda. (3537)

216. mál, vegáætlun 1974-1977

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Út af orðum hæstv. fjmrh., sem hann viðhafði vegna ummæla sem ég lét falla í ræðu minni áðan um fjárveitingu í veg á milli Garðs og Sandgerðis, vil ég aðeins láta það koma fram að mér fellur það miður að hann skyldi í þeirri ræðu sinni láta það henda sig að fara algerlega með rangt mál, hreinlega skrökva. En stundum stendur maður frammi fyrir því að menn finna hvöt hjá sér til þess að haga málflutningi sínum þannig. Hann sagði að hugmyndin um fjárveitingar til þessa vegar hafi komið frá fulltrúum vegamálastjórnarinnar sem mættu á þessum fundi þingmanna í kjördæminu. En það vill nú svo til að ég er hér með í höndum þær tillögur sem þeir lögðu fram á þessum fundi þar sem nákvæmlega var skipt því fjármagni sem til greina kom að við fengjum til ráðstöfunar fyrir kjördæmið, og þar eru nefndir þessir vegir: Þingvallavegur, Hafnavegur, Kjósarskarðsvegur, Elliðavatnsvegur, og tillögur þeirra um fjárveitingu til þessara vega svöruðu til þess fjár, sem fyrir hendi var, og síðan bæta þeir við: „Æskilegt væri að fá fjárveitingar í Eyrarfjallsveg, Vogaveg, Vatnsleysustrandarveg og Meðalfellsveg.“ Það er því ljóst að þeir gerðu ekki einu sinni till. um það að ef aukið fé fengist færi fé til þessa vegar milli Sandgerðis og Garðs. En vegna þess að ég vakti athygli á þörfinni á því að byggja upp veginn milli Sandgerðis og Garðs og lagði áherslu á að ekki síst vegna þess að till. hæstv. ráðh. ásamt öðrum stjórnarþm. eru þær að skera niður fjárveitingar til vegarins milli Garðs og Keflavíkur, þá er þeim mun meiri þörf á því að bæta veginn milli Sandgerðis og Garðs, varð niðurstaða sú á þessum fundi að menn féllust á þetta sjónarmið. Niðurstaðan varð sem sagt sú að taka af þessari upphæð, sem til skipta kom, í veginn milli Garðs og Sandgerðis og minnka þá aftur fjárveitingar til nokkurra þeirra vega sem fulltrúar vegamálastjórnarinnar höfðu gert till. um. Ég aðeins vil láta það koma fram að hæstv. ráðh. fór þarna algerlega með rangt mál.