15.05.1975
Neðri deild: 91. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 4336 í B-deild Alþingistíðinda. (3581)

109. mál, sjóður til aðstoðar við drykkjusjúka

Frsm. meiri hl. (Ragnhildur Helgadóttir) :

Herra forseti. Það er aðeins út af þessum síðustu orðum hæstv. fjmrh. Vissulega er það rétt að tekjur af Áfengisverslun ríkisins eru mikilvægar fyrir ríkissjóð. En ég vil vekja athygli á því, að tekjur Gæsluvistarsjóðs eru þannig hugsaðar í upphafi og samþykktar af Alþ. að þar væri á sínum tíma um að ræða 2% af gróða Áfengisverslunar ríkisins. Við það var upphæðin í upphaflegu lögunum miðuð. Síðan eru liðin mörg, mörg ár og ríkissjóður og Alþ. hefur brugðist skyldu sinni við þennan sjóð. Það hefur, eins og hæstv. heilbrh. sagði hér áðan, e. t. v. verið reynt smátt og smátt að smálaga eitthvað til, aðeins hækka framlagið til Gæsluvistarsjóðs. En það er hvorki í þeim stíl né í þeim mæli eins og hugsað var í upphafi. Það er ekki gert á þann hátt sem ætlast var til þegar þessi sjóður var stofnaður. Þess vegna hefur Alþ. brugðist skyldu sinni við þennan sjóð, og þess vegna getur þessi sjóður ekki fullnægt hlutverki sínu — til tjóns fyrir ríkissjóð n. a.

Hæstv. fjmrh. ætti bara að þakka fyrir að fá þessar tekjur sem af samþykkt þessa frv. mundi leiða. Það er að mínu viti ekki rétt að hér sé verið að skerða tekjustofn ríkissjóðs. Hér er um viðbótargjald að ræða. Ef hæstv. fjmrh. hefur hugsað sér einhvern tíma á árinu að hækka verð á áfengi, sem ég veit ekki um, þá getur hann gert það allt að einu. (Gripið fram í: Þá er þetta orðið ansi dýrt). Já, það er ansi dýrt og gengur út samt. Og Alþ. ákveður með þessu að bæta fyrir meira en áratugs vanrækslusyndir gagnvart Gæsluvistarsjóði, sem á að ganga til móts við þá sem eru illa haldnir vegna ofnautnar áfengis, og þeir eru fleiri en svo og þeir eru verr haldnir en svo að það taki því að tíunda það á hv. Alþ. Ég vil bæta við að hér er ekki um það að ræða að Alþ. sé beðið um að samþykkja neina meginreglu um markaða tekjustofna í eitt skipti fyrir öll. Ég vek athygli á því, að þessar vanrækslusyndir, sem ég er að tala um að hér þurfi að bæta upp, þær á samkv. frv. svolítið að bæta fyrir með því að verja alldrjúgum fjárhæðum í þessu skyni til viðbótar í 10 ár. Samkv. þessu frv. á gildistími væntanlegra laga aðeins að vera 10 ár og ég er þeirrar skoðunar að miðað við hlutfall þess gjalds, sem um er talað í frv., við verð áfengis, þá sé hér ekki um ofætlun að ræða.