28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í B-deild Alþingistíðinda. (361)

44. mál, afnám vínveitinga á vegum ríkisins

Oddur ólafsson:

Herra forseti. Hér hafa sem betur fer farið fram fjörlegar umr. um merkismál. Það kemur mér svolítið á óvart að hér hafa staðið upp þm. sem mér er kunnugt um að líta alvarlegum augum á áfengisvandamálið, sem hafa unnið að áfengisvörnum langtímum saman og viðurkenna að þeir hafi ekkert algilt ráð við ofdrykkjunni og því vaxandi vandamáli í okkar þjóðfélagi. Á þessum mínútum eru þeir á móti boðum og bönnum, sem á þó e.t.v. ekki við allan daginn, og geta ekki hugsað sér að slíkt boð og bann megi viðgangast að ráðh. sé ekki heimilt að hafa áfengi um hönd í sínum boðum. Ég held að við lítum of mikið fram hjá því að áfengið er, eins og við vitum öll, ávanaefni og þegar það viðgengst áratugum saman að sumir menn eru eiginlega hálfskyldaðir til að mæta í boðum og þykir nærri því siðferðileg skylda að vera með í því að drekka brennivín, þá er engin furða, þar sem um viðurkennt ávanaefni er að ræða, að einhverjar afleiðingar verði af því.

Meginatriðíð er það, sem tekið hefur verið hér fram, að almenningsálitið getur verið ein sterkasta vörn gegn áfengisneyslunni. Ég held að það sé varla til sterkara mál til þess að hafa áhrif á almenningsálitið heldur en einmitt þetta, að það sé byrjað ofan frá, það sé byrjað á ráðamönnum þjóðarinnar. Þegar þeim er orðið ljóst að hér er um vandamál að ræða og þegar þeir leggja svo mikið á sig að hætta að hafa áfengi um hönd í veislum, þá er eitthvað að ske. Þá þarf almenningur að fara að hugsa. Ég er ekki í nokkrum vafa að þetta væri eitt sterkasta áróðursefni gagnvart þessu málefni.

Það er alveg rétt að það er ekki nóg fjármagn, sem þeir sem vinna að áfengisvörnum, fá á milli handa. En ég veit ekki betur en a.m.k. allur fjöldi þeirra, sem að þessum málefnum vinna, hafi tekið þessari till. fegins hendi og séu einlægir stuðningsmenn hennar. Hvaðanæva af landinu hafa okkur verið send skrif til þess að styðja okkur í þessu máli.

Það er ekkert einsdæmi að opinberir aðilar veiti ekki vín í veislum. Þetta hefur viðgengist í vissum bæjarfélögum árum saman a.m.k. og ég held að þessi bæjarfélög njóti fullrar virðingar og teljist ekki minni eftir. Það vildi þannig til að einn kunningi minn var gestur Makariosar nokkrum dögum áður en honum var steypt af stóli. Hann var í veislu hjá honum og fékk ávaxtasafa eins og allir aðrir að drekka, og það barst eitthvað í tal meðal félaga hans hverju þetta sætti, að þeir skyldu ekki fá brennivín eins og alls staðar annars staðar. Það var sagt að þeir vildu ekki hafa það fyrir þjóðinni að vera að veita vín í veislum. Hann hefði aldrei gert það síðan hann varð forseti. Mér skilst að þeir teldu þetta vera mjög mikilvægt atriði.

Vaninn er eitt af því alvarlegasta og vandasamasta í meðferð áfengisvandamálsins, og það er einhvern veginn vani að hafa vín í veislum, á sama hátt og það var vani fyrir nokkrum árum að hafa vín í fermingarveislum og á sama hátt og það var vani fyrir nokkrum árum að hafa vín í erfisdrykkju. Í tveim seinni tilfellunum, í fermingarveislum og erfisdrykkju, er þetta aflagt og saknar þess víst enginn, en hitt er eftir og við skulum gera tilraun, ég held að það geti ekki skaðað neitt. Ef einhver ósköp ske og engar veislur verða haldnar eða of fáir koma, þá er ekki annað en að taka till. upp á næsta þingi um að breyta þessu aftur. Þetta er ósköp auðvelt og getur ekki skaðað neinn. Ég vona að í þriðja sinn fáist þessi till. samþ., því ég held að hún sé nokkurs virði.