28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í B-deild Alþingistíðinda. (368)

29. mál, bætt skilyrði til viðtöku hljóðvarps- og sjónvarpssendinga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Það er óneitanlega eitt gott við það þegar menn eru dálítið lengi að komast að kjarna málsins, áheyrendur verða svo fegnir þegar þeir gera það. Mönnum léttir. Flm. þessarar þáltill., hv. 3. þm. Vestf., kom að kjarna málsins þegar hann greindi frá tregðu hv. Alþ. og ríkisstj. gegn því að koma til móts við kröfur Ríkisútvarpsins. Mér rennur jafnan blóðið til skyldunnar þegar rætt er um málefni Ríkisútvarpsins, þegar rætt er um kröfur Ríkisútvarpsins um leyfi til að hækka greiðslur fyrir þjónustu sína á eðlilegan hátt.

Hv. 3. þm. Vestf. mun hafa setið á Alþ. flest þau ár sem hann tilgreindi að hallað hefði á ógæfuhliðina fyrir Ríkisútvarpinu fjárhagslega og átt þó nokkur ár sæti í útvarpsráði á þessu tímabili án þess að hafa beitt beinlínis aflsmun, sem flokkur hans hafði þó yfir að ráða, a.m.k. um nokkurt skeið, til þess að bæta úr þessari neyð Ríkisútvarpsins.

Ég byrjaði störf hjá Ríkisútvarpinu í apríl 1946, og þá þegar minnist ég þess að það var orðið nokkurt bil á milli afnotagjalds útvarps í eitt ár og áskriftargjalds dagblaðs, enda var hann orðinn þegar töluverður, þessi mismunur, árið 1960. Hann hefur aukist allar götur síðan, og þar kom flm. till. nefnilega að kjarna málsins þegar hann gat þess að í tíð viðreisnarstjórnarinnar var afnotagjald útvarps tekið inn í vísitöluna. Það var orðið hættulegt stjórnsýslumál að leyfa afnotagjaldi útvarps að hækka að því marki sem þörf var fyrir þessa öldnu stofnun.

Sú var tíð upp úr lokum heimsstyrjaldarinnar, að Ríkisútvarpið var býsna auðugt. Þegar ég kom til starfa 1946 átti útvarpið í sjóði næga peninga til þess að byggja yfir sig útvarpshús sem var talið að verða mundi eitt af þeim fullkomnustu í Vestur-Evrópu. Fjárins hafði m.a. verið aflað með þeim hætti að samþykkt var aukagjald ofan á afnotagjaldið og lagt í sérstakan sjóð, Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins. Svo þegar þessi sjóður var orðinn það gildur að Ríkisútvarpið ætlaði að byrja smíði útvarpshússins, þá var þessi sjóður náttúrlega tekinn af Ríkisútvarpinu, að parti til þess að greiða innstæðulausar ávísanir ríkissjóðs í Landsbankanum, að parti til þess að greiða gjaldfallnar skuldir Þjóðleikhússins, að parti til þess að lána út byggingarfélögum í Reykjavík. Síðan tók verðbólgan við þessum sjóði, útlánuðum. Skuldirnar hafa að vísu ekki verið greiddar alveg að fullu enn þá, en peningarnir, sem komu inn, upphæðirnar, sem komu inn, voru greiddar í mun léttari krónum.

Ef Ríkisútvarpið hefur þörf fyrir eitthvað núna til að bæta dreifikerfi sitt, bæta dagskrá sína, þá eru það sannarlega ekki áætlanir sem ríkisstj. standi að á einn eða annan hátt. Það liggja fyrir tæknilegar áætlanir, það liggja fyrir kostnaðaráætlanir um þær framkvæmdir sem gera þarf. Það vantar ekki áætlanir. Ríkisútvarpið vantar peninga, að sumu leyti peninga sem af því hafa verið hafðir með klaufaskap hins opinbera og að öðru leyti peninga sem fást mundu inn ef Ríkisútvarpið fengi nú að hækka afnotagjaldið á eðlilegan hátt, þannig að það samsvaraði að nýju áskriftarverði dagblaðs.

Það er orðið býsna langt síðan gerðar voru áætlanir um nýtt dreifikerfi fyrir gamla gufuradíóið, eins og Jón Múli kallar stundum hljóðvarpið í morgunútvarpinu. Þegar fyrir 15 árum lágu fyrir nokkuð nákvæmar áætlanir um að koma upp FM-kerfi fyrir landið allt til dreifingar á dagskrá þess. Af fjárhagsástæðum dróst þetta fram yfir það að sjónvarpi væri dreift um landið. Nú eru aðstæðurnar þær að með því að nýta grundvallarkerfi, undirstöðukerfi sjónvarpsins, sem komið hefur verið upp viða um landið, þ. á m. rafleiðslum og smáhúsakynnum, þá mundi FM-kerfið raunverulega kosta sáralítið á landsmælikvarða, sennilega ekki eins mikið og fjórðungur í skuttogara, sem flm. taldi þó að hægt væri að koma í hvert krummaklof kringum ströndina. Ríkisútvarpið hefði verið búið að leysa þetta vandamál ef því hefði ekki verið synjað um eðlilega fyrirgreiðslu af hálfu hins opinbera. Ríkisútvarpið hefði gert þetta af eigin rammleik og ekki þurft til fjárstyrk af hálfu hins opinbera, ef því hefði ekki verið synjað um eðlilega fyrirgreiðslu. Og ég held að við þurfum ekki að eyða í það löngu máli að Ríkisútvarpinu yrði kleift að koma sjónvarpsdagskránni sinni á stöku dreifða sveitabæi ef það fengi aðeins að starfa eðlilega.