28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í B-deild Alþingistíðinda. (370)

29. mál, bætt skilyrði til viðtöku hljóðvarps- og sjónvarpssendinga

Oddur Ólafsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í stóru fjármálin í þessu sambandi eða þær umr. sem hér hafa farið fram um tekjuöflun Ríkisútvarpsins. Þessi till. fjallar öðrum þræði um bætta nýtingu íslenska sjónvarpsins, um möguleika á að fjölga þeim íslendingum sem eiga völ á því að njóta þess til fulls.

Hér hefur verið gerð rækileg grein fyrir mikilvægi sjónvarpsins sem menningartækis og afþreyingartækis. Erindi mitt hingað var að vekja athygli á hóp manna, sem ekki nýtur íslenska sjónvarpsins til fulls nú í dag, en gæti án allra þessara hundruð millj. kr. útgjalda notið þess í ríkari mæli með tiltölulega auðveldri breytingu. Þetta eru heyrnardaufir eða daufdumbir. Þessi hópur er allstór í þessu landi og líklega stærri en hópur þeirra sem alls ekki geta notið sjónvarps hér vegna þess að þeir búa á annesjum eða þröngum dölum. Hér er sem sagt um stækkandi hóp að ræða, — hóp sem sér myndirnar, en getur ekki heyrt hvað sagt er. Það, sem ég vil biðja þá n., sem tekur þetta mál til skoðunar, að athuga, er hvort ekki væri hægt að koma því til leiðar, að íslenska sjónvarpið stóryki texta sína, sitt skrifaða orð. Það væri ómetanlegt fyrir þetta fólk að geta fengið t.d. fréttir skrifaðar fyrir neðan myndina, geta fengið skrifað orð þegar menn eru í samræðuþáttum, og einnig að um íslenskar kvikmyndir væri eins og þegar erlendar myndir eru sýndar, þá væri skrifað orð fyrir neðan. Eins og ég sagði er þetta stór hópur. En þetta er ekki bara stór hópur, þetta er einangraður hópur. Þetta er hópur sem er í raun og veru miklu einangraðri en fólk, sem býr einhvers staðar útí á landi. Þetta eru einhverjir einangruðustu borgarar þjóðfélagsins og hafa miklu meiri takmarkanir við að njóta af gæðum lífsins heldur en heilbrigt fólk.

Ég held að hér sé hægt að bæta um með tiltölulega litlu fjármagni. Það kostar að vísu eitthvað í rekstrarútgjöldum. En þetta mundi líka koma fólkinu út á landi að gagni. Ég veit það, þegar ég hef horft á sjónvarp úti á landi eða jafnvel hér í nágrenni, að þar truflast oft talið, og mundi vera til stórbóta ef meira væri um skrifað orð.