28.11.1974
Sameinað þing: 14. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (372)

29. mál, bætt skilyrði til viðtöku hljóðvarps- og sjónvarpssendinga

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Hvort mér hefur gengið svo illa að kveða sæmilega skýrt að orði eða hvort ábótavant er hæfileikum hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar til að skilja mælt mál vil ég ekki fullyrða að svo komnu máli. Ég staðhæfi aftur á móti að ég hafi ekki haldið því fram að hann hafi greitt atkv. nokkru sinni, hvorki sem fulltrúi í útvarpsráði né þm., gegn hækkun afnotagjalda Ríkisútvarpsins. Hefði ég látið mér slíkt um munn fara, þá hefði það verið gegn betri vitund, vegna þess að þeim er það kunnugast, sem nærri hafa komið Ríkisútvarpinu, að hann hefur sannarlega stutt við bakið á þeirri stofnun, bæði sem útvarpsráðsmaður og sem alþm. Aftur á móti staðhæfði ég hitt, að á þeim tíma sem hann hefur setið á þingi hefur hallað undan fæti fyrir Ríkisútvarpinu, vegna þess að fjárhag þessarar stofnunar, sem byggði upp eigin fjárhag af eigin rammleik og með starfsemi sinni, — fjárhag þessarar stofnunar var ekki sinnt. Ríkisútvarpið var svipt möguleikanum til þess að halda áfram að vera efnahagslega sjálfstætt. Meginástæðan fyrir því hversu ört hefur hallað undan fæti fyrr. Ríkisútvarpinu hin síðari árin eru einmitt þau 8 ár sem þm. nefndi. Meginástæðan var sú að afnotagjaldið var bundið í vísitöluna og kom með inn í pólitískan hráskinnsleik, sem aldrei skyldi verið hafa. En mér láðist að geta eins, sem skeði í fjárhag Ríkisútvarpsins á þessum síðustu og verstu tímum og olli miklu um versnandi hag, og það var þegar viðtækjaeinkasalan var lögð niður, sem Ríkisútvarpið hafði að meginstoð í fjárhag sínum.

Ég er því sannarlega hlynntur að yfirvöld gefi gaum að fjárhag Ríkisútvarpsins. Ég kynni að greiða atkv. með þáltill. eins og þeirri, sem hv. 3. þm. Vestf. mælti með hérna, ef í till. sjálfri væri gerð grein fyrir raunhæfum ráðstöfunum til úrbóta, svo sem þeirri að viðtækjaeinkasalan verði endurvakin og Ríkisútvarpið fái tekjur af ríkiseinkasölunni til ráðstöfunar í því skyni að byggja upp dreifikerfi sitt, svo sem forðum var. Það væri ein leiðin til þess.

Ég vil umfram allt að málunum verði þannig hagað, þegar unnið verður að því á ný að bæta hag Ríkisútvarpsins fjárhagslega, að þessi aldna stofnun haldi fjárhagslegu sjálfstæði sinn, ekki mun af veita. Og ég mun ganga til liðs við hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson, um að reyna að fá afnotagjöld Ríkisútvarpsins hækkuð á eðlilegan hátt og þannig um hnútana búið, að Ríkisútvarpið hafi frelsi til þess að hækka afnotagjöldin framvegis, þannig að þau standi bæði undir viðhaldskostnaði tæknibúnaðar og eins undir bættu dagskrárefni.

Ég vil ekki ræða langt mál nú, þó að ég hefði þar úr ýmsu að moða, varðandi þær áætlanir, sem fyrr hafa verið gerðar um endurbætur á tæknibúnaði Ríkisútvarpsins, þ. á m. verðum við að láta bíða til síðari tíma að hugleiða möguleikana á því að taka upp stereo-útvarp á Íslandi og kosti þess kerfis fyrir dagskrá Ríkisútvarpsins. En ég ítreka sem sagt, að ég mun gjarnan styðja þessa þáltill. að því tilskildu að þar verði einnig gerð grein fyrir fjáröflunarmöguleikum til að bæta tæknibúnað þess.