04.12.1974
Neðri deild: 15. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (406)

75. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Hæstv. forseti. Ég hef ásamt 8. þm. Reykv., Pétri Sigurðssyni, leyft mér að flytja á þskj. 79 frv. til l. um breyt. á l. nr. 68 frá 15. júní 1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Brtt. okkar er í því fólgin að við leggjum til að tekjur sjómanna af bolfiskveiðum á bátaflotanum verði undanþegnar tekjuskatti.

Eins og við bendum á í grg. með frv. er það staðreynd að bolfiskafli bátaflotans hefur farið minnkandi ár frá ári nú á undanförnum árum. Þetta þýðir auðvitað að tekjur sjómanna, sem þessar veiðar stunda, hafa minnkað að sama skapi þar sem sjómenn byggja tekjur sinar á tilteknum hluta af heildarverðmæti aflans. Hefur þetta leitt til þess að oft á tíðum hefur verið mjög erfitt að manna þessa báta, jafnvel á hávetrarvertíð, og eru síendurteknar auglýsingar skipstjórnarmanna og útgerðarmanna í fjölmiðlum í byrjun hvers árs, þar sem auglýst er eftir mönnum á þann hluta bátaflotans sem bolfiskveiðar stundar, glöggt dæmi um hvaða ástand ríkir í þessum efnum. Fjölmiðlar birta um það fréttir einmitt í dag að fjöldi báta á Suðurnesjum komist ekki á sjó vegna manneklu.

Það skal viðurkennt að það er nokkur vandi á höndum að veita mönnum í einni atvinnugrein meiri skattfríðindi en öðrum. En á það ber að líta að sjómenn á fiskiskipaflotanum hafa um mörg undanfarin ár samkv. lögum haft nokkur skattfríðindi og hef ég aldrei orðið annars var en þetta væri talið eðlilegt og sjálfsagt. Byggist það að sjálfsögðu á því að viðurkennt er að störf sjómanna og afrakstur af erfiði þeirra er það sem þjóðin í heild byggir afkomu sína á og er ein aðalstoðin undir þjóðarbúskap okkar íslendinga. Þetta er almennt viðurkennt og þess vegna hefur sá sjómannafrádráttur, sem í gildi er lögum samkv. verið talinn eðlilegur og sjálfsagður. Flm. telja því að það mundi ekki valda neinni röskun í framkvæmd skattalafa þó að frv. það, sem við höfum hér flutt, yrði samþ., enda hefur það verið viðurkennt frá fyrstu tíð og talið eðlilegt og sjálfsagt að sjómenn h:eru meira úr býtum fyrir vinnu sína en almennt gerist hjá þeim sem í landi vinna, enda í flestum tilfellum um áhættusamari vinnu að ræða hjá sjómönnum og vinnutími þeirra oftast lengri og óreglulegri. Lengi vel var það svo, sem betur fer, að störf sjómanna gáfu meira í aðra hönd en almennt gerðist hjá þeim sem í landi unnu. Þessi hlutföll hafa hví miður raskast hin síðari ár að því er varðar þann hluta bátaflotans sem bolfiskveiðar stundar. Sjómenn geta nú í dag haft betri afkomu við ýmis störf í landi en mögulegt er að sá hluti, sem ég hér hef rætt um, geti tryggt þeim. Þetta er m.a. ástæðan fyrir því að mikill samdráttur hefur orðið í útgerð þessara báta sem leitt hefur til minnkandi heildarafla að því er þorskfiskafla varðar. Vitað er að ekki hefur verið hægt að gera hluta bátaflotans út á hávetrarvertíð á undanförnum árum á hinar hefðbundnu línu- og netaveiðar sökum manneklu, og höfðu þeir bátar, sem ekki gátu fullráðið, orðið að stunda aðrar veiðar, sem minna aflamagn gáfu eða liggja bundnir í höfn.

Samkv. skýrslum Fiskifélags Íslands er heildarafli bátaflotans undanfarin 5 ár sem hér segir: 1970 samt. 387 þús. tonn, 1971 343 þús. tonn, 1972 336 þús. tonn, 1973 285 þús. tonn og til 31. okt. nú í ár 225 þús. tonn á móti 264 þús. tonnum á sama tíma í fyrra.

Þessi skýrsla Fiskifélagsins sýnir glögglega að um verulegan samdrátt er að ræða í heildaraflamagni bátaflotans, sem bæði stafar af minnkandi aflamagni á fiskimiðum og einnig af því að ekki hefur verið hægt að manna bátaflotann að fullu til þeirra veiða sem mestan afla gefa.

Þegar þess er gætt að í mörgum sjávarplássum er það svo enn að afli þeirra báta, sem bolfiskveiðar stunda, er undirstaðan undir öllu atvinnulífi byggðarlagsins er alveg augljóst að stórhætta er á ferðum ef áfram heldur sá samdráttur sem orðið hefur í útgerð þessara báta á undanförnum árum. Þetta á auðvitað ekki við á þeim stöðum þar sem hinir nýju togarar hafa komið í stað bátanna.

En þó að á heildina sé lítið, þ.e. samanlagðan afla togara og báta, sýna skýrslur Fiskifélagsins að um hættulega þróun er að ræða þar sem verulegur samdráttur hefur einnig orðið í heildaraflamagni báta og togara samanlagt, þ.e. þorskfiskafla. Árið 1970 var heildaraflamagn togara og báta samanlagt 467 þús. tonn, en árið 1973 var aflinn samtals aðeins 381 þús. tonn eða 86 þús. tonnum minni en árið 1970. Og í ár var hann aðeins kominn í 350 þús. tonn í októberlok. Þetta sýnir að aukinn togaraafli vegur hvergi nærri á móti minnkandi afla bátanna og er það þróun sem íslendingar verða sannarlega að gefa gaum að.

Í sambandi við framkvæmd þeirra breytinga, sem við leggjum til að gerðar verði á l. um tekju- og eignarskatt, leyfi ég mér að benda á, eins og reyndar kemur fram í grg. með frv., að í skýrslum Fiskifélags Íslands er alveg fast afmarkað hvað átt er við þegar talað er um bolfisk eða þorskfiskafla, þannig að það ætti ekki að vera neinum vandkvæðum bundið fyrir skattayfirvöld að ákveða um hvaða tekjur er að ræða sem frv. gerir ráð fyrir að undanþegnar verði tekjuskatti.

Þá vil ég að lokum leyfa mér að benda á að störf sjómanna hafa ávallt af Alþ. verið metin á þann veg að sjálfsagt hefur þótt að veita þeim, sem þar eiga hlut að máli, aukinn frádrátt við álagningu tekjuskatts, og leyfum við okkur, flm. þess frv., sem hér liggur fyrir, að vona að frv. nái fram að ganga.

Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.