05.12.1974
Sameinað þing: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 568 í B-deild Alþingistíðinda. (434)

38. mál, brú yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi

Garðar Sigurðsson:

Herra forseti. Á þskj. 41 er fsp. í þrem liðum frá Þór Vigfússyni, sem tók sæti sem varamaður minn í byrjun þessa þings. Spurningarnar eru um smíði brúar yfir Ölfusá við Óseyrarnes.

Þetta er orðið býsna gamalt mál hér á hv. Alþ. Það var á árunum 1952 og 1953 sem lagðar voru fram till. um smiði þessarar brúar með mjög ákveðnum rökstuðningi um nauðsyn brúargerðarinnar fyrir þorpin austan ár, útgerð og fiskvinnslu þar og afnot báta þorpsbúa af höfninni sem þá var ný í Þorlákshöfn. 1953 var samþ. á Alþ. að reisa brú hjá Óseyrarnesi, „enda leiði rannsókn í ljós að brúarstæði sé öruggt og brúarsmíðin sé mikill þáttur í að tryggja afkomu íbúanna í sjávarþorpum austan fjalls,“ eins og segir í samþykktinni.

Síðan eru liðnir tveir áratugir og engin brú á leiðinni svo að vitað sé, en hins vegar kunnugt að brúarstæði er öruggt og hafi brúargerð þá verið stór þáttur í að tryggja afkomu íbúanna, sem er vafalaust, þá er miklu meiri ástæða til þess nú.

Til þess að röksemdir komi beint frá þeim, sem vandinn brennur mest á, ætla ég — með leyfi forseta — að lesa grg. sem stokkseyringar sendu með áskorun á Alþ. og ríkisstj. nú í vetur um byggingu þessarar brúar. Grg. er svo hljóðandi:

„Stórframkvæmdir eru nú að hefjast við landshöfnina í Þorlákshöfn. Framkvæmdir þessar nýtast ekki næstu grannþorpum Þorlákshafnar, kauptúnunum austan Ölfusár, án brúar á Ölfusárósa.

Mikil uppbygging hefur átt sér stað í útgerð og fiskvinnslu á Stokkseyri síðustu ár. Fjárfesting í fiskiðjuveri staðarins nemur 110 millj. kr. á s.l. 5 árum og framleiðsluverðmæti afurða þess var á síðasta ári 180 millj. kr. og mun að líkindum nema á yfirstandandi ári 230 millj. kr. Frá Stokkseyri eru nú gerðir út 11 bátar. Allir eru þeir meira og minna háðir Þorlákshöfn vegna brimlendingar á Stokkseyri, og hinir stærstu eru þar alveg því að stærri bátar en 60 tonn geta ekki lent á Stokkseyri. Uppbygging Hraðfrystihúss Stokkseyrar og aukin afköst þess kalla á enn stærri skip til að tryggja því öruggt hráefni allt árið, sem er forsenda fyrir starfrækslu þess og viðunandi afkomu þeirra sem þar vinna. Flutningskostnaður á fiski frá Þorlákshöfn til Stokkseyrar er nú þegar gífurlegur og mun enn aukast er skipin stækka og verða fleiri bundin Þorlákshöfn. Er þá ótalið óhagræði sjómanna að þurfa að fara svo langan veg til báta sinna.

Að framansögðu má ráða hve brýnt hagsmunamál stokkseyringa er að tengjast hinni nýju landshöfn í Þorlákshöfn, en brúin á Ölfusárósa mundi stytta leiðina fram og til baka milli Þorlákshafnar og Stokkseyrar úr 100 km í 34.“

Þetta var grg. stokkseyringa, en augljóslega gildir sama um íbúa Eyrarbakka. Af eigin orðum þessa fólks má vera ljóst hvílíkt nauðsynjamál er hér á ferðinni og þjóðhagslega hagkvæmt. Af þessum rökstuðningi sést einnig að fyllsta ástæða var til að varpa fram þeim spurningum sem fram koma í fsp:, sem er á þessa leið:

„Hvað líður undirbúningi að smíði brúar yfir Ölfusá hjá Óseyrarnesi? Hver er nú talinn kostnaður við smíði þeirrar brúar? Hefur hæstv. samgrh. í hyggju að beita sér fyrir því, að Óseyrarnesbrúin verði tekin inn á vegáætlun næst þegar hún verður afgreidd á Alþingi?“