09.12.1974
Efri deild: 16. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 586 í B-deild Alþingistíðinda. (458)

84. mál, útvarpslög

Menntmrh. (Vilhjálmur Hjálmarsson):

Herra forseti. Í aths. við þetta lagafrv., sem raunar er ekki nema 5 línur, er rakið efni frv. í megindráttum og greint frá tilgangi þess, Í þessum aths. segir þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Í gildandi útvarpslögum, nr. 19/1971, er mælt fyrir um að útvarpsráð skuli kjörið til fjögurra ára. Áður voru lagaákvæðin á þann veg að útvarpsráð skyldi kjörið eftir hverjar alþingiskosningar. Með því var tryggt að skipan útvarpsráðs, sem ber að gæta fyllstu óhlutdrægni, væri jafnan í samræmi við skipan Alþ. Þykir rétt að hverfa á ný að þessu ráði.“

Við þetta hef ég nánast engu að bæta. Útvarpsráð hefur verið valið með hlutfallskosningu á Alþ. allt síðan 1939 eða í 35 ár. Það þýðir í reynd að stjórnmálaflokkarnir ráða vali útvarpsráðsmanna og styrkleikahlutföll þeirra á þingi, þegar kosningin fer fram, segja til um hve marga fulltrúa hver stjórnmálaflokkur fær kjörna. Á meðan þessi háttur er á hafður sýnist mér eðlilegt að skipan útvarpsráðs sé jafnan í samræmi við skipan Alþ., en það getur hún af augljósum ástæðum ekki orðið nema kosning fari fram á fyrsta þingi eftir alþingiskosningar.

Ég fjölyrði ekki frekar um frv., en leyfi mér, herra forseti, að leggja til að því verði vísað til hv. menntmn. að lokinni 1. umr.