09.12.1974
Efri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 594 í B-deild Alþingistíðinda. (468)

84. mál, útvarpslög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Herra forseti. Hv. síðasti ræðumaður hafði nokkuð stór orð um sum efni, sem hann vék að í ræðu sinni. Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. um það hvernig núv. útvarpsráð hefur rækt hlutverk sitt, en hér er um mjög þýðingarmikið mál að ræða að mínu viti, og það leiðir af því hve ríkisfjölmiðlarnir eru þýðingarmiklir í sjálfu sér.

Í 1. gr. útvarpslaganna segir, að Ríkisútvarpið sé sjálfstæð stofnun í eign íslenska ríkisins. Ég hef alltaf talið, að leggja beri sérstaka áherslu á sjálfstæði Ríkisútvarpsins, sjálfstæði gagnvart öllum stofnunum, samtökum, flokkum og hagsmunahópum í þjóðfélaginu, og ekki nóg með það: sjálfstæði gagnvart handhöfum ríkisvaldsins á hverjum tíma. Þetta er grundvallaratriði í okkar frjálsa þjóðskipulagi. Þar sem lýðræði er ekki í hávegum haft eða einræði ríkir er þessi regla ekki í heiðri höfð, eins og við vitum. Þar beita valdhafarnir hinum voldugu ríkisfjölmiðlum til að viðhalda völdum sínum og til að tryggja sig í sessi. Þetta samrýmist ekki leikreglum lýðræðisins. Það hefur öllum verið ljóst og verið viðurkennt í þessu landi síðan Ríkisútvarpið hóf göngu sína.

En vegur sá, sem Ríkisútvarpinu hefur verið ætlaður, er vandrataður í mannlegum ófullkomleika. Aðalatriðið er samt að menn missi aldrei sjónir á leiðarljósum þeim sem eiga að varða veginn.

Í löggjöf okkar hafa frá fyrstu tíð verið reglur um þessi efni. Í gildandi útvarpslögum er þetta orðað svo: „Ríkisútvarpið skal í öllu starfi sínu halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur. Það skal virða tjáningarfrelsi og gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í opinberum málum, stofnunum, félögum og einstaklingum.“ Hlutverk útvarpsráðs er að gæta þess, að ákvæðum þessum sé fylgt. Það er mikilvægt og vandasamt hlutverk.

Viðreisnarstjórnin lét fara fram vandaða endurskoðun á útvarpslögunum. Á grundvelli þessarar endurskoðunar samþ. Alþ. ný útvarpslög árið 1971. Ýmsar breytingar voru þá gerðar sem stefna í þá átt að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins, og þá var ákveðið að útvarpsráð skyldi kosið af Alþ. til fjögurra ára í senn. Áður gilti sú regla, eins og við vitum allir og hér hefur þegar verið bent á, að útvarpsráð skyldi kosið að loknum hverjum alþingiskosningum, þ.e. það fyrirkomulag sem nú er lagt til með frv. því sem hér er til umr. Ég leit svo á árið 1971 að breyting sú, sem var gerð á kosningu útvarpsráðs, væri til bóta. Hún lagði áherslu á þann skilning á hlutverki útvarpsráðs, að það ætti og því ætti að vera treystandi til að gæta óhlutdrægni í störfum sínum án tillits til þess hvaða ríkisstj. sæti að völdum, hvort stjórnarskipti yrðu eða ekki eða alþingiskosningar á kjörtímabili þess. Getur nokkur verið á móti því að útvarpsráð vinni störf sín í þessum anda? Það ætti ekki að vera.

En nú segja menn, að útvarpsráð eigi að vera svo skipað að það sé spegilmynd af styrkleika flokkanna á Alþ. sem kýs það. Hæstv. menntmrh. notaði ekki þetta orð, „spegilmynd“, í framsögu sinni áðan. Honum er vorkunn að hafa ekki gert það á sama veg og hann gerði í viðtali við Sjónvarpið um efni þessa frv., en í viðtalinu við Sjónvarpið gerði hann, að ég hygg, nokkru ítarlegri grein fyrir frv. og efni þess en í framsögu sinni áðan.

Það er fært fram sem rök fyrir breytingu þeirri, sem felst í þessu frv., að kjósa útvarpsráð að loknum hverjum alþingiskosningum, að þá sé útvarpsráð spegilmynd af Alþ. hverju sinni. Það er auðvitað rétt, að styrkleikahlutföll stjórnmálaflokkanna geta breyst og breytast oft við alþingiskosningar. En við skulum þá hafa í huga að styrkleikahlutföll stjórnmálaflokkanna geta breyst í þessu sambandi þó að engum alþingiskosningum væri fyrir að fara. Minnstu þingflokkarnir geta ekki fengið kjörinn fulltrúa í útvarpsráð nema með fulltingi eða í samvinnu við aðra flokka. Hvort þeim tekst það eða ekki getur farið eftir því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þannig gæti stjórnarandstöðuflokkur orðið utangarðs við kjör í útvarpsráð í upphafi kjörtímabils, en haft möguleika síðar á kjörtímabilinu gegnum stjórnarsamstarf ef stjórnarskipti hefðu farið fram. Þannig gæti spegilmyndin af styrkleikahlutföllum á Alþ. verið breytileg. Ættum við þá e.t.v. til að öllu réttlæti verði framfylgt að kjósa nýtt útvarpsráð við hver stjórnarskipti.

Ég verð að segja það að ég legg ekki mikið upp úr þeirri einu ástæðu sem hæstv. menntmrh. færði fram fyrir flutningi þessa frv., eins og kom fram í framsögu hans hér áðan. Það má lengi finna eitthvað að aðferðinni við kjör útvarpsráðs. E. t. v. getum við sagt að núgildandi fyrirkomulag sé það versta að undanskildum þeim aðferðum sem við höfum áður reynt. En þegar við dæmum um, hver sé besta aðferðin við val á útvarpsráði, er mest um vert að missa ekki sjónar af hlutverki útvarpsráðs. Þó að menn séu kjörnir í útvarpsráð fyrir tilstyrk ákveðinna stjórnmálaflokka á Alþingi er það hlutverk þeirra að gæta fyllstu óhlutdrægni gagnvart öllum flokkum og stefnum í opinberum málum, stofnunum, félögum og einstaklingum eins og segir í útvarpslögunum. Alþingiskosningar breyta engu um þetta. Þess vegna er grundvallarmisskilningur að halda því fram að það gildi það sama um útvarpsráð og mörg önnur ráð og nefndir sem Alþ. kýs að loknum alþingiskosningum. En þessi skoðun kom fram hjá hæstv. menntmrh., að því er mér virtist áðan, og ef hún kom ekki fram áðan, þá hefur hún komið í Sjónvarpinu í því viðtali sem ég vitnaði í.

Við verðum að hafa í huga að það er eðlilegt og getur verið nauðsynlegt að sá háttur sé hafður á um aðila, sem hafa það hlutverk að framkvæma þá stjórnarstefnu, sem meiri hl. Alþ. og ríkisstj. móta á hverjum tíma, að þar fari fram skipti á mönnum um leið og stjórnarskipti fara fram. Annars getur ríkisstj. ekki framfylgt stjórnarstefnu sinni. Við þessu er ekkert að segja, það er meira að segja sjálfsagt. En óhlutdrægni Ríkisútvarpsins á að vera í fullu gildi, hver sem stjórnarstefna kann að vera á hverjum tíma, og þetta er kjarni málsins.

Ég er enn sömu skoðunar og 1971 að þá breytingu, sem þá var gerð á reglum um kjörtímabil útvarpsráðs, hafi verið rétt að gera. Hvað getur þá réttlætt að hverfa aftur til hins gamla fyrirkomulags? Er það einhver reynsla sem fengist hefur af breyt. frá 1971? Ég heyrði ekki að það kæmi fram í ræðu hæstv. menntmrh. En ef verið er að breyta, er þá ekki rétt að spyrja að því og hvers vegna gerir menntmrh. það ekki, hvort reynslan sé sú að það þurfi að gera slíkt. Nú tel ég að það sé svo skammur tími liðinn síðan þetta skipulag var upp tekið að það sé ekki hægt að dæma beinlínis um breytinguna af reynslu sem hafi fengist.

En við skulum ekki fara eins og köttur í kringum heitan graut í þessu máli. Það hafa orðið breytingar á störfum útvarpsráðs á tímabilinu frá 1971. En það eru breytingar, sem að mínu viti verða ekki raktar til breytinga á reglum um lengd kjörtímabils útvarpsráðs. Þegar ég tala um breytingar á ég við þann ófrið og styr sem hefur verið um störf núv. útvarpsráðs og lýst hefur sér í almennum ásökunum um hlutdrægni og misnotkun í pólitískum tilgangi.

Ég á sæti í því útvarpsráði, sem nú situr, og ég ætti því að vera kunnugur hnútunum. Ég hef persónulega ekkert nema gott um alla núv. útvarpsráðsmenn að segja eins og alla samstarfsmenn mína í útvarpsráði fyrr og síðar. Það útvarpsráð, sem nú situr, hefur gert marga hluti góða og fitjað upp á ýmsum nýjungum í dagskrárgerð, eins og öll útvarpsráð hafa gert fyrr og síðar. En þessi skoðun mín breytir ekki því, að ég er sammála í höfuðatriðum gagnrýni þeirri, sem fram hefur komið, og skil hneykslun og reiði sem vakin hefur verið meðal almennings af þessum sökum. En ég ætla ekki á þessum vettvangi að fara að ræða þessi mál og taka upp deilur sem ég hef allt þetta kjörtímabil útvarpsráðs staðið í við meiri hl. útvarpsráðs, menn sem ekki eru hér viðstaddir.

En þó að þetta sé svo, að það sé óánægja með störf núv. útvarpsráðs, er það þá ástæða til þess að breyta útvarpslögunum og reglunum um kjörtímabil útvarpsráðs? Ég efast mjög um það. Ég tel að breytingin frá 1971 hafi haft við rök að styðjast og sé og hafi verið gerð í þeim anda sem þýðingarmest er að ríki í Ríkisútvarpinu, og það þarf meira en lítið að mínu áliti til þess að það réttlæti að víkja frá þeirri stefnu sem viðreisnarstjórnin markaði með lögum 1971. Ég leyfi mér að efast um að óánægja með útvarpsráð, sem hlýtur að vera tímabundin, því að kjörtímabil útvarpsráðs er tímabundið og mjög lítið á það, eigi að ráða úrslitum um það hvaða afstöðu við tökum til þessa máls. Ég leyfi mér að efast um það.

Ég vildi, herra forseti, lýsa þessari skoðun minni nú þegar við 1. umr.