09.12.1974
Efri deild: 17. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 596 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

84. mál, útvarpslög

Stefán Jónsson:

Herra forseti. Ég leyfi mér að taka heils hugar undir meginefnið í ræðu hv. þm. Þorv. Garðars Kristjánssonar um frv., sem hér er fram komið. Sjálfum er mér í fersku minni mörg óánægjan út af mörgum útvarpsráðum allar götur frá því í apríl 1946. Við skulum minnast þess, að útvarpsráð hefur aldrei verið kosið til þess að allir séu ánægðir með það. Ekkert slíkt útvarpsráð hefur setið, ekki nokkurn tíma. Ekkert útvarpsráð hefur heldur verið kosið til þess að endurspegla styrkleikahlutföll stjórnmálaflokka á þingi. Útvarpsráði hefur, að því er ég best veit, aldrei verið ætlað að endurspegla nokkurn skapaðan hlut af Alþ. — aldrei.

Ég hef orðið þess var að ýmsir þeir, sem kunnugastir eru starfsháttum Ríkisútvarpsins og mesta umhyggju bera fyrir því, eru einmitt þeirrar skoðunar, sem hv. þm. Þorv. Garðar Kristjánsson lýsti áðan, að nú sé um að gera að reyna til hlítar hið nýja fyrirkomulag á kosningu útvarpsráðs, ef vera kynni að nudda mætti málunum áleiðis í þá átt, sem ýmsir góðir menn hafa lengi viljað í stefna, því að gera útvarpsráð sem óháðast ríkisstj. hverju sinni.

Það nær ekki nokkurri átt, þó að ónefndur flokkur hafi asnast til þess að kjósa í útvarpsráð mann, sem reyndist vera öðruvísi en hann hafði reiknað með, að hlaupa til og breyta þriggja ára gömlum lögum varðandi kosningu í útvarpsráð. Sá flokkur verður að reyna að passa sig betur næst þegar kosið er í útvarpsráð. Það má ekki láta slíkan klaufaskap bitna á þessari öldnu stofnun eða e.t.v. ágætri lagasmið um rekstur hennar.

Þessu frv. verður endilega að vísa frá, og ég held að það mundi spara okkur tíma að því verði ekki einu sinni vísað í nefnd.