10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 621 í B-deild Alþingistíðinda. (513)

304. mál, rafvæðing dreifbýlisins

Fyrirspyrjandi (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Í nóv. 1971 lagði þáv. iðnrh. fram hér á þingi till. að þriggja ára áætlun um lúkningu sveitarafvæðingar. Hún var lögð fram í tilefni af fsp. sem ég lagði fram þá um framkvæmd á þessu sviði. Í þessari áætlun er gert ráð fyrir því að koma rafmagni frá samveitum til 765 býla af þeim 930 sem upplýst er í þessari áætlun að ekki hafi hlotið rafmagn frá samveitum. Þar er jafnframt að finna upplýsingar um hvenær einstök byggðarlög verði rafvædd og einnig upplýsingar um þau býli sem eftir verða að þessu áætlunartímabili loknu.

Ég held að það sé ekki ofsagt að þessi áætlun hefur síðan verið biblía þeirra sem vænst hafa rafmagns frá samveitum og oft verið litið til hennar og gert ráð fyrir að við hana verði staðið, enda hef ég enga ástæðu til að ætla annað. Hins vegar er það staðreynd að framkvæmd þessarar áætlunar hefur dregist allmikið. Til þess liggja eflaust ýmsar ástæður. Oft er um þær spurt og ég held að það sé gott að fá þær fram. Einn liður í minni spurningu er því þannig. En ekki síður er að því spurt og menn vilja fá að vita hvort öruggt megi ekki vera að við áætlunina verði staðið og lokið við rafvæðingu þeirra 765 býla sem gert er ráð fyrir að rafvæða, þótt nú sé lokið því þriggja ára tímabili sem áætlunin nær til.

Með tilliti til þessa hef ég lagt fram fsp. á þskj. 49 og er sú fsp. í 5 liðum. Ég spyr í fyrsta lagi að því hvað líði framkvæmd þriggja ára áætlunar um rafvæðingu dreifbýlisins. 2) Hvaða meginbreyt. hafa verið gerðar á þeirri þriggja ára áætlun um rafvæðingu dreifbýlisins sem lögð var fram í nóv. 1971? til skýringar þessu verð ég að segja, að því miður hygg ég að við þm. dreifbýlisins höfum orðið að stríða við ýmsar hugmyndir um breyt. á þessari áætlun. Tel ég það að ýmsu leyti alvarlegt. Þegar mönnum hefur verið lofað rafmagni á þennan máta er nauðsynlegt að standa við það. 3) Hvenær má ætla að framkvæmdum skv. þessari áætlun verði lokið? 4) Hvað hefur valdið töfum á framkvæmd umræddrar áætlunar? 5) Hvenær er gert ráð fyrir rafvæðingu Árneshrepps í Strandasýslu? Það er ekki að ástæðulausu að ég spyr að þessu því að s.I. vor voru uppi hugmyndir um að sleppa Árneshreppi í Strandasýslu úr þessari áætlun, en sem betur fer tókst að koma í veg fyrir það. Hins vegar hefur línustæðið þar ekki enn verið hannað og undirbúið eins og nauðsynlegt er ef framkvæmdir eiga að verða næsta sumar. Því spyr ég sérstaklega um þann hrepp.