10.12.1974
Sameinað þing: 20. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 626 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

308. mál, atvinnulýðræði

Fyrirspyrjandi (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. mjög greinargóðar og ítarlegar upplýsingar. Því miður kemur það í ljós sem ég óttaðist og ýmsir þeirra, sem við mig hafa talað, að árið 1970 þegar reglugerðin um alþjóðlegt fiskveiðieftirlit utan landhelgi og fiskveiðilögsögu er sett í kjölfar sérstakrar samþykktar sem Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndin gerir, þá fær einn maður skírteini útgefið skv. samþykkt Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar. Síðan gerist ekkert í málinu fyrr en á árinn 1974, eftir heil 3 ár. Þá fyrst fá 3 aðrir eftirlitsmenn útgefin eftirlitsleyfi. Og svo er þess að vænta að 4 aðrir, sem nú hafa lokið slíkri þjálfun, fái eftirlitsleyfi útgefin. Þetta tel ég ekki með öllu vansalaust fyrir þjóð eins og okkur sem stöndum í hörðum slag í landhelgismáli þar sem ein sterkasta röksemdin er verndunarröksemdin, að þá skuli því vera þannig farið, þegar við fáum ýmsar viðsemjendaþjóðir okkar til þess að fallast á reglugerðir eða samþykktir um eftirlit með veiðarfærabúnaði skipa í nánd við Ísland að þá skuli ekki betur að framkvæmdinni staðið hjá okkur en það að það liði 3 ár, næstum 4 ár, frá því að slík reglugerð er sett og þangað til tiltækir eru 4 eftirlitsmenn á Íslandi til þess að fylgja þeirri reglugerð eftir. Þetta er ekki framkvæmd að mínu skapi og því miður staðfestir þetta það sem t.d. vestfirskir sjómenn hafa haldið fram, að eftirlitið hafi ekki verið eins raunhæft og nauðsynlegt hefði verið.

Ég játa það vissulega og okkur er það öllum ljóst að landhelgisdeilan hefur haft slæm áhrif á aðstöðu til þess að koma þessu eftirliti við. En þetta er eingöngu og einvörðungu íslensk framkvæmd, að skipa eftirlitsmenn til þess að framkvæma það eftirlit sem þessar þjóðir allar hafa gengist undir að íslendingar geti framkvæmt.

Ef við lítum á aðrar tölur, sem hæstv. ráðh. nefndi, og ég þakka honum enn og aftur fyrir mjög greinargóð svör, þá kemur það í ljós t.d. að á árinu 1972 er aldrei farið um borð í erlent skip utan 50 mílna lögsögunnar þar sem íslenskir eftirlitsmenn hafa fullt leyfi til þess að fara um borð til að athuga veiðarfærabúnaðinn. Það er aldrei á því ári farið um borð í erlent fiskiskip, erlendan togara til þess að athuga, hvort veiðarfæraútbúnaður hans sé löglega frá genginn. Það er e.t.v. ekki furða þó að þessir erlendu togarar leiki þann leik að veiða hér upp við Ísland með veiðarfærum sem vinna eins og ryksugur, hreinsa allan fisk, ekki aðeins þann fisk sem þeim er ætlað að fá, heldur smáfisk líka, með því að klæða poka og jafnvel alla vörpuna með smáriðnu neti, þegar ekki er betur að framkvæmdinni staðið af okkar hálfu.

Ég ætla ekki að gagnrýna þessa framkvæmd frekar. Meginatriði málsins er að úr því, sem vanrækt hefur verið fram til þessa, sé bætt. Ég vil skora á hæstv. dómsmrh. að sjá til þess, að við íslendingar stöndum í stöðu okkar hvað þetta varðar og látum það ekki á okkur sannast að við séum ekki menn til þess að standa fyllilega fyrir okkar hlut í sambandi við eftirlit með fiskveiðum í kringum landið, eftirlit með veiðum erlendra togara, þegar það liggur fyrir að íslendingar hafi gefið út fyrir 4 árum reglugerð um þetta efni, sem er gefin út eftir að aðildarþjóðir Norðaustur-Atlantshafsfiskveiðinefndarinnar hafa gert samþykkt sem er grundvöllur að þessari reglugerð og heimilar okkur að framkvæma það eftirlit sem við höfum svo illa framkvæmt til þessa.