10.12.1974
Sameinað þing: 21. fundur, 96. löggjafarþing.
Sjá dálk 661 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

73. mál, kaup á farþegaskipi er sigli milli Íslands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Danmerkur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég er einn af þeim sem eru þeirrar skoðunar að það hafi verið mikið áfall í raun og veru fyrir okkur þegar við misstum Gullfoss og fengum ekkert farþegaskip í hans stað.

Eins og fram hefur komið hér, er þetta nú ekkert nýtt mál. Þessi till. hefur verið flutt hér áður, og að mig minnir fyrir nokkrum árum var flutt till. af líkri gerð. En það, sem hefur nú komið í veg fyrir það að úr framkvæmdum yrði, er sem sagt vantrúin á að hægt sé að reka svona skip.

Það kom fram í ræðu flm. áðan að t.d. færeyingar hefðu áhuga á því að þetta mál kæmist í framkvæmd, og ég er raunar ekkert hissa á því. En þá kemur mér í hug spurning sem ég vil láta koma hér fram: Er óhugsandi að það gæti hafist samvinna á milli t.d. færeyinga, norðmanna og íslendinga um smíði og rekstur á svona skipi? Það er líklegra, ef samvinna gæti hafist um slíkt, að það yrði meiri áhugi hjá þessum þjóðum að nota skipið, t.d. frá hendi norðmanna til að koma hingað. Þetta er mál sem þarf að kanna.

Ég er einn af þeim sem óttast að það verði erfitt að reka svona skip. Það er enginn vafi á því að það verður nokkuð dýrt í byggingu. Mér þætti það ekki mikið þó að skip af þeirri gerð, sem flm. er að tala um og setur hér fram, muni kosta yfir milljarð og þá er sýnilegt að það þarf töluvert til að reka þetta skip, ekki síst ef það eru ekki not fyrir það nema kannske 7–8 mánuði eða varla það. En þá þyrfti sú n., sem fær málið til skoðunar, að athuga það og jafnvel að reyna að afla sér upplýsinga um hvort þetta gæti komið til. að t.d. norðmenn og færeyingar og jafnvel Norðurlöndin öll mundu geta staðið að því að byggja og reka svona skip.